There are no translations available.

  

Laxastofnum fórnað fyrir sjókvíaeldi á laxi?
Jóhannes Sturlaugsson

 Grein sem birtist prentuð í Stundinni 21. des. 2018 og í vefútgáfu á stundin.is  8. janúar 2019


Ein af stóru spurningunum í Íslandsklukku Halldórs Laxness varðaði manndráp. Nefnilega það „hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?“ Nokkuð sem kemur upp í hugann nú þegar skoðuð er stærsta spurningin þessi árin sem varðar íslenska náttúru í ferskvatni, sem einnig grundvallast á mannanna verkum. Nefnilega það, hvenær drepur maður laxastofn og hvenær drepur maður ekki laxastofn?.                        

Kæru Íslendingar. Tíminn vinnur gegn íslenskum laxastofnum og það gera íslensk stjórnvöld líka. Líf og heilsa íslenskra laxastofna ræðst nú af sjókvíaeldi á fjarskyldum erlendum laxastofni og byggðapólitík. Aldrei fyrr í sögu okkar lýðveldis hefur verið veitt leyfi fyrir því að erlendur dýrastofn valsi um landið og blandist náttúrulegum dýrastofnum þess. Þetta eru hinsvegar örlög íslensku laxastofnana sem hér hafa þróast í árþúsundir. Náttúruverndarsjónarmiðin hafa orðið undir, og tilvist og heilbrigði íslenskra laxastofna hafa verið sett skör neðar en tímabundin atvinnu- og byggðasjónarmið. Ákvarðanir þær og áform þurfum við að endurskoða, því örlög íslenskra laxastofna eru í okkar höndum.

...
Norskættaður eldislax úr sjókvíum, skaðvaldur í íslenskri náttúru

Í haust fann ég eldislaxa á hrygningarslóð í Fífustaðadalsá við Arnarfjörð, sem lífsýnagreiningar staðfestu að voru af þeim norskættaða stofni sem notaður er í sjókvíaeldi hér við land. Sá veruleiki er þar birtist var raunveruleg áminning þess efnis að eldi á frjóum norskættuðum eldislaxi í opnum sjókvíum hér við land er ógn við íslenska laxastofna; helstu fjárhagslegu auðlindina í  lífríki ferskvatns hérlendis. Eldi sem skaðar einnig göngusilungsstofna í næsta nágrenni þess sjókvíaeldis, sem og ýmislegt í lífríki sjávar í þeim fjörðum sem hýsa slíkt eldi. Stórfelld aukning hefur orðið á skömmum tíma í sjókvíaeldi á laxi hér við land og fyrir liggja áætlanir um að umfangið margfaldist á næstu árum. Nú þegar er neikvæðra áhrifa af umfangsmiklu laxeldi í sjókvíum farið að gæta. Eldi á laxi í opnum sjókvíum felur að venju í sér að lax sleppur úr kvíunum í miklu magni og veldur erfðablöndun hjá náttúrulegum laxastofnum auk vandamála sem stafa af laxalús, mengun og sjúkdómahættu. Hrygning norskættaðra eldislaxa í íslenskum ám er eitthvað sem engan hefði getað órað fyrir að menn gætu fallist á sem fórnarkostnað laxeldis. En nú þegar upplýsingin lýsir sem aldrei fyrr og sjálfbær umgengni við náttúruna þykir sjálfsögð, þá er þetta dómur íslenskra laxastofna. Ef svo fer sem horfir þá styttist í að sagan sé öll í tilfellum smæstu laxastofnanna sem næstir eru sjókvíaeldissvæðunum. Hver saga hinna verður veit nú enginn. Hryggðarsaga nágrannalandanna frá eldi á laxi í opnum sjókvíum er dæmisaga sem svíður undan. En við virðumst ekki geta lært af þeirri reynslu og bætum gráu ofan á svart með því að notast við fjarskyldan eldisstofn af erlendum uppruna. Norðmenn gengu þó ekki svo langt, en engu að síður hefur sjókvíaeldi þar við land valdið óbætanlegum skaða á fjölmörgum náttúrulegum laxastofnum þeirra. Þessi vá af völdum sjókvíaeldisins og áætlanir um gríðarlega aukningu á næstu árum, kallar á að gripið verði til varna fyrir íslenska laxastofna.

...
Náttúruváin og óveðursskýin sem hrannast upp

Íslenskum laxastofnum og fleiri þáttum í íslensku lífríki hefur verið sköpuð heimatilbúin hætta. Í reynd slík að nú þegar væri Veðurstofan búin að gefa út gula viðvörun ef þetta mál væri á þeirra könnu. Þessi áskapaða hætta er vörðuð stjórnvaldsaðgerðum; allt frá leyfisveitingum og eftirliti, til afturköllunar leyfa ef skilyrði eru ekki uppfyllt. Vegna þess að umrædd náttúruvá er heimalöguð, þá hvílir rík skylda á hinu opinbera að uppfylla skyldur sínar. Síðasta ár hefur verið varðað mörgum mjög neikvæðum atburðum af vettvangi sjókvíaeldis á laxi sem eldisaðilar og aðrir þurfa að draga lærdóm af. Þeir atburðir sýna að opinberir aðilar sem koma við sögu þurfa að rækja skyldur sínar af meiri festu en verið hefur. Einungis þannig er hægt að tryggja viðunandi ábyrgð í þeim sjókvíaeldisrekstri sem leyfi hefur þegar verið gefið fyrir, og um leið tryggja tilvist þeirra laxastofna sem eru berskjaldaðir.

Eldi á  norskættuðum eldislaxi í opnum sjókvíum við Ísland hefur þrátt fyrir gríðarlegar aukaverkanir þess verið leyft með vísun í atvinnusköpun og mögulegan efnahagslegan ábata sem slíkum rekstri getur fylgt á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þeir sem eiga veiðirétt hérlendra áa, bændur og aðrir landeigendur, ítreka hinsvegar þá hættu sem umrætt laxeldi setur íslenska laxastofna í - og þar með þann mikla efnahagslega ávinning sem stangveiðar í ám og afleidd þjónusta skilar landsbyggðinni, sem og þjóðarbúinu. Augljósasta dæmi um sláandi skaða sem fylgir sjókvíaeldi á laxi í opnum sjókvíum í miklum mæli felst í þeirri erfðablöndun sem náttúrulegir íslenskir laxastofnar verða fyrir vegna eldislaxa sem sleppa úr sjókvíunum og taka þátt í hrygningu með náttúrulegum löxum í ánum. Hinsvegar má ekki gleyma öðrum skaða sem fylgir laxeldi af þessum toga. Dæmi um það eru skertar lífslíkur laxa úr ám sem falla í firði þar sem sjókvíaeldi á laxi er stundað vegna sníkjudýrsins laxalúsar sem eldið magnar upp í fjölda. Síðan er það stóra sprengjan í farangri sjókvíaeldisins, nefnilega sjúkdómahættan sem slíkt eldi í stórum stíl felur í sér. Líkja má þeirri sjúkdómahættu sjókvíaeldis við að gangsett séu tundurdufl. Við getum leyft okkur að vona þau springi ekki eða einungis þau smærri. En vitum jafnframt að þegar stóru höggin ríða af fyrir tilstilli sjúkdóma sem berast inn á svæði vegna eldisins, þá geta heilu laxastofnarnir legið í valnum líkt og dæmi frá öðrum löndum sýna.

...
Áhættan við áhættumatið

Árið 2017 gerði Hafrannsóknastofnun áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.  Á grunni þess áhættumats eru settar skorður við umfangi sjókvíaeldis á laxi hérlendis. Áhættumatið gerir ráð fyrir því að umfang sjókvíaeldis miðist við að erfðablöndun fari ekki yfir tiltekin mörk - og með hliðsjón af því eru teknar ákvarðanir um hve mikið magn af eldislaxi megi ala í opnum sjókvíum hér við land. Það framtak stjórnvalda í þeirri stöðu sem upp var komin var af hinu góða, en það sama verður ekki sagt um þá ákvörðun stjórnvalda; það að leyfa eldi á frjóum norskum laxi í opnum sjókvíum.  Áhættumat á erfðablöndun eldislaxa og náttúrulegra laxa verður að vera hafið yfir allan vafa, en sú er ekki reyndin með það áhættumat sem nú er unnið eftir. Áhættumatinu var vissulega ætlað að tryggja ábyrgara sjókvíaeldi á laxi, samanborið við það ef þess nyti ekki við. Sá tilgangur með áhættumatinu getur hinsvegar snúist upp í andhverfu sína ef forsendur matsins byggja á viðmiðum sem vanmeta áhrif eldisins. Slíkt vanmat er til staðar í áhættumati Hafrannsóknastofnunnar. 
...

Nauðsynlegar umbætur 

Þrennt þarf að lagfæra svo forsendur áhættumats Hafrannsóknastofnunar standist og það geti þjónað ætluðum tilgangi sínum; sem er að gefa ábyrgt mat á þeirri áhættu sem felst í erfðablöndun eldislaxa úr sjókvíeldi við alla laxastofna landsins. Í fyrsta lagi þarf áhættumatið að taka tillit til allra laxastofna landsins, þar með talið smæstu laxastofnanna - sem áhættumatið gerir ekki í dag. Stofna sem aukinheldur eru að hluta í næsta nágrenni sjókvíaeldisins þar sem erfðablöndun frá hendi eldislaxanna er mest. Í öðru lagi er í áhættumatinu miðað við að íslenskum laxastofnum sé hætta búin af erfðablöndun þegar hlutur eldislaxa í hrygningu þeirra hafi náð 4%. Þetta viðmið byggir á erlendum gögnum yfir hver séu neðri mörk á flakki hjá náttúrulegum laxastofnum, en rétt væri að nota íslensk gögn sem sýna að slíkt hlutfall flakks hjá íslenskum laxastofnum er mun lægra. Notkun á erlenda viðmiðinu gerir það að verkum að tilvist náttúrulegra íslenskra laxastofna er í reynd töluvert meiri hætta búin af erfðablöndun en áhættumatið gerir ráð fyrir. Í þriðja lagi er í áhættumatinu ekki tekið tillit til þess að eldislaxinn sem um ræðir er ekki af innlendum uppruna, heldur norskættaður lax. Að jafna hrygningarþátttöku laxa af erlendum uppruna saman við hrygningarþátttöku laxa sem runnir eru frá stofnum af sama landsvæði eða aðliggjandi landsvæðum er ekki réttlætanlegt því slíkt vanmetur þá áhættu sem felst í þeirri erfðablöndun sem fylgir hrygningarþátttöku norskættaðra eldislaxa í íslenskum ám. 

Vegna ofannefndra ágalla er ljóst að strax þarf að lagfæra áhættumatið á erfðablöndun eldislaxa við náttúrlega laxa, svo það þjóni hlutverki sínu. Uppfæra þarf í áhættumatinu þröskuldsgildi erfðablöndunar með hliðsjón af íslenskum gögnum um flakk náttúrulegra laxa. Taka þarf tillit til smæstu laxastofna landsins í áhættumatinu. Ennfremur þarf að meta þá umframáhættu sem fólgin er í því  að nýta fjarskylda norskættaða eldislaxa í íslensku sjókvíaeldi og taka tillit til þeirra upplýsinga í áhættumatinu.

Upplýsingar um flakk hjá laxi af náttúrulegum laxastofnum hérlendis eru marktæk gögn sem strax er hægt að nýta beint sem viðmið inn í áhættumat á erfðablöndun eldislaxa við íslenska laxa, í stað þeirra erlendu viðmiða sem nýtt eru í dag.  Auðvelt er að taka inn í matið smáa laxastofna þar sem skráð veiði er fyrir hendi. En í tilfellum fáliðaðra laxastofna þar sem ekki eru tiltæk skráð gögn yfir árlega veiði til að fá innsýn í stærð þeirra, má koma þeim stofnum inn í áhættumatið með því að nýta fyrirliggjandi gögn sem aflað hefur verið með svæðisbundnum rannsóknum. Tiltæk eru gögn rannsóknafyrirtækisins Laxfiska yfir stærð hrygningarstofna laxa tiltekinna áa við Arnarfjörð sem nýta má beint.  Í tilfelli annarra smárra laxastofna sem þekktir eru frá rannsóknum á seiðabúskap áa eða á grunni upplýsinga um óskráðar veiðinytjar - þá má byrja á því að leggja mat á stærð þeirra stofna, sem síðan væri skipt út með öflun nákvæmari gagna. 

Á meðan sjókvíaeldi á frjóum norskættuðum eldislaxi í opnum sjókvíum er leyft þá þarf slíkur rekstur að fylgja mjög ströngu eftirliti. Ef það á að ganga skammlaust þá þarf að ráðast strax í nauðsynlegar úrbætur á viðmiðum, verkferlum og eftirfylgni, svo tryggja megi tilvist íslenskra laxastofna á meðan slíkur rekstur er leyfður. Samhliða þarf að hefja vinnu við áætlanagerð sem hefur það að markmiði að leggja af eldi á frjóum eldislaxi í opnum sjókvíum svo fljótt sem verða má. Íslenskir laxeldismenn sem í dag halla sér að ósjálfbærum mengandi rekstri opinna sjókvía ættu að líta til vistvænni eldisaðferða á laxi. Dæmi um það væri eldi á ófrjóum laxi eða eldi á frjóum laxi í tryggilega aflokuðum eldisrýmum sem bjóða ekki upp á að laxinn sleppi í sífellu líkt og reyndin er í tilfelli opinna sjókvía. 

 ...

Tilvistarréttur laxastofna   

Víkjum þá aftur að spurningu Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni um það hvað sé aftaka og hvað ekki. Í áhættumati Hafrannsóknastofnunar er tilgreint hvaða laxveiðiár séu í mestri hættu vegna laxeldis í opnum sjókvíum hér við land. Ár sem fóstra minnstu laxastofnana eru ekki til umræðu í því áhættumati. Ef yfirfæra ætti þetta varúðarsjónarmiðalíkan Hafrannsóknastofnunar yfir á vangaveltur Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni; þá er ljóst að svarið við vangaveltum Jóns væri á þá lund að ef maður sálgaði verulega smávöxnum manni þá væri það ekki eiginlegt dráp. Kannski var kóngsins böðull Sigurður Snorrason einmitt þeirrar gerðar. Og þótt enginn sakni Sigurðar þá er víst að þeir laxastofnar sem hverfa af sjónarsviði íslenskrar náttúru vegna undanlátssemi stjórnvalda á kostnað náttúrunnar, verður sárt saknað sem og óspillts ástands þeirra laxastofna sem skaðast munu. 

...
Íslenskir laxastofnar verði áfram hluti af náttúru Íslands

Nýting okkar á náttúruauðlindum Íslands er hluti af því lífi sem felst í að byggja þetta land. Um leið er það sjálfsögð skylda okkar að skila þeirri náttúru frá kynslóð til kynslóðar með því að umgangast hana með þeim hætti að hún beri ekki skaða af. Tilvera og heilbrigði íslenskra laxastofna er ekki einkamál stjórnvalda eða Íslendinga yfir höfuð. Íslendingar þurfa að rísa undir þeirri ábyrgð sem felst í því að vera hluti íslenskrar náttúru. Laxar Íslands höfðu dvalið hérlendis í árþúsundir er landnám hófst; þeir eru hinir upprunalegu íbúar Íslands - og þá á að umgangast sem slíka.  Nánari umfjöllun mína um þetta málefni er að finna á vefsvæði Laxfiska í greinagerðinni „Hugvekja um örlög íslenskra laxastofna í ljósi eldis á laxi í opnum sjókvíum við Ísland“..

Ítarlegri umfjöllun um málefnið má lesa í greininni  Hugvekja um örlög íslenskra laxastofna í ljósi eldis á laxi í opnum sjókvíum við Ísland

                         eldislaxar_lusasar_bakuggaskemmd_talknbardsskemmd_fifustadadalsa_2018-mynd_johannes_sturlaugsson

Norskættaðar eldislaxahrygnur frá sjókvíaeldi sem veiddust í Fífustaðadalsá í október 2018.

Reports

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080