Föstudagur, 14. maí 2021

Forsvarsaðilar Hafrannsóknastofnunar sniðgengu lög og vandaða stjórnsýsluhætti er þeir notuðu og birtu í leyfisleysi óbirt rannsóknargögn Jóhannesar Sturlaugssonar / Laxfiska

Jóhannes Sturlaugsson

 

Í áliti sem Umboðsmaður Alþingis birti nýverið vegna kvörtunar á starfsháttum þáverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar og sviðsstjóra hjá sömu stofnun, er að finna áfellisdóm er tekur til þess skorts á vísindasiðferði sem þar var til umfjöllunar. Hafrannsóknastofnun varð uppvís að því að taka, nota og birta óbirt rannsóknargögn í eigu Jóhannesar Sturlaugssonar hjá Laxfiskum í desember 2018 án vitneskju hans eða leyfis. Um var að ræða arfgerðargögn frá eldislöxum úr Fífustaðadalsá í Arnarfirði og tilheyrandi upprunagreiningu þeirra. Í kjölfarið kvartaði eigandi gagnanna í byrjun janúar 2019 til Hafrannsóknastofnunar yfir þeim vinnubrögðum. Í því skyni að lenda þessu máli var forsvarsaðilum Hafrannsóknastofnunar síðan boðinn sá kostur að biðjast afsökunar á framferði sínu. En einnig þyrftu þeir að sjá til þess að þar sem gögnin voru birt af hálfu Hafró sem eigin gögn væru, þá væri tilgreint að þar væru um að ræða gögn Jóhannesar/Laxfiska. Skemmst er frá að segja að forsvarsaðilar Hafrannsóknastofnunar virtu ekki þá bón. Vegna umræddra starfshátta var kvartað til Umboðsmanns Alþingis sem tók málið til meðferðar og lauk því með áliti því sem birt var 30. apríl 2021. Að neðan er að finna hlekk á það álit Umboðsmanns Alþingis. Hér er við hæfi að nefna sérstaklega fimm atriði sem komið er inn á því áliti Umboðsmanns Alþingis (1-5):

 


1. Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram það ólögmæti og siðleysi sem fólst í því af hálfu forsvarsaðila Hafrannsóknastofnunar að nota og birta óbirt rannsóknargögn Jóhannesar Sturlaugssonar hjá Laxfiskum án hans leyfis.


2. Í áliti Umboðsmanns Alþingis er vikið orðum að tölvupóstum frá fyrrverandi forstjóra Hafrannsóknastofnunar til Jóhannesar Sturlaugssonar eiganda Laxfiska með vísun í innihald þeirra og með hliðsjón af reglum er gilda um hátterni opinberra starfsmanna (sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996). Í því sambandi telur Umboðsmaður Alþingis rétt „að ítreka að Hafrannsóknastofnun og starfsmönnum hennar ber í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að haga samskiptum sínum við þá sem til hennar leita með þeim hætti að gætt sé hlutleysis, sanngirni og fyllstu kurteisi í garð þeirra sem leita til stofnunarinnar með erindi sín.“


3. Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram að forsvarsaðilar Hafró biðjast ekki afsökunar á framferði sínu fyrr en eftir ítrekuð tilmæli þar að lútandi frá Umboðsmanni Alþingis.


4. Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram að forsvarsaðilar Hafró urðu ekki við þeirri beiðni að geta eiganda rannsóknargagnanna þar sem þau voru birt af þeirra hálfu sem eigin væru (í veffrétt og síðar í skýrslum).


5. Í áliti Umboðsmanns Alþingis kemur fram að þáverandi forstjóri Hafrannsóknastofnunar greindi Umboðsmanni Alþingis ranglega frá málavöxtum.

 

Álit Umboðsmanns (Mál. nr. 10358/2020) er að finna á eftirfarandi hlekk: https://www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/8596/skoda/mal/

 

Morgunblaðið fjallaði um málið 11. maí, bæði ítarlega í blaðinu og einnig á vefsíðu sinni: https://www.mbl.is/200milur/frettir/2021/05/11/hafro_birti_rannsoknargogn_an_leyfis/