- Fimmtudagur, 26. september 2013
Laxfiskar með 2 erindi á yfirstandandi ársfundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins
Þessa vikuna fer fram ársfundur Alþjóðahafrannsóknaráðsins í Hörpu sem um 700 vísindamenn á sviði haf- og fiskirannsókna sitja. Ríflega 450 erindi verður búið að flytja þegar vikan er á enda og þar á meðal 2 erindi sem Jóhannes Sturlaugsson hjá Laxfiskum flytur. Erindi Laxfiska fjalla annarsvegar um rannsóknir á gönguleiðum þorsks, hegðun hans og afdrifum með gervitunglamerkjum og hinsvegar um landfræðilega kortlagningu á ferðum á steinbíts innfjarða með hljóðsendimerkjum.
Afrit af skjávarpahluta erindanna má hvað þorskinn varðar sjá hér og hvað steinbítinn varðar sjá hér.
- Þriðjudagur, 28. maí 2013
Þingvallaurriðinn í þætti River Monsters 27. maí á Animal Planet
Þáttur í River Monsters vinsælustu þáttaröð sjónvarpsstöðvarinnar Animal Planet var sumarið 2012 tekinn upp að hluta á Íslandi meðal annars við Þingvallavatn þar sem Laxfiskar voru sóttir heim við rannsóknir á Þingvallaurriðanum konungi íslenskra ferskvatnsfiska.
Vinsælasta þáttaröð Animal Planet
Þáttaröðin “River Monsters” fjallar um fiskferlíki um víða veröld og veiðar líffræðingsins Jeremy Wade á þeim. Megin tilgangur Íslandsferðar Jeremy og samstarfsmanna hans frá Icon Films sem framleiða þættina var að mynda á slóðum Lagarfljótsormsins vegna lokaþáttar 5. þáttaraðarinnar þar sem aðalumfjöllunarefnið er ættingi hans Loch Ness skrímslið skoska.
Jeremy Wade fyrir miðju í þurrbúningi og kvikmyndatökumennirnir frá Icon Film sem unnu með honum að gerð þáttarins ásamt Erlendi Geirdal og Jóhannesi Sturlaugssyni frá Laxfiskum
Gengið á fund konungs
Sögur af Þingvallaurriðanum konungi íslenskra ferskvatnsfiska og rannsóknum Laxfiska á honum bárust Jeremy og félögum til eyrna og þeim fannst því við hæfi á ganga á fund konungs í Íslandsförinni. Þannig æxlaðist það að fólk um víða veröld mun kynnast ísaldarurriðanum í Þingvallavatni og ægifegurð Þingvallavatns og nágrennis. Þar er komið inn á vitneskju frá rannsóknum þeim sem Jóhannes Sturlaugsson og rannsóknafyrirtæki hans Laxfiskar hafa staðið fyrir á Þingvallaurriðanum í yfir áratug.
Jóhannes Sturlaugsson og Jeremy Wade
Gríðarleg kynning á Íslandi
Í ljósi þess hve sjónvarpsefni frá Animal Planet er vinsælt á veraldarvísu og þeirri staðreynd að River Monsters þættir skipa sér í efstu sætin yfir mesta áhorf þátta stöðvarinnar þá er hægt að átta sig á því hve víðtæk og mikil kynning á Íslandi felst í sýningu þáttarins. Til viðmiðunar þá horfðu 1,8 milljónir manna vestan hafs á upphafsþátt 5. þáttaraðarinnar í vor en síðan bætist við áhorf í Evrópu og víðar þegar þættirnir verða teknir til sýninga þar.
Fiskisagan flýgur
Konungur vor í stærsta náttúrulega vatni landsins Þingvallavatni var venju fremur vant við látinn þegar River Monsters fólkið kom til Íslands í lok júlí enda þá að mestu út á djúpmiðum vatnsins að eltast við murtu. Við merkingarveiðar fengust þó vænir hrygningarfiskar sem gáfu sýn á burði þessara fiska þó svo ekki væri fært á þessum árstíma að kalla til allra stærstu dólgana. Þingvallaurriðinn er goðsögn í lifanda lífi og nú deila Íslendingar þeim sögum um fiskinn stóra, ástir hans, hegðun og örlög með öðrum í heimsbyggðinni.
- Föstudagur, 26. apríl 2013
Magnaður seiðabúskapur í Elliðaánum 2012 - Skýrsla um niðurstöður fiskirannsóknanna 2012 komin út
Rannsóknir Laxfiska á laxi og silungi í vatnakerfi Elliðaánna 2012 fyrir Stangaveiðifélag Reykjavíkur sýndi gott ástand fiskistofnanna og vöktun á hitafari ánna endurspeglaði gott tíðarfar.
Elliðaárnar kraumuðu af sumargömlum seiðum
Seiðabúskapur í vatnakerfi Elliðaánna var einstaklega góður haustið 2012 því af 1940 seiðum veiddust 1513 laxaseiði og 427 urriðaseiði. Fjöldi sumargamalla laxaseiða í ánum haustið 2012 var meiri en nokkru sinni hefur sést við seiðarannsóknir í Elliðaánum. Þéttleiki þeirra var sjöfaldur miðað við meðaltal 27 viðmiðunarára (1981-1982 og 1987-2011) og helmingi meiri en mest hefur orðið á þessum árum. Fjöldi ársgamalla seiða var einnig mjög góður því þéttleiki þeirra var helmingi meiri en meðaltalsfjöldi þeirra umrædd viðmiðunarár og með því mesta sem sést hefur á þeim tíma. Tveggja ára seiði reyndust rétt ríflega yfir meðaltali viðmiðunaráranna.
Margur er knár þó hann sé smár
Kynþroska hængar með rennandi svil voru 38 á meðal eins og tveggja ára laxaseiðanna sem rafveidd voru haustið 2012. Minnsti hængurinn var einungis 7,3 cm að lengd og 4,8 g að þyngd en stærsti seiðahængurinn 14, 8 cm (41,5 g). Þegar litið er til þeirra seiða sem veiddust í rafveiðunum sem náð höfðu 7 cm í lengd eða meira þá fæst að kynþroska hængseiðin voru 10% af fjölda þeirra. Hængar sem kynþroskast á seiðastigi berjast ekki um hrygnurnar líkt og þeir sjógengnu og skyldi engan undra. Ef tekið mið af minnsta kynþroska hængnum frá veiðinni 2012 þá er hann 600 sinnum léttari en pattaralegur 3 kg smálaxahængur og 1600 sinnum léttari en 8 kg stórlaxahængur. Þó einungis væri tekið mið af smálaxinum þá væri samlíking við 100 kg karlmann sú að hann þyrfti að etja kappi við 60 tonna risa um hylli kvenna. Af þessum sökum byggja kynþroska hængseiði sinn árangur í ástamálum á því að laumast og eru því gjarnan nefnd laumarar. Því minni sem kynþroska hængseiði eru því líklegra er að þau geti fundið fylgsni nálægt hrygnu án þess að sjógengnu hængarnir verði þeirra varir og sópi þeim í burtu. Síðan þarf bara að bíða eftir því að smá- eða stórlaxahængur komi hrygnunni til og nota þá tækifærið og sprauta sínum sviljum í púkkið. Sé hinsvegar enginn sjógenginn hængur til taks þá hafa rannsóknir sýnt að kynþroska hængar á seiðastigi geta komið hrygnunum til einir síns liðs.
Metveiði í Elliðaánum 2015?
Sá gríðarlegi fjöldi sumargamalla laxaseiða sem var í vatnakerfi Elliðaánna haustið 2012 vekur vonir um mjög sterkan gönguseiðastofn 2014 þegar að megnið af þeim seiðum gengur væntanlega í sjó. Þetta getur orðið raunin ef skilyrði til uppvaxtar seiðanna verða þeim hliðholl fram að sjógöngunni og afrán á þeim í ánum ekki umfram venju. Ef svona færi þá yrði veiðisumarið 2015 líflegt í Elliðaánum og það í meira lagi ef lífsskilyrði laxins í sjó 2014-2015 verða góð. Magn eins og tveggja ára laxaseiða haustið 2012 gefur einnig fyrirheit um að stofn gönguseiðanna 2013 verði umfram meðallag.
Gönguseiðin 2012
Vöktun á göngu gönguseiða laxins til sjávar í maí og júní sýndi að útgangan var róleg framan af maí vegna kulda en náði síðan hámarki 23. maí þegar tæp 500 seiði gengu út á einum sólarhring sem samsvaraði ríflega 23% af þeim seiðum sem veidd voru 2012 á leið þeirra til sjávar. Alls voru veidd 2147 gönguseiði í seiðagildruna og þar af voru 2051 seiði merkt með örmerkjum. Megnið af gönguseiðunum gengu út 21.-25. maí eða 57% mældrar göngu en síðan kom minni toppur í útgönguna 28.-31. maí þegar 20% gönguseiðanna veiddust. Gönguseiðin voru flest tveggja ára (63%) en þriggja ára seiði voru 36% af göngunni og fjögurra ára seiði einungis 1%. Yfir vöktunartímabil útgöngunnar 15. maí - 6. júní var mælanlegur fallandi í stærð seiðanna þannig að stærst voru seiðin að jafnaði í upphafi göngunnar og þau minnstu í lok hennar. Gönguseiðastofninn 2011 er stóð að baki smálaxagöngunni 2012 reiknaðist um 15 þúsund seiði og var því undir meðaltali vöktunaráranna 1988-2011 sem er ríflega 19 þúsund gönguseiði. Þessi stofnstærð gönguseiðanna sem var 43% minni en gönguseiðastofninn sem stóð að baki göngunni 2011 endurspeglaðist í veiðinni 2012.
Göngur lax og urriða 2012
Göngur lax og silungs í Elliðaárnar voru vaktaðar yfir tímabilið 19. júní -17. september með kvikmyndafiskteljara í Austurkvísl ánna en enginn fiskur gat þó gengið upp fyrir teljaragirðinguna frá því að gönguseiðavöktunin hófst 15. maí. Alls gengu 1294 laxar í árnar 2012 en þar af veiddust 342 laxar neðan teljarans. Urriðar sem gengu upp teljarann 2012 voru 406, að mestu sjóbirtingar. Mikið var af uppvaxandi sjóbirtingi því helmingur af göngunni var undir 30 cm að lengd en urriðarnir sem komnir voru í veiðistærð voru sumir mjög vænir því um 5% þeirra voru 60-80 cm langir. Uppistaða hrygningargöngu laxins var að vanda smálaxar sem voru 1254 að tölu eða um 97% göngunnar. Stærsti laxinn sem fór um teljarann 2012 var 94 cm langur. Endurheimtuhlutfall örmerktra smálaxa var 8,3% sem er rétt undir 8,6% meðalheimtum smálaxa vöktunaráranna 1989-2012. Þessi lifitala laxins yfir sjávargönguna skýrir því minna af frávikinu frá meðalástandi laxgengdarinnar en gönguseiðastofninn. Lax gekk af miklum krafti snemmsumars sem sjá má af því að 50% af laxagöngunni hafði skilað sér 7. júlí. En til samanburðar var helmingur urriðanna sem að mestu voru sjóbirtingar genginn um teljarann 16. ágúst. Sjóbirtingurinn var enn að ganga 17. september þegar teljarinn var tekinn upp en síðustu laxarnir sem fóru um teljarann voru þar fyrstu vikuna í september.
Göngurnar með hliðsjón af tíma sólahrings
Laxinn gekk mest upp ána í húminu þegar sól var sest. Af göngunni 2012 gekk 57% laxins upp fiskteljarann á fyrstu 2 klukkustundunum eftir miðnætti, 77% af laxinum hafði gengið upp fyrstu 5 klukkutíma sólarhringsins og 10% gekk að kveldinu síðustu 2 klukkustundir sólarhringsins. Ferðatilhögunin í göngum urriðanna var sambærileg með hliðsjón af tíma sólarhrings.
Nánar...Gervitunglagögn yfir fiskigöngur grundvöllur þjónustu við útgerðar- og rannsóknaaðila
Greinin birtist í Fiskifréttum 27. mars 2013
Þróunarverkefni skapar nýtt fiskleitarúrræði
Gervitunglafiskmerki gera kleift að fylgjast með ferðum fiska og safna upplýsingum um atferli þeirra og umhverfi án þess að slíkt útheimti að fiskarnir séu endurveiddir. Rannsóknafyrirtækið Laxfiskar innleiddi 2011 notkun þessara merkja í fiskirannsóknum hér við land og í þeirri vinnu komum við auga á tækifæri sem felst í því að nýta þessa fjarkönnunartækni til að auka hagkvæmni fiskveiða samhliða því að afla nýrrar hagnýtrar þekkingar. Grundvöllur þess er að nýta sem viðmið við fiskveiðar návæm landfræðileg gögn frá ferðum merktra fiska sem aflað er um gervitungl. Slíkar upplýsingar auka sóknarfæri í fiskveiðum bæði innan og utan þekktra veiðisvæða og gera fært að draga úr olíukostnaði við veiðarnar. Úr varð að við settum upp þróunarverkefni til að fylgja þeirri hugmynd eftir sem nú er unnið að því að fjármagna með styrkumsóknum í rannsóknasjóði. Hugmyndin var kynnt fyrir útgerðarfyrirtækjunum Brim, HB Granda og Ögurvík sem ætla að taka þátt í verkefninu með því að leggja til prófanir á aðferðafræðinni. Auk þeirra taka þátt í verkefninu Árni Geir Pálsson viðskiptafræðingur og Guðmundur Geirdal sem gerir út bátinn Gísla KÓ 10 en hann hefur um nokkura ára skeið unnið með Laxfiskum að rannsóknum á sjávarfiskum.
Þróun á vöktunarþjónustu – Fiskislóðin
Þróunarverkefnið ber nafnið Fiskislóðin og er í reynd tvívirkt því þjónustan sem verið að þróa sinnir í senn útgerðar- og rannsóknaaðilum. Lagt er upp með það að þeir sem greiða fyrir þjónustuna fái “tvo fyrir einn” enda myndu bæði útgerðaraðilar og rannsóknaraðilar á borð við Hafrannsóknastofnun geta nýtt öll gögn sem aflað er.
Nánar...- Þriðjudagur, 29. janúar 2013
Vöktun á gönguatferli steinbíts í Hvalfirði
Árin 2010 – 2012 var unnið að rannsókn á steinbít í Hvalfirði til að afla upplýsinga um hvernig hann hagaði dvöl sinni í firðinum árið um kring með hliðsjón af svæðum og umhverfisþáttum. Gögnum var safnað með því að merkja steinbít í byrjun sumars með hljóðsendimerkjum og fylgjast síðan með ferðum þeirra út frá skráningum á viðveru fiskanna innan skynjunarsviðs síritandi skráningarstöðva sem voru starfræktar eftir endilöngum Hvalfirði. Markmið verkefnisins var að kortleggja gönguhegðun hjá steinbít innfjarða og kanna tengsl þeirrar hegðunar við árstíma og þætti í umhverfi fiskanna.
Rannsókn Laxfiska á gönguhegðun steinbíta (67-77 cm að lengd) í Hvalfirði skiluðu upplýsingum um gönguatferli steinbíts frá degi til dags þegar þeir dvöldu við ætisöflun á athugunarsvæðunum, yfir tímabil sem spönnuðu allt upp í tæp 3 ár. Viðvera sömu steinbítanna í Hvalfirði árum saman sýnir trygglyndi þeirra gagnvart ætisslóðinni þar og því er í raun hægt að tala um ætisheimahaga fiskanna. Algengt var að steinbítarnir héldu sig á mjög afmörkuðum svæðum fjarðarins vikum saman sem sýnir enn frekar hversu staðbundnir þeir geta verið. Árstíðabundið brotthvarf steinbítanna úr Hvalfirði endurspeglaði göngur þeirra til hrygningar á svæðum utan Hvalfjarðar, dvöl þeirra á hrygningarsvæðunum og ferðir þeirra í upphafi ætisgöngunnar áður en þeir gengu í Hvalfjörð til árlegrar dvalar. Í desember 2012 var lokið við skýrslu sem tíundar niðurstöður steinbítsrannsóknanna í Hvalfirði en hana má nálgast hér: Gönguhegðun steinbíts í Hvalfirði