Sunnudagur, 13. júní 2021

Útbreiðslusvæði Atlantshafslax í hafi endurskilgreint

Jóhannes Sturlaugsson

Nú í júní 2021 birtist í vísindaritinu Nature Scientific Reports greinin „Redefining the oceanic distribution of Atlantic salmon“, sem var afrakstur fjölþjóðlegrar rannsóknar á Atlantshafslaxi. Víst er að niðurstöðurnar gerbylta þekkingu okkar á lífi laxins í Atlantshafinu. Höfundur þessara orða var af Íslands hálfu þátttakandi í umræddri rannsókn. Gagnasöfnunin byggði á því að nota gervitunglafiskmerki til að fylgjast með ferðum laxa í sjó, sem gerði kleift að afla einstakra upplýsinga – allt frá landfræðilegri útbreiðslu laxanna til hegðunar þeirra og umhverfisaðstæðna hverju sinni. Merkingarnar mínar í rannsókninni á íslenskum laxi með gervitunglafiskmerkjum mörkuðu um leið innleiðingu þeirrar tækni í fiskirannsóknum á Íslandi.

atlantic_salmon_from_laxa_iceland-migration_route_from_po-up_satellite_ tag_data-laxfiskar-johannes_sturlaugsson

Í rannsókninni sáu stórlaxar úr Laxá í Aðaldal um að mæla eigin ferðir þ.m.t. dýpið sem þeir fóru um og umhverfi sitt með hliðsjón af sjávarhita og ljósmagni. Þar var um að ræða hoplaxa sem lifað höfðu af hrygninguna og vetrardvölina í ánni. Laxarnir voru stangveiddir um vorið á leið sinni til sjávar, nestaðir með gervitunglafiskmerkjum fyrir sjóferðina og fluttir rétt út fyrir sjávarós árinnar í Skjálfandaflóa. Laxfiskar kostuðu verkefnið sem naut auk þess styrks úr Fiskræktarsjóði og er eins og áður segir hluti af alþjóðlegu samstarfsverkefni þar sem laxar hafa verið merktir með gervitunglafiskmerkjum í Noregi, Danmörku, Írlandi, Spáni og við Grænland auk merkinganna hérlendis. Óhætt er að segja að þessar alþjóðlegu rannsóknir undir forystu Auduns Rikardsen hjá Háskólanum í Tromsø í Noregi hafi gerbreytt þekkingu á gönguleiðum og ætissvæðum laxa í Atlantshafi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu strax hve mögnuð þessi rannsóknartækni er þegar í hlut eiga langferðalangar fiska, líkt og laxinn er sérlega gott dæmi um. 

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun Kastljóss (2012) um minn þátt í rannsókninni og um niðurstöður frá öðrum rannsóknum mínum á göngum laxins í sjó.

lax_i_sjo-kastljos_fjallar_um_kortlagningu_a_ferdum_laxins