Föstudagur, 02. október 2020

Atferli bleikju í Þingvallavatni skráð árið um kring

Jóhannes Sturlaugsson

 

Ferðir fiska af mörgum tegundum og stofnum er einn af þeim þáttum náttúrunnar sem eðli málsins samkvæmt hefur lengst af verið mönnum hulinn í smáatriðum. Með tilkomu rafeindafiskmerkja hafa opnast ýmsir möguleikar til að afla ítarlegra upplýsinga um hegðun og umhverfi (atferlisvistfræði) fiska, jafnvel svo árum skiptir. Undangengin 22 ár hef ég árlega rannsakað atferlisvistfræði urriða í Þingvallavatni með rafeindafiskmerkjum. Jafnvel þó svo að ég hafi lítillega notað rafeindafiskmerki til að skoða hegðun bleikju í Þingvallavatni á árum áður (2007-2008), þá var það ekki fyrr en sumarið 2018 sem ég notaði þá tækni til að afla samfelldra atferlisgagna um bleikjurnar árið um kring í Þingvallavatni. Í þeirri vöktun minni á hegðun bleikjanna þá eru rafeindafiskmerki af gerð hljóðsendimerkja grundvöllur gagnasöfnunarinnar, sem og tilheyrandi síritandi skráningastöðvar sem starfræktar eru vítt og breitt um Þingvallavatn. Þannig gefst færi á að kortleggja landfræðilega staðsetningu bleikjanna árið um kring, annað atferli þeirra (fiskdýpi) og vatnshitann sem þær upplifa. Slíkar upplýsingar eru einnig skráðar fyrir þá urriða sem vaktaðir eru með sama hætti.

Ég hef nú þegar merkt með hljóðsendimerkjum 17 bleikjur af þremur svipgerðum. Þar er um að ræða murtu, kuðungableikju, og ránbleikju, en dvergbleikjan sem stendur fyrir fjórðu svipgerð bleikjanna í Þingavallavatni hefur enn ekki komið við sögu rannsóknarinnar. Rannsókn þessi hefur skilað um 200 þúsund skráningum frá ferðum bleikjanna, yfir tímabilið frá sumrinu 2018 þar til gögnum var síðast hlaðið niður sumarið 2020.

Rannsóknin hefur þegar leitt í ljós að hluti fiskanna sem fylgt var eftir, allt frá murtum sem voru í kringum 20 cm að lengd til stórvaxinna bleikja, áttu það til að nýta sér öll helstu svæði Þingvallavatns á innan við einu ári. En jafnframt voru dæmi um það að bleikjur héldu sig á vissum svæðum vatnsins árið um kring. Landfræðilegu upplýsingarnar yfir dvalarstaði bleikjanna gefa færi á að afmarka hrygningarsvæði þeirra, vetursetusvæði og svæðin sem ætisgöngurnar taka til.

Úr hópi bleikjanna má nefna fróðlegar upplýsingar frá tæplega tveggja ára röð skráninga á ferðum stærstu bleikjunnar, sem var 15 ára og 62 cm löng þegar hún veiddist sumarið 2020. Sá fiskur dvaldi víða í syðri hluta vatnsins þar sem hann var merktur og fór einnig um miðbik vatnsins en gekk aldrei í nyrsta hluta Þingvallavatns. Skráningar þess fisks sýndu fróðlega vanafestu í ferðum fisksins m.t.t. árstíma þessi 2 ár.

Hitamælingarnar sem bleikjurnar framkvæmdu á ferðalögum sínum sýndu ennfremur að þegar kaldur faðmur vetrarins umvefur undirdjúp Þingvallavatns, þá áttu bleikjurnar það til að dvelja á svæðum þar sem yls naut við vegna innstreymis volgra linda undan Nesjahrauninu.

Þegar litið er til atferlis murtunnar þá hefur rannsóknin ekki einungis gefið nýja innsýn í hvernig sá smái og knái fiskur fer vítt og breitt um vatnið með hliðsjón af árstíma, heldur einnig skilað sérlega fróðlegum upplýsingum um á hvaða dýpi murtan heldur sig á hverjum tíma; allt frá yfirborði og niður á 100 metra eða meira á dýpstu svæðum Þingvallavatns.

      bleikja_rnr4_murta_thingvallavatni-dvalarsvaedi_atferli_yfir_1_ar-johannes_sturlaugsson_laxfiskar

 

Bleikjan í Þingvallavatni hefur lengi vakið forvitni þeirra sem rannsakað hafa fiska í ferskvatni hérlendis. Sporgöngumaður íslenskra fiskirannsókna, Bjarni Sæmundsson rannsakaði bleikjuna í Þingvallavatni í lok 19. aldar og í upphafi 20. aldar. Þá setti Bjarni fram upplýsingar um þessar 4 svipgerðir bleikja á grunni þeirra nafngifta sem bændur við vatnið notuðu á þeim tíma til aðgreiningar á þeim. Bleikjan í Þingvallavatni var síðan rannsökuð ítarlega á margvíslegan máta þegar kom fram á 20. öldina og góða samantekt um þær rannsóknir er að finna í bókinni Þingvallavatn - undraheimur í mótun (2002), sem Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson ritstýrðu (sjá kaflann Bleikjan: Sigurður S. Snorrason o.fl.). Það er síðan sumarið 2018 sem nýr kafli hófst í rannsóknum á bleikjunni í Þingvallavatni með umræddri vöktun minni í Þingvallavatni árið um kring á atferlisvistfræði bleikja af mismunandi svipgerðum.

Rannsókn mín á atferlisvistfræði bleikju í Þingvallavatni kallast á við atferlisrannsóknir mínar á urriðanum í Þingvallavatni. Gögnin sem rannsóknin skilar gera í senn kleift að kortleggja meginmynstrið í árstíðabundinni hegðun bleikja af mismunandi svipgerðum, en um leið þann breytileika sem fyrirfinnst í hegðun einstaklinganna. Skráningar árið um kring í Þingvallavatni er sýna dvalarsvæði bleikja, aðra hegðun þeirra og vatnshitann sem þær upplifa, voru framkvæmdar á sömu svæðum á sama tíma á sama hátt fyrir urriða af 3 stofnum (Öxará, Ölfusvatnsá og Útfalli). Þessi samhliða skráning á atferlisvistfræði bleikja af mismunandi svipgerðum og fyrir urriða af mismunandi stofnum, er gott dæmi um hvernig auka megi gagnsemi atferlisrannsókna á fiskum. Sem hér er gert með því að beita skilvirkri nútímatækni í rannsóknum til að framkvæma ítarlegar og hagnýtar atferlisrannsóknir á fiskum yfir víðfeðm svæði, þar sem landfræðileg útbreiðsla er kortlögð jafnhliða. Rannsókn sem gerir kleift að safna samtímis upplýsingum um mismunandi fisktegundir, fiskistofna og svipgerðir fiska, auk þess sem skoða má hegðun fiskanna nánar út frá stærð þeirra, lífsstigi, kyni og kynþroskaástandi. Rannsóknin vitnar jafnframt um þá spennandi möguleika sem felast í því að skrá samhliða upplýsingar um afræningja og bráð hans, líkt og tilfellið er í rannsókn minni á stórurriðanum og helstu bráð hans murtunni.

Hér að neðan má sjá umfjöllun Stöðvar 2 um rannsóknina í fréttum þann 2. október 2020.

bleikja_i_thingvallavatni-atferlisrannsokn-johannes_ sturlaugsson-laxfiskar