- Fimmtudagur, 31. júlí 2014
Fréttir úr Elliðaánum - Teljarinn í beinni, gönguseiðin, laxgengd og bláleitur lax
Fiskteljarinn í beinni
Laxfiskar hafa nú tekið upp þá nýbreytni að vera með beina útsendingu kvikmyndar úr fiskteljaranum í Elliðaánum. Auk þess er skjámynd fiskteljarans varpað í rauntíma út á netið svo fylgjast megi með göngu fiska um teljarann. Þessa útsendingu má sjá ef farið er á tengilinn hér.
Mikill fjöldi gönguseiða 2014 gefur von um góða veiði 2015
Í byrjun sumars héldu gönguseiði laxins í miklu magni til sjávar. Gildruveiðar á gönguseiðum í maí og júní skiluðu meiri fjölda en áður hefur sést á þeim 28 árum sem samfellt hefur verið fylgst með útgöngu seiðanna í Elliðaánum frá og með 1988. Alls veiddust ríflega 5 þúsund seiði við þá vöktun og af þeim voru einstaklingsmerkt um 4 þúsund seiði sem um leið er mesti fjöldi náttúrulegra gönguseiða sem hefur verið einstaklingsmerktur úr árlegri göngu laxveiðiár hérlendis. Uppistaðan í göngunni voru tveggja ára seiði frá hrygningunni 2011 en strax við mælingar á seiðabúskap í Elliðaánum haustið 2012 fengust fögur fyrirheit varðandi þann árgang. Þá var fjöldi seiða árgangsins sem þá samanstóð af sumargömlum seiðum margfaldur miðað við meðaltal 28 viðmiðunarára (1981-1982 og 1987-2011). Við seiðamælingar haustið 2013 sýndi sig að árgangurinn var enn mikill að burðum því þá voru eins árs seiðin um tvöfalt fleiri að meðaltali en áðurnefnd viðmiðunarár en nánari upplýsingar má finna í skýrslu Laxfiska frá því í vor þar sem farið er yfir rannsóknir á fiskistofnum í vatnakerfi Elliðaánna 2013, sem sjá má hér.
Fjöldi gönguseiðanna í Elliðánum sumarið 2014 lofar því vægast sagt góðu einn og sér varðandi laxgengd í árnar 2015. En sem sem fyrr eru það lífsskilyrðin yfir sjávargöngu þessara laxa sem ráða að endingu hve mikið af þessum seiðum skila sér í Elliðaárnar í kjölfar ætisgöngunnar í hafi. Hver sú tilhögun náttúrunnar verður liggur fyrir næsta sumar þegar smálaxinn sem hóf ferð sína sem gönguseiði 2014 skilar sér, en því til viðbótar mun lítið brot af göngunni að vanda skila sér sem stórlax og ganga í Elliðaárnar 2016 eftir um tveggja ára sjávardvöl.
Laxgengdin ekki upp á marga fiska
Nú er komið fram á þann tíma sumars að ætla verður að megindrættirnir í göngu laxa í íslenskar ár til hrygningar þetta sumarið liggi fyrir. Göngur laxa í árnar sumarið 2014 eru sannarlega einstaklega rýrar og það sama á við um Elliðaárnar, þó svo að réttilega megi segja að hlutfallslega sé ástandið í þeim efnum þar á bæ þó betra en víðast í íslenskum ám þegar litið er til veiði sumarsins hingað til. Elliðaárnar eru á meðal aflahæstu ánna, svo sem sjá má á listanum yfir laxveiðina 2014 á vef Landsambands veiðifélaga hér. Sérstaklega geta þó laxveiðimenn í Elliðaánum vel við unað þegar litið er til þess hver meðalveiðin er á stöng. Þrátt fyrir að ástandið sé ágætt í Elliðaánum hvað veiðina varðar samanborið við aðrar ár þá gildir ef framgangurinn verður í takti við laxgengdina fram til þessa að mikil líkindi eru á því að mun minna verði eftir af hrygningarlaxi í ánum í haust en verið hefur um langt árabil. Ef þetta gengur eftir má vænta þess að sama ástand verði upp á teningnum í mörgum laxveiðiám á Suðvestur- og Suðurlandi þar sem veiðihátturinn veiða og sleppa er ekki ráðandi, því eins og dæmin sýna þá eru megin sveiflurnar í laxgengdinni í ám á þessu svæði keimlíkar. Þetta ástand ætti að vera hvatning til þeirra veiðimanna í Elliðaánum sem hallir eru undir það að sleppa laxi að íhuga hvort þeir vilji landa báðum þeim tveimur löxum sem má landa þar á hvert leyfi eða víkja frá því viðmiði í ljósi þess hve líklegt er að laxinn verði sérlega fáliðaður í hrygningunni á komandi hausti.
"Blái" laxinn
Þegar kom fram í júlí urðu veiðimenn varir við bláleitan lax í Sjávarfossi. Mynd náðist af laxinum sem sjá má hér, en hún sýnir vel sérstöðu laxins hvað litinn varðar en vissulega þekkist vel hjá nýgengnum silfurslegnum löxum að þeir hafi bláan blæ svo sem endurspeglast í orðatiltækinu "áin er blá af laxi". Á endanum veiddist laxinn í Sjávarfossi þann 21. júlí. Veiðimaðurinn naut litar laxins skamma hríð, því þegar laxinn var allur var litadýrðin horfin. Í ljós kom að laxinn hafði verið veiddur og örmerktur í hefðbundinni vöktunarvinnu Laxfiska þegar hann hélt til hafs sem gönguseiði árinu áður þann 26. maí 2013. Þá var hann rúmir 11 cm að lengd og um 14 g að þyngd og því í smærri kantinum af gönguseiðunum. Þegar hann veiddist þá var hann einnig smár í samanburði við aðra smálaxa eða 49 cm og 1,3 kg. Fróðlegt er til þess að hugsa að þegar laxinn var merktur sem seiði þá skar litaraft hans sig ekki frá öðrum gönguseiðum. Því fleygðu gárungar því að laxinn hefði blánað af skelfingu þegar sá sem þetta skrifar var að merkja hann og mæla sem seiði. Mikið var fjallað um laxinn "bláa" í fjölmiðlum, bæði sjónvarpi, útvarpi og fréttablöðum enda forvitnilegur en væntanlega réð miklu um alla þá umfjöllun að á þessum tíma var svo kölluð gúrkutíð allsráðandi með tilheyrandi fréttaleysi. Tengil á vefsíðu Ríkisútvarpsins á eina af þessum fréttum er að finna hér, en þar er meðal annars komið inn á mögulega raunhæfa skýringu á lit laxins.
- Föstudagur, 27. júní 2014
Loðnan lokkar og laðar
Laxfiskar voru við fiskirannsóknir í Jökulsárlóni fyrr í þessum júnímánuði þegar hvalir gerðu sig heimakomna. Þarna var á ferðinni okkar smæsti hvalur hnísan. Eftir því sem næst verður komist hafa hnísur ekki fyrr sést hérlendis svo langt inn í landi. Um var að ræða tvær hnísur sem virtust vera að graðka í sig loðnu sem þarna var líkt og fiskar á sömu slóð sem urðu uppvísir að því að éta loðnu þarna sama daginn.
Kynjamyndir í yfirborðinu
Ferðir hnísanna upp og niður fyrir yfirborð lónsins tók á sig ýmsar myndir og í fjarlægð var á köflum vel hægt að ímynda sér að þar færi skrímsli sem skyti kryppu upp úr yfirborðinu annað slagið.
Áður en hnísurnar tvær héldu á brott gafst ráðrúm til að mynda þær og hér birtum við ljósmyndir og kvikmyndaskeið af þessum fallegu félögum í stórbrotnu umhverfi Jökulsárlóns og Vatnajökuls.
Hnísur í Jökulsárlóni
Kvikmynd af hnísum í Jökulsárlóni
- Fimmtudagur, 22. maí 2014
Alþjóðlegi göngufiskadagurinn - laugardaginn 24. maí 2014
Fræðslu- og skemmtidagskrá í Elliðaárdal
Ein af best þekktu og ástsælustu laxveiðiám landsins eru Elliðaárnar í Reykjavík. Þær eru einstakar því afar sjaldgæft er að finna eins heilbrigða og fengsæla á inni í miðri borg sem laxar og aðrir fiskar ganga upp í. Í tilefni alþjóðlega göngufiskadagsins (World Fish Migration Day) verður boðið upp á fræðslu- og skemmtidagskrá til heiðurs Elliðaánum. Að dagskránni standa Reykjavíkurborg, Laxfiskar, Stangaveiðifélag Reykjavíkur og VAKI. Á milli kl. 15 og 17 verða ýmsir viðburðir í næsta nágrenni við Rafstöðina í Elliðaárdal.
Fyrirtækið Laxfiskar sem sinnir rannsóknum á fiskistofnum Elliðaánna verða með lifandi laxfiska til sýnis og munu kynna lífshætti fiskanna fyrir gestum og segja frá rannsóknum sínum. Stangveiðifélag Reykavíkur sem hafa umsjón með stangveiðum í Elliðaánum, munu kynna sína starfsemi og kenna gestum flugukast. Fyrirtækið VAKI er leiðandi á heimsvísu við þróun og framleiðslu á búnaði sem telur og mælir lifandi fiska. Laxateljarinn í Elliðaánum er frá VAKA og mun fyrirtækið bjóða upp á kynningu á sinni starfsemi og virkni teljarans. Sjá nánar um teljarann á: www.riverwatcher.is.
Reykjavíkurborg mun standa fyrir fræðslugöngu fyrr um daginn eða kl. 14. Um er að ræða samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og fræðsluátaksins Reykjavík-iðandi af lífi. Gengið verður frá Gerðubergssafni í Breiðholti niður að efri hluta Elliðaánna og gestir fræddir um lífríki og vistfræði ánna.
Haldið er upp á alþjóðlegan dag göngufiska víða um heim með það að markmiði að auka vitund fólks á stöðu og mikilvægi göngufiska og búsvæða þeirra, einkum fallvatnanna. Margar tegundir ferskvatnsfiska stunda árstíðabundnar göngur (far) á milli mismunandi búsvæða og mismunandi lífsskeið koma þar við sögu. Af slíkum árstíðabundnum göngum eru göngur laxins þekktastar, en hann gengur í sjó til að afla sér ætis og síðan aftur í árnar til að hrygna. Sjóbirtingurinn og sjóbleikjan ganga einnig í sjó í sama tilgangi en sjávardvöl þeirra er hinsvegar almennt bundin við sumarið og fiskarnir dvelja síðan í ferskvatni yfir veturinn. Állinn stundar einnig far milli sjávar og ferskvatns en ólíkt laxfiskunum hrygnir hann í sjó en dvelur þó lengstan tíma ævinnar í ferskvatni. Urriðar og bleikjur sem dvelja allan sinn aldur í ferskvatni stunda í sumum tilfellum far á milli straum- og stöðuvatna. Mikilvægi þess að gönguleiðir haldist opnar fyrir göngufiski er augljóst og því mikið lagt upp úr því að tálma ekki för þeirra um ár og læki.
Fræðast má frekar um alþjóðlega göngufiskadaginn á www.worldfishmigrationday.com
Gönguseiði
Nánari upplýsingar um viðburðina í Elliðaárdal 24. maí fást hjá eftirfarandi:
• Jóhannes Sturlaugsson, Laxfiskar Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. / 664-7080 / www.laxfiskar.is
• Magnús Þór Ásgeirsson, Vaki Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. / 595-3026 / www.vaki.is
• Ragnheiður Thorsteinsson, Stangaveiðifélag Reykjavíkur Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. / 898-2809 / www.svfr.is
• Snorri Sigurðsson, Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. / 823-5339 /www.facebook.com/reykjavikidandi
- Mánudagur, 28. apríl 2014
Þingvallaurriðinn og veiðar á honum
Sumarið er komið. Þingvallasveit skartar sínu fegursta og Þingvallaurriðinn er kominn á stjá í leit að æti eftir að hafa í rólyndi setið af sér veturinn. Veiðimenn flykkjast á bakka Þingvallavatns til að njóta veiði á urriða og bleikju. Þegar fegurð náttúrunnar og töfrar veiðanna virðast ekki eiga sér nein takmörk þá berast ótíðindi sem spilla gleðinni.
Staðfestar frásagnir af slátrun Þingvallaurriða í upphafi þessa veiðiárs skilja eftir sig óbragð hjá miklum meirihluta veiðimanna og öðrum unnendum Þingvallaurriðans. Nokkuð sem er ekki í takti við þær umbætur sem nú hafa náðst í veiðimálum sem varða Þingvallaurriðann.
Sitt sýnist þó hverjum en sem betur fer virðist aðeins brotabrot stangveiðimanna kunna að meta slíkar magnveiðar á langsoltnum urriðum. Vissulega er ekki hægt að vænta þess að veiðimenn hafi einhlíta skoðun á veiðum á Þingvallaurriðanum frekar en veiðum almennt. Hinsvegar er hægt að vænta þess að menn taki tillit til sérstöðu Þingvallaurriðans og sýni skilning á þeim umbótum sem komið hefur verið á í veiðimálum sem hann varða, sem ekki síst eru tilkomnar vegna vitundarvakningar í röðum stangveiðimanna. Umbætur í veiðiháttum sem varða veiði á Þingvallaurriða skila sér í sterkari stofnum urriðans. Tilgangur sem er við hæfi gagnvart þessum merka fiski sem verið hefur að styrkja stöðu sína undangengin ár eftir áratugalangt hnignunarskeið.
Breyttir veiðihættir og breyttar veiðireglur
Höfundur þessara orða hefur verið svo lánsamur að vinna árlega að rannsóknum á Þingvallaurriðanum síðustu 15 árin. Samhliða þeirri vinnu hafa verið mikil og góð samskipti við veiðimenn sem nýta Þingvallavatn og við veiðiréttarhafa við vatnið. Á þessum tíma hefur mönnum sífellt betur orðið ljóst hve mikilvægt er að hlúa að Þingvallaurriðanum og hafa sýnt þann hug í verki. Stangveiðimenn hafa gengið á undan með góðu fordæmi undangengin ár með því að sleppa í sívaxandi mæli þeim urriðum sem þeir veiða. Á liðnu sumri var svo komið að þrátt fyrir að mikill meirihluti veiðimanna ýmist sleppti þeim urriðum sem að þeir veiddu eða gættu mikils hófs við veiðarnar þá var fjöldi "löndunarkrananna" sem lönduðu miklum fjölda urriða einfaldlega orðinn of mikil. Sögur af veiði þeirra vitnuðu einfaldlega um að það skilaði ekkir árangri að biðla til þessa þrönga hóps um að breyta veiðiháttum sínum. Því var ákveðið að taka það skref að setja reglur um veiðarnar 2014 á þekktustu veiðisvæðunum við Þingvallavatn sem miðuðu að því að vernda urriðann. Veiðiréttarhafar þessara svæða sýndu urriðanum vinarhug sinn í verki í ár með því að setja regluverk í gagnið sem skyldar veiðimenn til að veiða urriðann á flugu og sleppa honum. En það fer eftir veiðisvæðum hvort þessi regla gildir fyrir allt sumarið eða hluta þess. Fyrir landi Orkuveitu Reykjavíkur í sunnanverðu Þingvallavatni þar sem urriðinn er að hluta við ströndina allt sumarið gilda þessar reglur fyrir allt sumarið. Fyrir landi Þjóðgarðsins á Þingvöllum norðanvert í vatninu gilda þær reglur frá því að veiði hefst 20. apríl til og með 31. maí, en á þeim tíma er urriðinn hvað ginkeyptastur fyrir agni veiðimanna á þeirri slóð.
Líta þarf heildstætt til nýrra viðmiða við veiðar á Þingvallaurriðanum
Veiðireglur sem kveða á um að stangveiðimenn sleppi urriðum eru ekki í gildi fyrir öll veiðisvæði Þingvallavatns. Samræming í þeim efnum er eðlilegt næsta skref í umbótum af þessu tagi enda urriðinn í Þingvallavatni sameiginleg auðlind veiðiréttarhafa við vatnið. Í því sambandi má minna á að urriðinn, í þessu stærsta náttúrulega vatni landsins, hrygnir einungis á fáeinum stöðum og því koma veiðar á öllum svæðum við sögu nýliðunar hans. Öxaráin fóstrar stærstu riðstöðvarnar en aukin hrygning á riðstöðvum við sunnanvert vatnið svo sem í Ölfusvatnsánni og Útfallinu á næstliðnum árum eru fagnaðarefni. Þó ekki sé búið að samræma veiðireglur á öllum veiðisvæðum Þingvallavatns þá verður að gera þá kröfu til veiðimanna sem veiða á svæðum þar sem engar takmarkanir eru á urriðaveiði að þeir taki mið af þeim ráðandi tíðaranda sem ríkir nú í umgengni veiðimanna við urriðana. Annað er í reynd óvirðing við bæði Þingvallaurriðann og þá sem standa vörð um hann með ýmsu móti. Í þessu sambandi verður einnig að geta þess að netaveiðar þar sem notuð eru net með grófum netariðli sem taka nær eingöngu fullvaxta stórurriða eru stundaðar í Þingvallavatni enda þótt langfæstir sem leyfi hafa til netaveiða í vatninu stundi þær. Þessar veiðar eru alger tímaskekkja og augljóst að finna verður leið til þess að leggja þær af sem allra fyrst. Gera verður greinarmun á slíkum veiðum og almennum netaveiðum sem beinast að bleikjunni sem bæði er sjálfsagt og eðlilegt að séu stundaðar af bændum sem land eiga að því mikla veiðivatni sem Þingvallavatn er.
Forsendur og gagnsemi þess að sleppa Þingvallaurriða í stangveiði
Þegar fjallað er um þær sleppingar Þingvallaurriða sem nú hafa rutt sér til rúms þá er eðlilegt að skoða slíka veiðihætti gagnvart laxi til viðmiðunar. Hin síðari ár hefur ekki þótt til mikils mælst að menn sleppi laxi við veiðar í ám hérlendis sé þess óskað af veiðiréttarhöfum. Breytir þá engu þótt greiddar séu háar upphæðir fyrir veiðileyfin sem ekki er reyndin með Þingvallaurriðann. Í tilfelli laxins er lagt upp með það að leiðarljósi að "veiða og sleppa" veiðiaðferðin tryggi betur hrygningu laxins og tilsvarandi nýliðun. Auk þess sem slíkt fyrirkomulag skili sér í því að fleiri veiðimenn njóti þess að veiða lax það árið þar sem hluti fiskanna sem sleppt er taki agn þeirra að nýju. Í tilfelli Þingvallaurriða sem sleppt er af veiðimönnum þá sýna rannsóknir Laxfiska að ekki er einungis líklegt að fiskurinn skili sér á hrygningarstöðvar sínar einu sinni líkt og laxinn. Heldur eru öll líkindi á að hluti þeirra fiska skili sér til hrygningar fleiri ár í kjölfarið. Einnig liggur fyrir að hluti urriðanna sem sleppt er veiðist aftur, ekki bara innan sama sumars heldur allt upp í mörg ár í kjölfarið með tilheyrandi líkamsvexti á milli. Hér verður einnig að nefna þá augljósu staðreynd að þrátt fyrir bágan efnahag landsins um þessar mundir þá er fæðuskortur sem betur fer ekki viðvarandi og urriðaveiði þaðan af síður lykilatriði í öflun fæðu almennt. Auk þess er kvikasilfursinnihald Þingvallaurriða sem náð hafa um og yfir 6 punda (3 kg) þyngd í flestum tilfellum meira en leyfileg viðmiðunarmörk um matvæli til sölu og dreifingar gera ráð fyrir og slíkur fiskur því ekki heppileg fæða. Í Þingvallavatni er margfalt meira af bleikju en urriða og þar sem bleikjan er úrvalsmatfiskur þá geta veiðimenn sannarlega náð sér í soðið þó svo að urriðanum sé sleppt.
Af framansögðu má ljóst vera hve skynsamlegt og eðlilegt það er að sleppa Þingvallaurriða. Þeir stangveiðimenn sem stunda veiðar í þeirri einstöku náttúrufegurð sem einkennir Þingvallavatnssvæðið og eru svo lánsamir að setja í sprækan urriða eru vissulega ekki sviknir af slíkri upplifun einni sér. Það eykur nefnilega einungis á upplifunina að vita það að með því að sleppa urriðanum þá eru þeir að leggja þessum konungi íslenskra ferskvatnsfiska lið.
Jóhannes Sturlaugsson
Urriðahængur í fiskteljara Laxfiska í Öxará
- Mánudagur, 30. desember 2013
Fiskislóðin fékk viðurkenningu á Sjávarútvegsráðstefnunni 2013
Nýsköpunarhugmynd Jóhannesar Sturlaugssonar hjá Laxfiskum um fiskleitarþjónustu sem væri þróuð til að auka afrakstur fiskveiða og fiskirannsókna fékk þriðju verðlaun á ársfundi Sjávarútvegsráðstefnunnar 21.-22. nóvember 2013. Samkeppnin ber nafnið „Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar“ og þar eru metnar raunhæfar framsæknar og frumlegar hugmyndir sem taldar eru líklegar til að efla íslenskan sjávarútveg.
Fiskislóðin er vinnuheitið á umræddri fiskleitarþjónustu sem byggir á því að notfæra sér nýja fjarkönnunarmöguleika til að vakta göngur nytjafiska „í beinni“ um gervitungl. Þjónustan felur sér að þróað sé kerfi þar sem merkingar á fiskum með gervitunglamerkjum og miðlun upplýsinga um ferðir þeirra fiska geri útgerðaraaðilum kleift að auka afrakstur fiskveiða og rannsóknaraðilum kleift að auka afrakstur fiskirannsókna.
Fiskislóðin var kynnt sérstaklega á Sjávarútvegsráðstefnunni 2013 og skjávarpahluta þeirrar kynningar má finna hér
Samantekt á helstu eiginleikum og gagnsemi fyrirhugaðrar þjónustu sem lá til grundvallar mati dómnefndar Sjávarútvegsráðstefnunnar á hugmyndinni er að finna hér
Myndin sýnir þá sem hlutu viðurkenningar Sjávarútvegsráðstefnunnar 2013 fyrir framúrstefnuhugmyndir. Á myndinni eru talið frá vinstri Hjálmar Sigurþórsson framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu Tryggingamiðstöðvarinnar sem veitti viðurkenningarnar, Jóhannes Sturlaugsson Laxfiskum, Kai Logeman Háskóla Íslands, Sigmar Guðbjörnsson Stjörnu-Odda og Guðrún Marteinsdóttir Háskóla Íslands. Sigmar Guðbjörnsson fékk 1. verðlaun fyrir hugmynd að fiskflokkunarbúnaði fyrir botnvörpur, 2. verðlaun fengu Guðrún Marteinsdóttir og Kai Logemann við Háskóla Íslands fyrir hugmynd að upplýsingakerfi fyrir sæfarendur og Jóhannes Sturlaugsson 3. verðlaun fyrir hugmynd að fiskleitarþjónustu fyrir útgerðar- og rannsóknaraðila.
Umfjöllun um framúrstefnuhugmyndir Sjávarútvegsráðstefnunnar 2013 má finna á vefsíðu ráðstefnunnar hér og í ráðstefnuheftinu þar sem fjallað er um 7 áhugaverðustu hugmyndirnar, sjá hér