Elsti urriði Þingvallavatns 19 ára 2019                 

Jóhannes Sturlaugsson     

                      thingvallaurridi-brown_trout-salmo_trutta-copyright_johannes_sturlaugsson_laxfiskar

Urriðahængur í Öxará

Við rannsóknir mínar á Þingvallaurriðum 2019, þá veiddi ég meðal annars í Öxará nokkra afgamla urriða sem þar voru mættir til hrygningar um haustið. Einn þessara elstu kunningja minna í Öxará var 19 ára urriði. Á þeim 12 árum sem liðin voru frá því að sá urriði gekk fyrst til hrygningar, þá sýna skráningar að 8 þeirra ára var hann mættur til hrygningar svo staðfest sé. Á meðan þessum ellibelg endist aldur til, þá verður fylgst náið með honum næstu misserin með hjálp sendimerkis sem hann fékk að viðskilnaði. Þessi háaldraði urriði og jafnaldrar hans vitna um hve háum aldri Þingvallaurriðar geta náð - og eru reyndar elstu Þingvallaurriðar sem staðfestar sögur fara af. Þessi staðreynd minnti mig um leið á það að mínar árlegu rannsóknir til rétt ríflega tuttugu ára á þessum konungum og drottningum íslenskra ferskvatnsfiska, eru núna fyrst mögulega að nálgast það að ná utan um ævispönn elstu fiskanna er hófu lífsgöngu sína þegar ég var að byrja þessar rannsóknir mínar.

Rannsóknir sýna að enn stækka hrygningarstofnar Þingvallaurriða             

Vöktun mín/Laxfiska á hrygningarstofnum Öxarár og Ölfusvatnsár sýnir að stærð hrygningarstofna þessara áa er í sögulegu hámarki og hefur ekki um áratugaskeið náð öðrum eins hæðum. Í þeim efnum vísa ég til vöktunar minnar á hrygningarstofnunum á 21. öldinni, en einnig almennra frásagna frá ofanverðri 20. öld þegar svo lítið var um urriða í Þingvallavatni að það var farið að tala um Þingvallaurriða í þátíð. Haustið 2019 hrygndu um 3000 Þingvallaurriðar og megnið af þeim í Öxará. Þar sem hluti hrygningarfisks hjá Þingvallaurriða tekur sér eins árs hlé frá hrygningu og jafnvel lengur þá verður að ætla að fjöldi hrygningarfiska Þingvallaurriða sé nú ekki undir fjórum þúsundum.

Skýrslur

 

 

  Laxfiskar ehf  

  Hraðastöðum 1

  271 Mosfellsbæ

 

  Netfang: johannes@laxfiskar.is

  Sími: 664 7080