Föstudagur, 05. maí 2023

Niðurstöður fiskirannsókna í vatnakerfi Elliðaánna 2022

Jóhannes Sturlaugsson


Ellidaar-fiskteljari-2022-LAXFISKAR2

Myndin hér að ofan sýnir 3 merkta laxa í fiskteljaranum í Elliðaánum í júlí 2022 (2 örmerkta sbr. veiðiugga þeirra vantar og einn með útvortis slöngumerki sem sjá má neðan bakugga).


Niðurstöður árlegra rannsókna Laxfiska í Elliðaánum 2022 fyrir Orkuveitu Reykjavíkur sem unnar eru í samvinnu við Stangaveiðifélag Reykjavíkur vitnuðu um að stofnar lax og urriða í Elliðaánum væru í mjög góðu ástandi. Niðurstöðurnar voru settar fram í 2 skýrslum. Annars vegar í árlegri skýrslu langtímavöktunar á fiskistofnum í vatnakerfi Elliðaánna Elliðaár 2022 - Rannsóknir á fiskistofnum vatnakerfisins og hins vegar í skýrslunni Árbæjarkvísl Elliðaánna - Fiskirannsóknir 2022

 

Ganga laxins í Elliðaárnar 2022 samanstóð af ríflega 1600 löxum sem nánast allir tóku þátt í hrygningunni því laxveiðar í ánni byggja alfarið á því að veiða og sleppa. Enduheimtur á afturbata hoplaxi sumarið 2022 frá merkingum á hrygningarlaxi í Árbæjarkvísl 2021 gáfu forvitnilega innsýn í vægi hrygningarlaxa á því lífsskeiði í göngu laxins í Elliðaárnar 2022. Talningar í Árbæjarkvísl á hrygningartíma 2022 sýndu að þá voru þar á bilinu 192 til 212 laxar eða um 8% af þeim löxum sem gengu í Elliðaárnar það sumar. Seiðabúskapur í vatnakerfi Elliðaánna var góður 2022.  Góð staða laxins í  Elliðaánum vitnar um gott ástand vistkerfis þessarar gersemi Reykjvíkurborgar.