There are no translations available.

Rannsókn á lífsháttum urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn

Hvaða urriðastofnar standa að baki veiðinni á veiðisvæðum OR í Ölfusvatnsárósi og Þorsteinsvík? 

Hvar halda þeir fiskar sig í Þingvallavatni þegar þeir dvelja ekki á þessum veiðisvæðum?

Hve stór er hrygningarstofn urriða af Ölfusvatnsárstofni?  

Hvar eru helstu dvalarstaðir urriða af Ölfusvatnsárstofni í Þingvallavatni á hverri árstíð? 

Hve mikið endurveiðist í Þingvallavatni af urriðanum sem fluguveiðimenn á veiðisvæðum OR sleppa, og hve mikið af honum skilar sér í árnar til hrygningar?

Svör við þessum spurningum og fleiri sem svara er leitað við,  eru nú byrjuð að skila sér frá rannsókn Laxfiska á lífsháttum urriða í sunnanverðu Þingvallavatni. Dæmi um þær upplýsingar má sjá í samantektinni hér að neðan auk þess sem komið er inn á markmiðin að baki rannsókninni og litið á aðferðafræðina sem öflun upplýsinganna byggist einkum á. Í lokin er komið inn á mikilvægi þess að nýta þær nýju upplýsingar sem komið hafa fram til að tryggja hag Þingvallaurriðans enn frekar.

 

Markmið og gögn
Rannsóknafyrirtækið Laxfiskar hóf vorið 2015 rannsókn á lífsháttum urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn. Rannsóknin sem mun standa fram á árið 2018 nýtur styrks frá Orkuveitu Reykjavíkur og er unnin í samstarfi við Ion fishing, leigutaka veiðiréttarins á veiðisvæðum Orkuveitu Reykjavíkur.

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kortleggja lífshætti urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn og ennfremur að afla upplýsinga um það hvernig urriðar sem sleppt er í kjölfar stangveiði á þeim á veiðisvæðum Orkuveitu Reykjavíkur skila sér að nýju inn í veiðina og til hrygningar. Ölfusvatnsá sem er í lögsögu Orkuveitu Reykjavíkur er skoðuð sérstaklega með hliðsjón af þeim urriðum sem mynda hrygningarstofn árinnar. Rannsóknin byggir öðru fremur á merkingum urriða þar sem í senn eru notuð hefðbundin útvortis fiskmerki og ýmsar gerðir rafeindafiskmerkja, en byggir einnig á fyrirliggjandi óunnum gögnum Laxfiska frá merkingum á urriða í sunnanverðu Þingvallavatni 2003-2014 sem unnin eru og sett fram. Merkingar eru framkvæmdar á veiðisvæðum OR við Þingvallavatn í Ölfusvatnsárósi og í Þorsteinsvík sem og á hrygningarfiski í Ölfusvatnsá sem einnig er í lögsögu OR. Merkingar á veiðisvæðum OR byggjast á stangveiddum urriða, bæði á geldfiskum og hrygningarfiskum. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar hafa gefið mjög fróðlegar og hagnýtar upplýsingar um urriða sem dvelja um lengri eða skemmri tíma á veiðisvæðunum í Þorsteinsvík og í Ölfusvatnsárósi og um urriða sem hrygna í Ölfusvatnsánni. Um leið hefur gagnsemi „veiða og sleppa” veiðifyrirkomulagsins sem nýlega var innleitt á veiðisvæðum OR verið staðfest.

 landfraedileg_voktun_urrida_nr4_2015_2016_thingvallavatn_laxfiskar

Gönguhegðun 5,5 kg hrygnu (númer 4) í Þingvallavatni með hliðsjón af viðveru hennar á þeim svæðum sem vöktuð voru með skráningarstöðvum sem starfræktar voru á tímabilinu frá því að hrygnan gekk úr Ölfusvatnsá í Þingvallavatn að aflokinni hrygningu í nóvember 2015, allt þar til gögn voru síðast lesin úr skráningarstöðvunum um miðjan september 2016. Dvöl á viðkomandi stöð fyrir hverja viku er gefin upp sem hlutfall af heildartíma viðkomandi viku á klukkustundargrunni. Hver stöð hefur sinn auðkennislit svo sem útlistað er á myndinni. Upplýsingar eru tilgreindar um fiskinn og skráningar hans sem og ljósmynd sem tekin var samhliða merkingu hans.


Landfræðileg kortlagning á viðdvöl og ferðum
Vöktun á dvöl hljóðsendimerktra urriða í Ölfusvatnsárósi og Þorsteinsvík og í norðurhluta Þingvallavatns skiluðu tæplega 82 þúsundum skráningum frá 14 urriðum, sem eru fyrstu gögn af þeim toga sem safnað hefur verið fyrir urriða af Ölfusvatnsárstofni. Á meðal þess sem kom fram er að hluti hrygningarstofns Ölfusvatnsár hefur vetursetu á svæðinu undan Ölfusvatnsárósi. Fróðlegt var einnig að sjá að bæði geldfiskar og hrygningarfiskar urðu uppvísir að því að dvelja í norðurhluta Þingvallavatns að vori og snemmsumars eftir að þeir hófu árlegar ætisgöngur sínar í kjölfar vetursetu. Skráð dvöl hljóðsendimerktra urriða á svæðinu við Ölfusvatnsárós sýnir að það svæði og næsta nágrenni í suðurhluta Þingvallavatns er mikilvæg ætisslóð Þingvallaurriða, sérstaklega að vori og fyrrihluta sumars. Jafnframt kom í ljós að urriðar á ætisgöngu nýta Þorsteinsvíkursvæðið umtalsvert. Einhver mesta skráða þaulseta fisks á því svæði var hjá 53 cm löngum geldfiski sem eyddi stórum hluta af tíma sínum þar í maí og júní líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Urriðarnir fóru almennt ítrekað á milli Ölfusvatnsáróss og Þorsteinsvíkursvæðisins frá vori til hausts.

 

landfraedileg_voktun_a_ferdum_urrida_nr13_2016_thingvallavatn_laxfiskar

Gönguhegðun 1,9 kg geldfisks (númer 13) í Þingvallavatni með hliðsjón af viðveru hans á vöktuðum svæðum frá því að hann var merktur í Ölfusvatnsárósi 2. apríl 2016 allt þar til síðasti aflestur gagna úr skráningarstöðvunum fór fram um miðjan september 2016. Dvöl á viðkomandi stöð fyrir hverja viku er gefin upp sem hlutfall af heildartíma viðkomandi viku á klukkustundargrunni. Hver stöð hefur sinn auðkennislit svo sem útlistað er á myndinni. Upplýsingar eru tilgreindar um fiskinn og skráningar hans sem og ljósmynd sem tekin var samhliða merkingu hans.


kort_yfir_ferd_urrida_i_april2016_thingvallavatn_laxfiskar

Loftmyndakort af Þingvallavatni þar sem merkt er inn ferðalag geldfisks um Þingvallavatn enda þess á milli í apríl 2016.  Tilgreint er hvenær urriðinn var merktur, stærð hans og tímasetningar fyrstu og/eða síðustu skráningar hans á skráningarstöðvunum.

Ferðir frá yfirborði til undirdjúpa og úr ískulda til ylstranda
Af þeim 5 urriðum sem merktir voru með mælimerkjum 2015 hafa nú þegar 2 urriðar endurheimst í rannsóknaveiðum á riðum. Þetta eru fyrstu gögnin frá mælimerkjum fyrir urriða af Ölfusvatnsárstofni. Þau gögn sem komin eru í hús spanna samfelldar mælingar í 1 ár og samanstóðu af 720 þúsund skráningum á fiskdýpi og öðru eins yfir vatnshita. Þar fengust upplýsingar um að hrygningarurriðar af Ölfusvatnsárstofni stunda ætisöflun skamma hríð í Þingvallavatni strax að aflokinni hrygningu í ánni, en nálægt áramótum er vatnshiti orðinn það lítill að veturseta tekur við. Veturseta með tilheyrandi iðjuleysi urriðanna á litlu dýpi stóð fram í mars-apríl en þá hófst megin ætisganga ársins hjá hrygningarfiskunum sem stóð fram að hrygningargöngunni um haustið. Á þeim tíma fór ætisöflun fiskanna að mestu fram í efstu 20 m vatnsins en mikið var þó um að fiskarnir færu daglega niður á meira dýpi. Mesta skráða dýpi sem urriði fór um var 74 m. Mælingar á vatnshita sem urriðarnir fóru um sýndu að hrygningarfiskar dvöldu í apríl og/eða maí frá fáeinum dögum upp í 3 vikur við strendur Nesjahrauns í Þorsteinsvík og næsta nágrenni þar sem volgt lindarvatn streymir út í Þingvallavatn.

arsferill_urrida_i_thingvallavatni_og_olfusvatnsa_2015_2016_laxfiskar

Mæligögn frá mælimerki sem hængur (5,8 kg og 78 cm) af Ölfusvatnsárstofni bar. Um er að ræða mælingar yfir ferðalag fisksins á 5 mínútna fresti í 1 ár frá merkingu hans á riðum í Ölfusvatnsá í nóvember 2015 fram til þess að hann var endurveiddur á sömu riðum Ölfusvatnsár í nóvember 2016.

Merkingar á urriða og endurveiðar
Gögn yfir það hvernig þeir 223 urriðar sem merktir voru 2015 á veiðisvæðum OR koma fram í veiði í Þingvallavatni 2015 og 2016, og í rannsóknaveiðum á riðum í Ölfusvatnsá og Öxará sömu ár sýndu að þeir 46 fiskar (21%) sem veiddust komu fram víðsvegar Þingvallavatni, auk þess að finnast á riðum ánna.  Úrvinnsla gagna frá merkingum á 518 urriðum í sunnanverðu Þingvallavatni árin 2003-2014, sem skilaði endurveiði á 74 þeirra (14,3%) árin 2003-2016, skerpti enn frekar myndina af uppruna urriðanna sem nýta sunnanvert Þingvallavatn og útbreiðslu þeirra í Þingvallavatni. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum þá er meirihluti geldfiska og hrygningarfiska sem veiðast í Þorsteinsvík og Ölfusvatnsárósi af Ölfusvatnsárstofni en gögnin sýna jafnframt að töluvert er þar um urriða af báðum þeim lífsstigum af Öxarárstofni. Endurveiði fiska er mest á veiðisvæðum OR og nærliggjandi svæðum sunnanvert í Þingvallavatni. Gögnin sýndu jafnframt að hluti fiskanna fór um nyrstu svæði Þingvallavatns í upphafi ætisgöngunnar að vori og snemma sumars og að ætisslóð þeirra var gjarnan á miðsvæði Þingvallavatns um mitt sumar.

Staðfesting á gagnsemi veiðifyrirkomulagsins „veiða og sleppa" á veiðisvæðum Orkuveitu Reykjavíkur
Endurheimtugögn frá endurveiði merktra urriða hefur nú þegar staðfest gagnsemi þess að grundvalla stangveiði á veiðisvæðum OR á veiðifyrirkomulaginu „veiða og sleppa”. Fiskar frá merkingunni 2015 munu um sinn koma fram í veiðum og með hliðsjón af þeim viðbótargögnum sem og niðurstöðum merkinganna 2016 og 2017 þá verður hægt að leggja nákvæmt lokamat á gagnsemi veiðifyrirkomulagsins „veiða og sleppa”, bæði út frá endurveiði urriðanna á veiðislóð í Þingvallavatni og út frá þeirri gagnsemi sem felst í hrygningarþátttöku þeirra. 
Urriðastofn Ölfusvatnsár og veiðistofn urriða við sunnanvert Þingvallavatn sækir nú í sig veðrið sem aldrei fyrr í kjölfar þess að Orkuveita Reykjavíkur tók af skarið og breytti veiðinýtingu svæða sinna þannig að öll veiði þar byggist á ,,veiða og sleppa“ fyrirkomulagi. Þetta var mikið gæfuspor sem ION leigutakar útfærðu með miklum sóma og ekki skaðaði að fjármunir sem fengust vegna þessa, setti Orkuveita Reykjavíkur í rannsóknir á lífríki þessa svæðis, svo sem styrkur til þess rannsóknaverks er dæmi um. 

Fjölstofna atferlisrannsóknir á Þingvallaurriða hafnar
Fjöldi síritandi skráningastöðva fyrir hljóðsendimerki eru nú starfræktar um allt Þingvallavatn og gegna burðarhlutverki við að afla áður óþekkts ítarefnis um atferlisvistfræði urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn, þ.m.t. af hrygningarstofni Ölfusvatnsár. Laxfiskar hafa einnig tryggt sambærilega samtíma gagnasöfnun á grunni hljóðsendimerkja árið um kring um urriða af öðrum hrygningarstofnum. Bæði með merkingu á hrygningarfiski í Öxará 2015 og 2016 og einnig með merkingu á hrygningarfiski við Útfallið 2016 sem Landsvirkjun gerði mögulega. Umrædd rannsókn á urriðum sem nýta sunnanvert Þingvallavatn er því ekki einungis framsækin og metnaðarfull ein og sér, því hún er um leið kjölfesta fyrstu fjölstofnarannsóknar á atferli fiska hérlendis. Í þeirri vöktun er í fyrsta sinn í samtíma safnað gögnum yfir samsvæða fiska af mismunandi stofnum með vísun í landfræðilega staðsetningu þeirra hverju sinni.  

Ný gögn - Ný viðmið
Rannsóknagögnin hafa þegar skilað nýrri sýn á lífshætti urriða sem nýta sunnanvert Þingvallavatn. Þessi gögn eru mikilvæg, ekki síst sem viðmið þegar taka skal upplýstar ákvarðanir sem varða Þingvallaurriða bæði nú og til framtíðar litið. Í ljósi þeirra nýju gagna þá er eðlilegt að veiðiréttarhafar við Þingvallavatn hefjist handa við að móta heildstæða meginstefnu um nýtingu urriðans í Þingvallavatni sem tekur mið af þeim upplýsingum. Ýmsir þættir koma þar við sögu, en grundvallaratriði sem nú hefur verið staðfest með afgerandi hætti, er að urriðar fara um allt Þingvallavatn á ætisgöngum sínum hvort heldur þeir hrygna í ám norðan vatns eða sunnan. Þessi fjölstofnauppruni urriða á helstu veiðisvæðum Þingvallavatns í lögsögu Orkuveitu Reykjavíkur og Þjóðgarðsins á Þingvöllum, er skýrt dæmi um þá sameiginlegu hagsmuni sem felast í urriðunum sem dvelja á þessum svæðum, þar með talið varðandi nýtingu þeirra.


There are no translations available.

- Rýnt í rífandi urriðaveiði í Ölfusvatnsárósi og Þorsteinsvík

- Gömul kynni við merkta urriðahrygnu endurnýjuð

- Leiðbeiningar til veiðimanna v/ merktra Þingvallaurriða 2016

Laxfiskar stunda rannsóknir á veiðisvæðum ION í Ölfusvatnsárósi og Þorsteinsvík í samstarfi við leigutaka svæðanna með tilstyrk frá Orkuveitu Reykjavíkur. Það er gaman að segja frá því að veiði á Þingvallaurriða hófst þetta árið með látum á þessum veiðisvæðum. Fyrstu þrjá veiðidagana voru veiddir ríflega 60 urriðar enda þótt norðanbál hefði gert illkleift að veiða síðasta daginn.  Á veiðisvæðum ION gildir að öllum fiski er sleppt að viðureign lokinni.  Í veiðinni  eru merktir fiskar innan um og hér að aftan verður sagt frá einum þeirra sem kom við sögu í upphafi veiðanna þetta árið og tækifærið einnig nýtt til að leiðbeina veiðimönnum sem fá merkta Þingvallaurriða.  Fyrst er við hæfi að rifja upp afburðarveiði í Ölfusvatnsárósi og Þorsteinsvík á liðnu ári þegar ríflega tólfhundruð urriðar veiddust þar auk bleikja í tugatali.  Fjöldi fiskanna 2015 var vissulega mikill en þegar stærðir þeirra eru skoðaðar sést af hverju urriðaveiðimenn hvaðanæva af jarðkúlunni dásama þessi veiðisvæði.  Tæplega 700 urriðar sem veiddust 2015 voru þyngri en 3 kg eða ríflega helmingur sumarveiðinnar og ekki sakaði að stærsti fiskurinn var um eða yfir 15 kg samkvæmt lengd hans og mesta ummáli. 

 

Á myndinni hér að ofan hefur urriðaveiðinni í Ölfusvatnsárósi og Þorsteinsvík 2015 verið skipt upp í nokkra flokka með hliðsjón af lengd fiskanna.  Til að gefa ennfremur innsýn í þyngd fiskanna sem eru að baki hverjum lengdarflokki þá hefur verið sett inn þekkt spönn í þyngd Þingvallaurriða út frá gögnum Laxfiska. Þeir sem þekkja til holdafars lax og silungs sjá strax að þykkvöxnustu Þingvallaurriðarnir eru engum líkir hvað vænleika varðar.

Gömul vinkona gleður stangveiðimann
Í upphafi veiðanna 2016 setti einn veiðimannanna í urriðahrygnu sem bar númerað slöngumerki.  Þegar henni var flett upp í gögnum Laxfiska kom í ljós að hún hafði verið hrygnt í Ölfusvatnsá haustið 2011 og þar var hún merkt, þá 73 cm löng og 5,2 kg að þyngd.  Nú 5 árum og 5 cm síðar, sá hún ástæðu til að gleðja stangveiðimann við Ölfusvatnsárós áður en hún hélt leiðar sinnar í Þingvallavatni.  Mögulegt er að hrygna þessi hafi hrygnt árlega frá haustinu 2011 og hefur þá mætt á riðin í 6 ár.  Hér að neðan má sjá umrædda hrygnu og glaðbeittan veiðimanninn.

 

 

Leiðbeiningar til veiðimanna vegna merktra Þingvallurriða 2016
Laxfiskar hafa við rannsóknir sínar á Þingvallaurriða byggt mikið á notkun ýmis konar merkja.  Þetta gildir ekki síst nú þegar árlega er merktur mikill fjöldi urriða á ION svæðunum til viðbótar því sem merkt er af Þingvallaurriða í Öxará og annar staðar í vatnakerfi Þingvallavatns. Árið 2015 voru á ION svæðunum á þriðja hundrað urriðar merktir með slöngumerkjum auk urriða sem merktir voru með rafeindafiskmerkjum af gerð sendimerkja og mælimerkja. Hér fylgja leiðbeiningar til veiðimanna vegna merktra Þingvallaurriða.

 


There are no translations available.

Urriðagangan 17.okt. 2015 

Haustið er gengið í garð og stórurriðar af Öxarárstofni sem ætla að hrygna þetta haustið hafa flestir skilað sér upp á riðin í Öxará. Þessir þreknu íbúar Þingvallavatns fá áhugasamt fólk í heimsókn til sín laugardaginn 17. október þegar árleg fræðsluganga til kynningar á Þingvallaurriðanum verður haldin á bökkum Öxarár. Kynningin hefst kl 14:00 við bílastæðið þar sem forðum stóð Valhöll. 

1_Urridi_i_hondum_veidimanns_Gudbrandar_Johannessonar_i_Olfusvatnsarosi_vid_merk_jun15_-Endurheimtur_i_Oxara_haust15_Mynd_Laxfiskar

Myndin sýnir urriða sem veiddist í Ölfusvatnsárósi sumarið 2015 í höndum veiðimannsins Guðbrandar Jóhannessonar. Þessi dólgur var einn þeirra Öxæringa sem komu við í Ölfusvatnsárósi á ætisgöngu sinni í vor og sumar og voru merktir þar og gengu síðan upp í Öxará til hrygningar í haust.

Þetta er 13. haustið í röð sem Laxfiskar í samvinnu við Þjóðgarðinn á Þingvöllum halda slíka kynningu. Risaurriðar og aðrir minni sem veiddir hafa verður hægt að skoða á meðan fræðslugöngunni stendur meðal annars í stóru fiskabúri sem gefur börnum og öðrum stærri færi á að virða þennan konung íslenskra ferskvatnsfiska vel fyrir sér.

Að vanda mun Jóhannes Sturlaugsson fara yfir ýmsa megin þætti sem varða lífshætti og umhverfi Þingvallaurriða auk þess sem tæpt er á nýmeti upplýsinga frá rannsóknum Laxfiska á Þingvallaurriða. Dæmi um slíkt nýmeti nú eru upplýsingar frá merkingum Laxfiska í sumar á urriðum sem stangveiddir voru í Ölfusvatnsárósi í vor og sumar. Fáeinir þeirra fiska hafa nú þegar gengið í Öxará til hrygningar auk þeirra sem sést við hrygningu Í Ölfusvatnsánni.

Öxæringarnir sem dokuðu við í Ölfusvatnsárósi á ætisgöngu sinni í Þingvallavatni í vor og sumar undirstrika mikilvægi þess að mörkuð sé samræmd heildarstefna við veiðar og aðra umgengni í Þingvallavatni öllu, í ljósi þess að urriðinn nýtir allt vatnið. Tiltæk rannsóknagögn vitna samt sem áður um mun í dreifingu urriðanna í Þingvallavatni með hliðsjón af stofnum þeirra en bitastæðustu gögnin hingað til varða urriða af Öxarárstofni.

Rannsóknir Laxfiska sem hófust í sumar á urriðum í sunnanverðu Þingvallavatni munu gefa ítarlega innsýn í það hvað greinir urriðastofnana helst að annað en hrygningasvæðin og það hvar seiði þeirra taka út vöxt sinn í upphafi ævi sinnar.

There are no translations available.

Þingvallaurriði - fréttir af hrygningarslóð 2014

Árið 2014 er nú að líða í aldanna skaut og því er við hæfi að tína til fáeinar fréttir er varða Þingvallaurriðann frá liðnu hausti og upphafi þessa vetrar.

Metþátttaka í Urriðagöngunni 2014
Það voru um 400 manns sem tóku þátt í Urriðagöngunni á Þingvöllum í október síðast liðnum. Jóhannes Sturlaugsson var með gönguna í fyrsta sinn haustið 2003 og síðan árlega, þannig að nú var gangan haldin 12. árið í röð í samstarfi Laxfiska og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þó talað sé um Urriðagönguna í eintölu þá hafa sum árin verið farnar tvær göngur og eitt árið var einnig viðbótar fræðsluganga tileinkuð urriðanum að sumrinu á bökkum Þingvallavatns. Metfjöldi þátttakenda í Urriðagöngunni á Þingvöllum í haust kom Jóhannesi Sturlaugssyni hjá Laxfiskum skemmtilega á óvart en sló hrygningarurriðana í Öxará hinsvegar ekki út af laginu. Þátttaka í göngunni síðustu ár hefur verið ótrúlega góð eða 150-260 manns en metþátttakan í síðast liðnum október sýnir í senn áhuga fólks á Þingvallaurriðanum og Urriðagöngunni.

urridi_fraedsluganga_2014-johannes_sturlaugsson_laxfiskar_v-brown_trout_walk_oxara_thingvallavatn-mynd-sigurlaug_rosa_dal 

Metþátttaka var í Urriðagöngunni 18. október 2014 er um 400 manns mættu.            

Mynd: Sigurlaug Rósa Dal.

 

urridagangan_2014_johannes_sturlaugsson_solrun_jhannesdttir_urridi_i_hafi_vid_oxara-mynd_gunnar_bender

Það gekk á með busli og sporðaköstum þegar urriðarnir voru sýndir.                          

Mynd: Gunnar Bender.

 

Urriðar á degi íslenskrar náttúru
Dagur íslenskrar náttúru sem er þann 16. september var heiðraður á ýmsan máta meðal annars á bökkum Öxarár með því að hafa þar tvær kynningar þann daginn þar sem Jóhannes Sturlaugsson fræddi gesti um Þingvallaurriðann.

Urriðar slá eigin met - metþátttaka í hrygningargöngu urriða í Öxará 2014
Ef við hverfum frá göngutúrum tvífætlinga við Öxará og hugum að sporðatökum í ánni þetta haust þá má sjá margt forvitnilegt. Rannsóknir Laxfiska sýndu að ríflega 1000 urriðar vitjuðu hrygningarstöðva sinna í Öxará nú í haust og vetrarbyrjun. Fjöldi urriða sem ganga til hrygningar í Öxará hefur margfaldast á þeim 15 árum sem Jóhannes Sturlaugsson hefur fylgst með þeim málum og hefur aldrei verið meiri frá því að þær talningar hófust. Þetta er sannarlega ánægjuleg þróun því í upphafi þessa tímabils var gjarnan talað um urriðann í þátíð, en nú er urriðinn um allt Þingvallavatn og Öxaráin bólgin af hrygningarurriðum á haustin.

Þrautseigja og þolgæði hrygningarurriða
Hrygningin hjá Þingvallaurriðanum reynir sannarlega á þolrifin hjá þeim fiskum þegar þeir vikum saman leggja allt í sölurnar til að skila af sér næsta árgangi Þingvallaurriða. Þessi þrautseigja hænga sem berjast linnulítið og hrygnanna sem við hlið þeirra grafa sleitulítið holur fyrir hrognin af miklum móð er ein og sér aðdáunarverð. Með hverju árinu sem líður kemur hinsvegar betur í ljós hve þolgæði urriðanna er í reynd mikið hvað hrygninguna varðar því í ljós hefur komið að algengt er að þeir hrygni árum saman. Hefðbundin utanáliggjandi númeruð fiskmerki gerðu upp að vissu marki kleift að fylgjast með einstaklingum Þingvallurriða á milli ára meðal annars með endurveiði þeirra á riðunum í Öxará. Gallin við þau merki var hinsvegar sá að þau losnuðu úr fiskinum með tímanum og því var árið 2008 farið yfir í það að nota rafkenni við merkingar á Þingvallaurriðanum ekki síst til að geta vaktað með meiri nákvæmni hrygningarþátttöku urriðanna. Rafkennin fylgja fiskunum ævina á enda sem er gríðalegur kostur þegar verið er að vakta langlífan fisk á borð við Þingvallaurriðann. Einstaklingsaðgreiningin sem rafkennin tryggja gefur þannig færi á að fylgjast með merktum urriðum ævi þeirra á enda, svo sem við rannsóknaveiðar og þegar sjálfvirkir síritar við fiskteljarann í Öxará skynja ferðir þeirra á hrygingarstöðvar árinnar.

Vöktun Laxfiska á hrygningunni í Öxará 2014 sýndi vel þolgæði og langlífi stórurriðanna. Þannig var staðfest að 5 % af þeim um 180 urriðum sem merktir voru hrygnandi í Öxará árið 2008 voru að hrygna í Öxará yfir riðtímann nú 2014 eða 6 árum eftir merkinguna á þessari 7. riðtíð frá og með haustinu 2008.

Ein stærsta hrygna vatnaurriða hérlendis á riðunum í Öxará
Haustið 2014 komu margir lífsreyndir urriðar á riðin í Öxará. Á meðal þeirra var urriðahrygna sem var 94,5 cm löng og því önnur lengsta staðbundna urriðahrygna sem veidd hefur verið hérlendis svo staðfest sé. Gögn eru til yfir þrjár þyngri hrygnur Þingvallaurriða sem hafa veiðst, en tvær þeirra voru styttri en sú langvaxna sem mætti á riðin í Öxará 2014. Þessi stórvaxni skörungur urriðakvenþjóðarinnar hefur í þrígang verið veiddur af Jóhannesi Sturlaugssyni við rannsóknaveiðar í Öxará um hrygningartímann. Fyrst við merkingarveiði árið 2009 þegar hún mætti í fyrsta sinn til hrygningar í Öxará aðeins 7 ára gömul, síðan aftur þar haustið 2012 og í þriðja sinn á riðum Öxarár nú í haust, þá 12 ára. Við merkingu árið 2009 þá fékk þessi mikla hrygna rafkenni og reyndar einnig mælimerki. Þá var hin hraðvaxta unga urriðahrygna 91,1 cm löng og heil 10 kg (9980 g) en hefur reyndar verið nokkru þyngri við komuna í ána það haustið því hún var byrjuð að hrygna og því einhverjum hrognum fátækari en við komuna. Strax árið 2009 var hrygnan góða því komin í sögulega líkamsstærð með hliðsjón af kynsystrum sínum á meðal vatnaurriða. Með hliðsjón af því var magnað að sjá að 5 árum síðar er fiskurinn ekki einungis enn á lífi heldur í hrygnandi fullu fjöri í Öxará og orðinn einn allra stærsti staðbundni urriði Íslands hvað hrygnur áhrærir sem sögur fara af. Gögn mælimerkisins sem urriðafrúin mikla bar fyrstu 3 árin sýndi að hún tók sér eins árs hlé frá hrygningu í kjölfar hrygningarinnar 2009 en mætti síðan aftur á riðin 2011 og árlega eftir það.

vatnaurridi-staersta_hrygna_islands_95cm_hja_johannes_sturlaugsson_v-brown_trout_oxara_thingvallavatn-copyright-laxfiskar.is

Ein stærsta hrygna staðbundinna urriða á Íslandi í lúkum Jóhannesar í Öxará í nóv. 2014. Þessi 95 cm langa hrygna var merkt í ánni 5 árum fyrr (sjá mynd hér að neðan).


vatnaurridi-hrygna_91cm_10kg_i_hondum_johannes_sturlaugsson_2009-v-brown_trout_oxara_thingvallavatn-copyright-laxfiskar.is

Stærsta urriðahrygnan í Öxará 2009 (91 cm og 10 kg) við rannsóknaveiðar Laxfiska í höndum Jóhannesar, sú sama og mætti enn á ný í haust (2014) þá orðin 95 cm löng.

Samkvæmt lengdinni á umræddri hrygnu þá er þetta önnur stærsta hrygna vatnaurriða sem veiðst hefur hérlendis, en þegar kemur að þyngdinni hinum aðal mælikvarða á stærð fiska þá eru til gögn yfir þyngri hrygnur hérlendis á meðal urriða sem dvelja allan sinn aldur í ferskvatni. Í þeim þremur tilfellum var um Þingvallaurriða að ræða og tvær þeirra hrygna voru mældar af Laxfiskum með nákvæmri vog og voru nálægt 11 kg að þyngd. Önnur þeirra hrygna var veidd í norðanverðu Þingvallavatni árið 2007 og vóg 10,72 kg blóðguð og hefur því verið allt að 11,3 kg óblóðguð en lengd hennar var 93 cm.  Hin veiddist í rannsóknaveiðum í Öxará árið 2010 og var 10,70 kg að þyngd og 89 cm löng. Þriðja hrygnan sem um ræðir var að öllum líkindum töluvert þyngri en þessar tvær og veiddist hún í byrjun sumars árið 2014 í sunnanverðu Þingvallavatni. Hinsvegar vantar reyndar eiginleg mæligögn yfir þyngd þeirrar hrygnu þar sem henni var sleppt eftir að hafa verið dregin að landi án þess að tækifæri gæfist til að mæla þyngd hennar áður. Hinsvegar náðust af henni önnur mál og ef tekið er mið af mælingum veiðimannsins á mesta ummáli fisksins (63 cm) annarsvegar og lengd hans hinsvegar (100 cm) og það skoðað í ljósi sambærilegra mæligagna yfir stærstu urriðahrygnur landsins sem aukinheldur voru þyngdarmældar þá verður að ætla að sú hrygna hafi verið 14-15 kg að þyngd.  Hér ber að geta þess að öll líkindi eru á því að hrygnan langa sem mæld var á riðunum í Öxará í haust hafi á hátindi sínum verið 11- 12 kg þegar hún mætti til hrygningar þremur árum fyrr árið 2011 eftir tveggja ára orlof frá síðustu hrygningu, en þá kom hún ekki við sögu rannsóknaveiðanna og var því ekki mæld. Árið 2014 kom umrædd hrygna ekki við sögu rannsóknaveiðanna fyrr en síðla í nóvember. Þyngd hennar þá var 8,26 kg sem skýrist af því að megnið af hrognum hennar var komið á tilætlaðan stað, það er að segja niður í malarbotn Öxarár með tilheyrandi þyngdartapi fisksins. Þyngdartapið skýrist einnig að nokkru leyti af linnulitlum greftri hola fyrir hrognin sem útheimtir mikla orku sem sækja verður í líkamsforðann þar sem allt át liggur niðri um riðtímann. Ætla verður að hrygnan langa hafi verið um eða yfir 10 kg þegar hún gekk á riðin haustið 2014 og er þá litið til þess að hrygnan var að þessu sinni komin í hóp eldri borgara stofnsins en þeir eru jafnan hlutfallslega léttari miðað við líkamslengd en yngri fiskarnir. Til að gefa smá innsýn í hve mikið hrygnurnar geta lagt af á skömmum tíma þá vill svo til að urriðafrúin sem hér hefur verið til umfjöllunar var mæld tvívegis á riðunum í Öxará síðla í október 2009 og því er hægt að gefa raunverulega sýn á þyngdartapið sem á sér stað samhliða hrygningunni. Á þeim tæpu 5 dögum sem liðu á milli mælinganna lagði hún af 1,32 kg. Á þeim þeim tíma lauk hún við hrygninguna því 1. nóvember sýndu mælimerkjagögnin að hrygnan var komin út í Þingvallavatn þar sem hún dvaldi samfellt næstu 2 árin.

 

Rannsóknir á Þingvallaurriða í samvinnu við Ion fishing fyrir landi OR
Í framhaldi af samningi Ion fishing við OR um leigu á stangveiðirétti fyrir landi OR á Nesjavöllum til þriggja ára þá skapast kjörinn grundvöllur til að samtvinna rannsóknir og veiðar á Þingvallaurriðanum á þessu svæði. Vegna þess ákváðu Laxfiskar og Ion fishing leigutaki veiðiréttarins að vinna saman að því markmiði að afla upplýsinga um urriða fyrir landi OR á vatnasviði Þingvallavatns. Í því skyni munu Laxfiskar hefja rannsóknir 2015 sem miðast við að afla upplýsinga um urriðana af þessu svæði sem unnar verða í samstarfi við Ion fishing.

Við hjá Laxfiskum þökkum veiðimönnum og veiðiréttarhöfum við Þingvallavatn samstarfið á árinu sem er að líða og óskum þess að vindar vaxandi farsældar blási í veiðimálum við Þingvallavatn árið 2015 líkt og 2014.

There are no translations available.

Fréttir úr Elliðaánum - Teljarinn í beinni, gönguseiðin, laxgengd og bláleitur lax

Fiskteljarinn í beinni

Laxfiskar hafa nú tekið upp þá nýbreytni að vera með beina útsendingu kvikmyndar úr fiskteljaranum í Elliðaánum. Auk þess er skjámynd fiskteljarans varpað í rauntíma út á netið svo fylgjast megi með göngu fiska um teljarann. Þessa útsendingu má sjá ef farið er á tengilinn hér.

Mikill fjöldi gönguseiða 2014 gefur von um góða veiði 2015

Í byrjun sumars héldu gönguseiði laxins í miklu magni til sjávar. Gildruveiðar á gönguseiðum í maí og júní skiluðu meiri fjölda en áður hefur sést á þeim 28 árum sem samfellt hefur verið fylgst með útgöngu seiðanna í Elliðaánum frá og með 1988. Alls veiddust ríflega 5 þúsund seiði við þá vöktun og af þeim voru einstaklingsmerkt um 4 þúsund seiði sem um leið er mesti fjöldi náttúrulegra gönguseiða sem hefur verið einstaklingsmerktur úr árlegri göngu laxveiðiár hérlendis.  Uppistaðan í göngunni voru tveggja ára seiði frá hrygningunni 2011 en strax við mælingar á seiðabúskap í Elliðaánum haustið 2012 fengust fögur fyrirheit varðandi þann árgang. Þá var fjöldi seiða árgangsins sem þá samanstóð af sumargömlum seiðum margfaldur miðað við meðaltal 28 viðmiðunarára (1981-1982 og 1987-2011). Við seiðamælingar haustið 2013 sýndi sig að árgangurinn var enn mikill að burðum því þá voru eins árs seiðin um tvöfalt fleiri að meðaltali en áðurnefnd viðmiðunarár en nánari upplýsingar má finna í skýrslu Laxfiska frá því í vor þar sem farið er yfir rannsóknir á fiskistofnum í vatnakerfi Elliðaánna 2013, sem sjá má hér.

Fjöldi gönguseiðanna í Elliðánum sumarið 2014 lofar því vægast sagt góðu einn og sér varðandi laxgengd í árnar 2015.  En sem sem fyrr eru það lífsskilyrðin yfir sjávargöngu þessara laxa sem ráða að endingu hve mikið af þessum seiðum skila sér í Elliðaárnar í kjölfar ætisgöngunnar í hafi.  Hver sú tilhögun náttúrunnar verður liggur fyrir næsta sumar þegar smálaxinn sem hóf ferð sína sem gönguseiði 2014 skilar sér, en því til viðbótar mun lítið brot af göngunni að vanda skila sér sem stórlax og ganga í Elliðaárnar 2016 eftir um tveggja ára sjávardvöl.

Laxgengdin ekki upp á marga fiska

Nú er komið fram á þann tíma sumars að ætla verður að megindrættirnir í göngu laxa í íslenskar ár til hrygningar þetta sumarið liggi fyrir.  Göngur laxa í árnar sumarið 2014 eru sannarlega einstaklega rýrar og það sama á við um Elliðaárnar, þó svo að réttilega megi segja að hlutfallslega sé ástandið í þeim efnum þar á bæ þó betra en víðast í íslenskum ám þegar litið er til veiði sumarsins hingað til.  Elliðaárnar eru á meðal aflahæstu ánna, svo sem sjá má á listanum yfir laxveiðina 2014 á vef Landsambands veiðifélaga hér. Sérstaklega geta þó laxveiðimenn í Elliðaánum  vel við unað þegar litið er til þess hver meðalveiðin er á stöng. Þrátt fyrir að ástandið sé ágætt í Elliðaánum hvað veiðina varðar samanborið við aðrar ár þá gildir ef framgangurinn verður í takti við laxgengdina fram til þessa að mikil líkindi eru á því að mun minna verði eftir af hrygningarlaxi í ánum í haust en verið hefur um langt árabil. Ef þetta gengur eftir má vænta þess að sama ástand verði upp á teningnum í mörgum laxveiðiám á Suðvestur- og Suðurlandi þar sem veiðihátturinn veiða og sleppa er ekki ráðandi, því  eins og dæmin sýna þá eru megin sveiflurnar í laxgengdinni  í ám á þessu svæði keimlíkar.  Þetta ástand ætti að vera hvatning til þeirra veiðimanna í Elliðaánum sem hallir eru undir það að sleppa laxi að íhuga hvort þeir vilji landa báðum þeim tveimur löxum sem má landa þar á hvert leyfi eða víkja frá því viðmiði í ljósi þess hve líklegt er að laxinn verði sérlega fáliðaður í hrygningunni á komandi hausti.

"Blái" laxinn

Þegar kom fram í júlí urðu veiðimenn varir við bláleitan lax í Sjávarfossi. Mynd náðist af laxinum sem sjá má hér, en hún sýnir vel sérstöðu laxins hvað litinn varðar en vissulega þekkist vel hjá nýgengnum silfurslegnum löxum að þeir hafi bláan blæ svo sem endurspeglast í orðatiltækinu "áin er blá af laxi".  Á endanum veiddist laxinn í Sjávarfossi þann 21. júlí. Veiðimaðurinn naut litar laxins skamma hríð, því þegar laxinn var allur var litadýrðin horfin.  Í ljós kom að laxinn hafði verið veiddur og örmerktur í hefðbundinni vöktunarvinnu Laxfiska þegar hann hélt til hafs sem gönguseiði árinu áður þann 26. maí 2013. Þá var hann rúmir 11 cm að lengd og um 14 g að þyngd og því í smærri kantinum af gönguseiðunum. Þegar hann veiddist þá var hann einnig smár í samanburði við aðra smálaxa eða 49 cm og 1,3 kg.  Fróðlegt er til þess að hugsa að þegar laxinn var merktur sem seiði þá skar litaraft hans sig ekki frá öðrum gönguseiðum. Því fleygðu gárungar því að laxinn hefði blánað af skelfingu þegar sá sem þetta skrifar var að merkja hann og mæla sem seiði. Mikið var fjallað um laxinn "bláa" í fjölmiðlum, bæði sjónvarpi, útvarpi og fréttablöðum enda forvitnilegur en væntanlega réð miklu um alla þá umfjöllun að á þessum tíma var svo kölluð gúrkutíð allsráðandi með tilheyrandi fréttaleysi. Tengil á vefsíðu Ríkisútvarpsins á eina af þessum fréttum er að finna hér, en þar er meðal annars komið inn á mögulega raunhæfa skýringu á lit laxins.

Page 3 of 7

Reports

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080