Thingvallaurridi_Brown_Trout_Copyright_laxfiskar-LjGr-logo-184k

ÞINGVALLAURRIÐI

Upplýsingar um lífshætti og rannsóknir frá Jóhannesi Sturlaugssyni líffræðingi

1_thingvallaurridi_rannsoknir_markmid-oxara_thingvallavatn_research_aims_brown_trout-copyright-js_laxfiskar.is
Markmið rannsóknanna
.
2_thingvallaurridi_rannsoknir_ranns_svaedi-oxara_thingvallavatn_research_study_area_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
Loftmyndakort af Þingvallavatni
.
3_thingvallaurridi_rannsoknir_dvol_oxara_thingvallavatn_receiver_tracking_brown_trout-copyright-johannes_s_laxfiskar.is
Dvalarsvæði urriða í Þingvallavatni
.
4_thingvallaurridi_kvikasilfur_lifmognun_thingvallavatn_manneldisreglur_mercury_biomagnification_brown_trout-laxfiskar.is
Meðaltalsmagn kvikasilfurs i holdi urriða
.
5_thingvallaurridi_voxtur_4_ar_oxara_thingvallavatn_research_body_growth_brown_trout-copyright-johannes_s_laxfiskar.is
Vöxtur hrygningarurriða - dæmi
.
6_thingvallaurridi_voxtur_2_ar_oxara_thingvallavatn_research_body_growth_brown_trout-copyright-johannes_s_laxfiskar.is
Vöxtur urriða - dæmi (geldur-1. hrygn.)
.
8_thingvallaurridi_rannsoknir_lengd_oxara_thingvallavatn_research_length_brown_trout-copyright-johannes_s_laxfiskar.is
Fjöldi urriða í Öxará vs fisklengd o.fl.
.
1_thingvallaurridi_rannsoknir_merkingar_oxara_thingvallavatn_research_study_tagging_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
2_thingvallaurridi_rannsoknir_solrun_johannesdottir_oxara_thingvallavatn_study_tagging_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
3_thingvallaurridi_rannsokn_fiskmerki_oxara_thingvallavatn_dst_ultrasonic_aqoustic_tag_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
4_thingvallaurridi_rannsoknir_fiskteljari_oxara_thingvallavatn_research_fish_counter_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
5_thingvallaurridi_rafkenni_oxara_thingvallavatn_erlendur_geirdal_pit_30m_long_antenna_in_2008_brown_trout-laxfiskar.is
.
6_thingvallaurridi_fiskteljari_oxara_thingvallavatn_fish_counter_pit_spawning_monitoring_brown_trout-copyr.-laxfiskar.is
.
7_thingvallaurridi_rannsoknir_fiskteljari_oxara_thingvallavatn_video_fish_counter_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
16_thingvallaurridi_rannsoknir_lake_thingvallavatn_research_study_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
17_thingvallaurridi_rannsoknir_lake_thingvallavatn_research_study_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
18_thingvallaurridi_rannsokn_thingvallavatn_migration_study_aqoustic_tag_vr_receivers_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
19_thingvallaurridi_is_rannsoknir_lake_thingvallavatn_ice_cover_video_documentation_0-104m_charr-copyright-laxfiskar.is
.
20_thingvallaurridi_is_rannsoknir_lake_thingvallavatn_ice_cover_video_documentation_0-104m_charr-copyright-laxfiskar.is
.
21_thingvallaurridi_rannsoknir_mlimerki_merkingar_thingvallavatn_dst_study_tagging_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
22_thingvallaurridi_merkingar_thingvallavatn_jon_ogmundsson_olafur_gudmundsson_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
23_thingvallaurridi_rannsoknir_merkingar_thorsteinsvik_thingvallavatn_research_study_tagging_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
24_thingvallaurridi_rannsoknir_merkingar_thorsteinsvik_thingvallavatn_research_study_tagging_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
25_thingvallaurridi_rannsoknir_merkingar_olfusvatnsa_thingvallavatn_research_study_tagging_brown_trout-copyright-laxfiskar.is
.
1_thingvallaurridi_haengur_storurridi_oxara_thingvallavatn_brown_trout_male_spawner-copyright-johannes_s_laxfiskar.is
.
2_thingvallaurridi_hrygna_storurridi_oxara_thingvallavatn_brown_trout_female_spawner-copyright-johannes_s_laxfiskar.is
.
3_thingvallaurridi_haengur_stor_isaldarurridi_oxara_thingvallavatn_giant_brown_trout-johannes_sturlaugsson_laxfiskar.is
.
4_thingvallaurridi_stor_isaldarurridi_oxara_thingvallavatn_giant_record_brown_trout-johannes_sturlaugsson_laxfiskar.is
.
5_thingvallaurridi_stor_isaldarurridi_oxara_thingvallavatn_giant_record_brown_trout-johannes_sturlaugsson_laxfiskar.is

There are no translations available.

Konungur Þingvallavatns

Á þessari síðu vefsvæðis Laxfiska eru birtar upplýsingar sem varða lífshætti Þingvallaurriðans og rannsóknir Laxfiska á þessum merka fiski. 

Í lok síðustu aldar var ekki hátt risið á Þingvallaurriðanum því fáir slíkir voru þá í Þingvallavatni og því gjarnan talað um hann í þátíð. Á þeim tíma eða nánar tiltekið árið 1999 hóf sá sem þetta ritar forathuganir á lífsháttum Þingvallaurriðans því slíkar upplýsingar bráðvantaði. Þetta var upphafið að rannsóknum á atferli Þingvallaurriðans sem ég hef unnið að síðan ásamt öðrum rannsóknum á þeim fiski og umhverfi hans.  Frá því að ég stofnaði rannsóknafyrirtækið Laxfiska 2003 hefur fyrirtækið staðið fyrir árvissum metnaðarfullum rannsóknum á Þingvallaurriðanum og umhverfi hans, þar með talið vöktun á hrygningarstofni Öxarárurriðans en þær rannsóknir spanna nú 15 ára tímabil. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum (Þingvallanefnd) hefur styrkt rannsóknirnar lengst af, síðast vegna rannsóknanna 2014 og auk þess hafa ýmsir velunnarar Þingvallaurriðans veitt rannsóknunum lið einu sinni eða oftar þar á meðal orkufyrirtækin Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur sem land eiga að Þingvallavatni.

Konungur íslenskra ferskvatnsfiska

Þingvallavatn, umhverfi þess og náttúra er undraverk sem hvergi á sér samjöfnuð í veröldinni.  Margt sérstætt er að finna í þessu stærsta náttúrulega vatni Íslands sem er 84 km2 að flatarmáli og dýpst 114 metrar og því fjórða dýpsta vatn landsins. Ekki er hallað á neina lífveru Þingvallavatns þótt stórurriðinn sé nefndur með lotningu konungur þeirra kristaltæru undirdjúpa.  Höfundur þessara orða hefur einnig réttilega nefnt hann konung íslenskra ferskvatnsfiska. Þrátt fyrir einstætt líkamlegt atgervi tröllvaxinna Þingvallaurriða sem endurspeglast meðal annars í ævintýralegum veiðisögum er varða þennan þrekmikla fisk, þá er líf urriðans fallvalt.

Þingvallaurriðinn samanstendur af fáeinum stofnum en vægi þeirra mismunandi stofna hefur breyst mikið undangengna öld. Í bókinni Urriðadans eftir Össur Skarphéðinsson frá árinu 1996 er að finna samantekt á ýmsum veiðiupplýsingum sem lágu fyrir um þessa urriðastofna sem þar er fimlega fléttað saman við fróðleik fyrri tíma úr umhverfi þessa sögufræga fisks. Á þessum tíma var aðeins hægt að vitna í örlítið hrafl af líffræðilegum upplýsingum um Þingvallaurriðann og ekkert ítarefni tiltækt um atferli hans né vistfræði. Rannsóknirnar hafa nú skilað slíkum gögnum. Þau gögn eru unnin og birt eftir því sem fjármögnun leyfir en eigið framlag Laxfiska ræður þar mestu líkt og í gagnasöfnuninni sjálfri.  Hér eru sett á blað fáein almenn orð um sögu Þingvallaurriðans og stöðu hans í dag og dæmi um niðurstöður rannsókna Laxfiska á Þingvallaurriðanum og umhverfi hans birt, en síðan verður smátt og smátt aukið við þetta fræðsluefni. Fræðsluefnið og aðrar upplýsingar er meðal annars hægt að skoða með því að nota tengla myndanna í dálkunum hér til hliðar. Með því að smella á myndirnar er sjálfkrafa farið inn á þá undirsíðu sem að viðkomandi mynd er vistuð undir í fullri stærð og hún síðan fundin með því að skruna niður í gegnum myndefni síðunnar.

Sjóbirtingurinn sem settist að í Þingvallavatni

Þingvallaurriðinn er kominn í beinan karllegg af sjóbirtingum sem námu hér land líklegast fljótlega eftir að landið kom undan ísskildi síðustu ísaldar fyrir um 11 þúsund árum síðan. Í kjölfar síðustu ísaldar beljaði jökulvatn um Þingvallasveit og síðan fram til sjávar. Sjóbirtingarnir sem námu þar land nýttu það til hrygningar en gengu til sjávar í ætisleit líkt og siður er hjá þeim sjógengnu urriðum. Þegar landið var laust undan oki jökulsins fór það að rísa sem leiddi þess á endanum að sumir fossar urðu ófiskgengir og um leið tók fyrir göngur sjóbirtinga upp í Þingvallasveit. Við þessar aðstæður sem talið er að hafi skapast á þessu svæði fyrir um 9 þúsund árum varð urriðinn í Þingvallasveit landluktur og hefur frá þeim tíma verið staðbundinn í ferskvatni þar. Fyrir þann tíma hafði eldvirkni á vatnasviði Þingvallavatns snarbreytt heimilisaðstæðum urriðans sem leiddi til þess að í stað jökulfallvatna skilaði vatnið sér á endanum að mestu sem lindavatn niður í Þingvallasveit. Enn í dag er lindavatnið uppistaðan í vatnsforða Þingvallavatns en að litlu leyti er vatn Þingvallavatns komið frá dragvatni ánna sem í það renna og rigningarvatni. Þingvallavatn varð ætisslóð staðbundnu urriðanna sem greindust í mismunandi stofna með hliðsjón af þeim ám og lækjum sem þeir hrygndu í. Þingvallaurriði er samheiti þessara urriða. Bleikjan og hornsílið sem settust að í Þingvallavatni líkt og urriðinn skipta miklu sem æti fyrir hann. Bleikjan þróaðist í fjögur afbrigði og eitt þeirra er murtan en þessi smávaxna bleikja byggir afkomu sína að mestu á sviflægum krabbadýrum. Murtan er helsta æti Þingvallaurriðans og hið gríðarlega magn murtu sem Þingvallavatn fóstrar er forsenda líkamsburða urriðans og þess hve fjölliðaður hann getur orðið en bitmýið í Efra-Sogi hafði sannarlega sitt að segja þegar það var og hét fyrir virkjun Efra-Sogsins. Urriðar Þingvallavatns hafa oft verið nefndir ísaldarurriðar með vísun í forsögu þeirra og fer vel á því. Á Íslandi er víðar að finna ísaldarurriða sem lokuðust af með svipuðum hætti en það sem skilur á milli þeirra og Þingvallaurriðans er gnægtarbrunnurinn Þingvallavatn með sína mergð af murtu sem gerir það að verkum að Þingvallaurriðinn ber í eiginlegri merkingu höfuð og “herðar” yfir aðra ísaldarurriða.

Stofnar Þingvallaurriða

Þekktir eru nokkrir stofnar Þingvallaurriða sem kenndir eru við ár og læki sem þeir hrygndu í og hér til hliðar má sjá loftmyndakort sem sýnir Þingvallavatn og hvar þessi straumvötn falla í vatnið og úr því. Urriðastofn kenndur við ána Efra-Sog hryngdi í útfalli Þingvallavatns en það svæði heitir einfaldlega Útfallið auk þess að hrygna í Efra-Sogi sem á upptök sín í Útfallinu. Ef haldið er norður frá Útfallinu að vestanverðu við Þingvallavatn þá er skammt að ósunum þar sem að Villingavatnsá og Ölfusvatnsá falla í í Þingvallavatn. Sömu megin norðanvert í vatninu fellur Móakotsá í Þingvallavatn og hefur allajafna á sér svipbragð lækjarsytru. Þá er komið að Öxaránni sem fellur í Þingvallavatn norðanvert og eru þá upp talin helstu straumvötn sem tengjast Þingvallavatni.

Öxarárstofninn hefur í um hálfa öld verið stærsti urriðastofn vatnsins og um leið staðið undir stærstum hluta hrygningar urriða í Þingvallavatni. Í lok síðustu aldar var árlegur fjöldi hrygningarfiska í ánni vel innan við hundrað fiskar en hrygningarstofninn var orðinn ríflega tuttugfalt stærri 2017.

Efra-Sogsstofninn var stærsti urriðastofninn í Þingvallavatni fram til þess tíma að virkjun á Efra-Sogi, náttúrulegu útfalli Þingvallavatns, leiddi til brotthvarfs hans samhliða því að þessi stærsta lindá Íslands með rennsli upp á um 100 m3/s var öll færð úr þeim farvegi í aðrennslisgöng Steingrímsstöðvar. Sú virkjunarframkvæmd stendur fyrir mestu breytingar sem orðið hafa á lífsskilyrðum Þingvallaurriða á sögulegum tíma. Ástæður brotthvarfs þess stofns voru í fyrsta lagi að Efra-Sog var stíflað 1959 og vatninu veitt framhjá farvegi Efra-Sogs til framleiðslu raforku um virkjunargöng Steingrímsstöðvar. En líkt og Össur greinir frá í bók sinni Urriðadansi þá stuðluðu fleiri þættir að falli þessa stofns ekki síst það að riðmöl sópaðist burtu af hrygningar- og uppvaxtarsvæðunum í Útfallinu samhliða flóði sem kom til vegna virkjunarframkvæmdanna. Þó svo að urriðastofninn sem hrygndi í Útfallinu og efst í Efra-Sogi hafi horfið af sjónarsviðinu sem slíkur þá er í reynd ekki hægt að útiloka að fáeinir afkomendur hans hafi hjarað hverju sinni. Þetta er að því gefnu að á hrygningarsvæðunum sem eyðilögðust ofan stíflu samhliða virkjunarframkvæmdunum hafi þrátt fyrir allt verið einhverjar örreitisbleyður þar sem hrygning hafi lánast annað veifið eftir virkjunin kom til en sökum þess hve fáliðaður sá urriði hafi verið þá hafi hans í engu gætt í veiði samanborið við fyrri tíma veiði. Vissulega væri fallegt til þess að hugsa að  slíkir afkomendur væru enn syndandi um Þingvallavatn. Ef svo væri þá er ljóst að þeir búa við skárri hrygningarskilyrði nú en um langt skeið því Landsvirkjun flutti möl að nýju á þetta svæði í lok síðustu aldar og sleppti þar auk þess urriðaseiðum undan Öxarárurriða. Þeir urriðar hafa hrygnt þar í kjölfarið sem og urriðar undan þeim fiski sem þar hefur klakist úr hrogni og hefur sú hrygning sannanlega verið þarna árlega frá og með árinu 2006. Einnig má geta þess að takmarkað magn urriða af sama meiði sem gengu sem seiði og fullvaxta fiskar niður fyrir stíflumannvirkin efst í Efra-Sogi hafa á sama tímabili hrygnt árlega ofarlega í Efra-Sogi neðan stíflunnar en Landsvirkjun hefur á annan ártug hleypt allt að 4 m3/s árið um kring undir stíflulokurnar í farveg Efra-Sogs. Þar sem þeir urriðar sem hrygna í þessari litlu útgáfu af Efra-Sogi komast ekki upp í Þingvallavatn er ætisöflun þeirra að mestu bundin við Úlfljótsvatn.

Urriðastofninn sem kenndur hefur verið við Ölfusvatnsá virðist aldrei hafa lagt upp laupana. Þó lítið hafi farið fyrir urriða úr Ölfusvatnsá á köflum hefur þessi stofn komist næst Öxarárurriðanum síðustu hálfa öldina og átt góða spretti síðustu árin. Villingavatnsárstofninn er einn urriðastofninn enn, en hann líkt og áin sjálf er afar lítill að burðum og óvíst um hrygningu þar á löngum köflum.

Auk þess er mögulegt að fleiri stofnar urriða hafi verið og/eða sé að finna í Þingvallavatni sem þá hrygna þar sem skilyrði skapast í vatninu sjálfu við innstreymi linda og lækja. Mikilvægt er að muna að þó svo að menn veiði urriða við lindir og læki á hrygningartíma er það engin staðfesting á hrygningu enda gerir breið tímaspönn í hrygningartíma urriðans það að verkum að ferðir hans til og frá stærstu hrygningarstöðvunum, þar með talið um lækjarósa og lindasvæði, hafa sömu tímaspönn. Öðru máli myndi gegna ef menn stæðu urriðann að hrygningu á slíkum svæðum.

Hvað mögulega hrygningu við lindir varðar þá hafa fengist fáeinar vísbendingar í rannsóknum Laxfiska frá hrygnum sem utan hefðbundins hrygningartíma hafa verið með fullþroska hrogn sem gæti átt skýringar í því að umræddar hrygnur myndu hrygna utan hefðbundins hrygningartíma frá hausti og fram í fyrrihluta vetrar. Ýmist þá við kaldar lindir síðsumars, samanber hrygningu bleikjunnar í Ólafsdrætti, í tilfellum urriðahrygna sem veiðst hafa með fullþroska hrogn fyrrihluta sumars eða vegna mögulegrar hrygningar við heitar lindir  í tilfellum hrygna sem verið hafa með fullþroska hrogn í lok árs eða byrjun árs.

 

Lífsferill Þingvallaurriðans

Þingvallaurriðar upp til hópa hafa lífsferil stórurriða en auk þess er að finna tilvik um annan lífsferil þar sem hængar kynþroskast smáir.  Lífsferill stórurriðans, hins dæmigerða Þingvallaurriða einkennist af fiskiáti hans, síðbúnum kynþroska hans sem gerir það að mikilli líkamsstærð hefur verið náð þegar urriðinn hrygnir í fyrsta sinn og af langlífi hans sem gerir það að verkum að hann hrygnir gjarnan árum saman og heldur á þeim tíma áfram að vaxa. Ef við fylgjum þeim fiskum eftir frá hrogni til hrygningar þá hefst fyrsti veturinn þegar frjóvgað hrognið dvelur niður í mölinni á botni ánna og ósasvæðanna svo sem Útfallinu fram á næsta vor eða sumar. Þessi hrygningarsvæði einkennast auk undirlagsins sem hentar svo vel til varðveislu hrognann af straumvatninu sem þar ræður ríkjum er færir hrognunum nægt súrefni. Vegna þess hve víð spönn hrygningartímabilsins er allt frá september og fram í desember og í einstaka tilvikum fram í janúar, þá nægir sá mismunur einn og sér til þess að hrogn á sömu riðstöðvum klekjast út allt frá vori og fram sumar en fleiri breytur koma að sjálfsögðu þar við sögu. Lífskeið kviðpokaseiðisins tekur nú við þar til að forði kviðpokans er uppurinn og lífskeið hins eiginlega seiðis tekur við en frá þeim tíma grundvallast næringarástand fisksins á eigin ætisöflun.  Þingvallaurriðar hefja snemmhendis að nýta sér góð ætisskilyrði Þingvallavatns og má þar nefna sem dæmi að flest seiði sem klekjast út í Öxará halda strax á sínu fyrsta sumri út í ætisnægtarbrunninn Þingvallavatn en lítið brot þeirra dvelur lengur í ánni. Í Þingvallavatni dvelur urriðinn fyrst sem seiði og síðan sem stærri geldfiskur við ætisöflun næstu árin og tekur út mest af sínum vexti árlega frá vori og fram á haust þegar framboð á æti er mest og hár vatnshiti þess tíma ársins tryggir skjóta meltingu þess.  Þessu uppvaxtarskeiði geldurriðans í Þingvallavatni lýkur þegar hann kynþroskast og hrygnir í fyrsta sinn sem er almennt ekki fyrr en hann er orðinn 5-8 ára.  Í kjölfar þeirra kaflaskipta er ýmist að hann hrygnir árlega í kjölfarið eða að tvö eða fleiri ár líði á milli hrygninga en þættir sem ráða mestu um hvort urriðinn tekur sér slík hlé frá hrygningu eru annarsvegar erfðabundnir eiginleikar og ástand fiskanna og hinsvegar ætisskilyrðin hverju sinni. Hrygningarurriðar halda áfram að stækka þau ár sem þeir hrygna þó mikil orka fari þá í framleiðslu hrogna  og svilja en líkamsvöxtur þeirra er almennt meiri þau ár sem þeir taka sér hlé frá hrygningu svo sem hjá afgömlum fiski með hefur hægari efnaskipti í takti við háan aldurinn.  Til eru dæmi um Þingvallaurriða sem eru komnir yfir 10 kg að þyngd og hafa aldrei hrygnt sem eru allt niður í 7 ára gamlir. Elsti urriði sem komið hefur við sögu rannsókna Laxfiska svo vitað sé er 19 ára hængur.

 

Veiðar á Þingvallaurriða

Fyrri tíma veiðum á Þingvallaurriða hefur verið lýst vel í bók Össurar Skarphéðinssonar Urriðadansi. Ennfremur skal bent á góða samantekt Hilmars J. Malmquist á veiði urriða úr Efra-Sogi sem er að finna í bókinni Þingvallavatn - Umdraheimur í mótun sem Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson ritstýrðu, en í þeirri bók er að finna samantektir eftir fjölmarga rannsóknaaðila varðandi Þingvallavatn og lífríki þess. Sú bók var einnig gefin út á ensku árið 2011 undir heitinu „Thingvallavatn - A unique world evolving". 

Veiðar á Þingvallaurriðanum nú um mundir eru stundaðar hvorutveggja með netaveiði og stangveiði og hefur verið svo um langt skeið. Bleikjan er reyndar uppistaða allrar veiði í Þingvallavatni en á síðustu árum hefur hlutfall urriða þó vaxið hröðum skrefum í aflanum.  Þingvallaurriðinn hefur um langt skeið verið þekktur fyrir mikla líkamsburði og kjarnmiklar veiðisögur runnar frá viðureignum stangveiðimanna við hann. Það er því í alla staði eðlilegt að menn hafi gaman af því að veiða hann en þekking okkar á Þingvallaurriðanum í dag og almenn viðhorf stangveiðimanna hafa leitt til þess að flestum urriðum sem veiddir eru á stöng núorðið er sleppt að viðureign lokinni.

Breytingar á veiðiháttum stangveiðimanna við Þingvallavatn hin síðari ár sem felast í því að þeir hafa í auknum mæli valið að sleppa Þingvallaurriðum á sér nokkurn aðdraganda og liggur einkum í þrennu. Jákvæðni stangveiðimanna gagnvart veiðihættinum "veiða og sleppa" hin síðari ár hefur sett mikið mark á ríkjandi tíðaranda í stangveiði og það hefur valdið því að stangveiðimenn sleppa oftar Þingvallaurriðanum eftir viðureignir við hann. Rannsóknir sem Laxfiskar hafa staðið fyrir og markviss kynning á niðurstöðum þeirra hefur einnig flýtt fyrir því að veiðihátturinn “veiða og sleppa” hefur í auknum mæli verið tekinn upp við stangveiðar í Þingvallavatni þegar urriði kemur við sögu. Ástæðan er sú að niðurstöður rannsóknanna sýna gagnsemi þeirrar aðferðar til þess að bæta hagi Þingvallaurriðans og reyndar stangveiðimannanna einnig ef litið er til líkindanna á því að fá tækifæri á að kljást við stóra urriða. Sem dæmi um þetta þá hafa rannsóknirnar sýnt að Þingvallaurriðinn hrygnir gjarnan yfir margra ára tímabil.  Því eru fyrirsjáanlega miklar líkur á því að Þingvallaurriðar þó mjög stórir séu leggi með sér til nýliðunar urriðans í einhver ár til viðbótar þegar stangveiðimenn sleppa lífvænlegum urriðum sem þeir fá við veiðar sínar í Þingvallavatni. Á þeim tíma munu einhverjir þeirra fiska einnig veiðast aftur með tilheyrandi ánægju fyrir veiðimenn enda gjarnan búnir að stækka í millitíðinni. Í þriðja lagi má nefna að rannsóknir á magni kvikasilfurs og annarra snefilefna í Þingvallaurriða sem að Laxfiskar komu á og unnu í samvinnu við Matís skiluðu niðurstöðum sem einar sér stuðluðu einnig að því að veiðimenning hvað veiðar á urriðum í Þingvallavatni varðar hefur breyst á síðustu árum. Þær rannsóknir sýndu fram á að skynsamlegt er með hliðsjón af manneldis- og heilsufarssjónarmiðum að sleppa því að snæða urriða sem náð hefur ákveðinni stærð en nánar er vikið að þeim sannindum annar staðar á þessari síðu.

Laxfiskar hafa í samskiptum sínum við veiðiréttarhafa við Þingvallavatn líkt og í samskiptum við veiðimenn getað lagt þeim aðilum lið þegar mat hefur verið lagt á hvernig heppilegt sé að útfæra veiðinýtingu á Þingvallaurriða. Slík viðmið frá Laxfiskum voru meðal annars nýtt 2014 þegar Þingvallaþjóðgarður setti reglur um sleppingar á Þingvallaurriða og þegar Orkuveita Reykjavíkur leigði út sín veiðisvæði í Þingvallavatni.  Nú þarf að halda áfram þeim umbótum á veiðifyrirkomulagi sem að mestu ræðst af veiðireglum og þar skiptir tvennt mestu. Annarsvegar að bæta frekar veiðireglur þar sem þörf er á og samhliða að flýta svo sem má að samræma veiðireglur í vatninu öllu. Hinsvegar má nefna annað helsta skref í umbótum á urriðaveiði, sem felst í því að leggja af stóran möskva í netaveiði en slík net veiða nær eingöngu fulltíða stórurriða. Slík veiði er einungis stunduð af fáum þeirra sem leyfi hafa til netaveiði í Þingvallavatni en heggur umtalsverð skörð í raðir Þingvallaurriðanna. Netaveiði í þessu mikla fiskivatni eiga bændur við vatnið að sjálfsögðu að stunda áfram sér til hagsbóta en netaveiðar sem beinast eingöngu að fulltíða stórurriða eru tímaskekkja. Ítarefni um veiði á Þingvallaurriða má finna í greininni “Þingvallaurriði og veiðar á honum” sem opna má með tengli sem er staðsettur neðan við þessa umfjöllun um Þingvallaurriðann ásamt tenglum á ýmislegt annað ritað efni frá Laxfiskum sem varðar Þingvallaurriðann.

 

Rannsóknir á Þingvallaurriðanum

Ítarlegar rannsóknir á lífsháttum Þingvallaurriðans á síðari árum hafa gefið fróðlega innsýn í spennandi lífsbaráttu þessa langlífa fisks.  Allt frá því líf hans hefst með fallvöltu lífsstigi hrognsins í riðmölinni og síðan með því að rekja lífshætti urriðans í framhaldinu.  Þar koma við sögu magnaðar ferðir um Þingvallavatn, sem urriðinn nýtir fyrst sem geldfiskur árum saman í endalausri ætisleit sinni, til þess tíma að kynþroskinn rekur hann á riðstöðvarnar til hrygningar en frá þeim tíma verða hrygningagöngur hluti af tilveru hans líkt og ætisgöngur og veturseta.

 

Markmið og notagildi rannsóknanna

Megin markmið rannsóknanna er tvíþætt. Annarsvegar að vakta hrygningargöngur urriðans í Öxará og stærð og samsetningu hrygningarstofnsins. Hinsvegar að safna upplýsingum um atferli og umhverfi urriðans árið um kring í Þingvallavatni með notkun rafeindafiskmerkja og um vöxt þeirra með merkingum á seiðum og fiskum á öðrum lífsskeiðum víðsvegar um vatnið. Auk þess sem ítarlegra gagna um hrygningarhegðun þeirra er aflað með kvikmyndatökum á riðstöðvunum. Hluti ítarlegustu gagnanna sem aflað er um urriðana eru tímatengdar  upplýsingar um útbreiðslu, atferli og umhverfi Þingvallaurriða með hliðsjón af stofnum þeirra og lífsskeiðum, kyni fiskanna, stærð þeirra og aldri, einkum með notkun rafeindafiskmerkja. Í sumum tilvikum spanna slíkar skráningar mörg ár fyrir sama fiskinn ýmist  samfellt eða með hléum en lengsti óslitni mæliferill yfir fiskdýpi Þingvallaurriða og samsvarandi vatnshita á því ferðalagi spannar 4 ár.

Notagildi upplýsinga um lífshætti Þingvallaurriða er í raun margþætt en þær upplýsingar sem aflað er í rannsóknum hafa þá þegar gerbreytt þekkingu okkar á Þingvallaurriðanum. Sú þekking hefur gert fært að bæta bæði fræðslu og rannsóknir sem og umgengnina við urriðann. Stórurriði Þingvallavatns er íslenskum veiðimönnum og áhugafólki um náttúru Íslands að góðu kunnur. Allar nýjar upplýsingar um líferni Þingvallaurriða höfða því til fjölmenns hóps þessa fólks á landsvísu og hér eftir sem hingað til verður þessum hópi fólks kynntar niðurstöður rannsóknanna bæði í ræðu og riti.  Auk þess eiga niðurstöðurnar eðlilega erindi við mikinn fjölda þeirra gesta sem sækja Þjóðgarðinn á Þingvöllum heim en Þjóðgarðurinn hefur komið upplýsingum um urriðann á framfæri í samvinnu við Laxfiska, bæði í fræðslumiðstöðinni við Hakið og með árvissum fræðslugöngum.  Við kynningu þessa fræðsluefnis spillir ekki fyrir að þetta nýmeti upplýsinga er að umtalsverðum hluta verulega sérstætt. Þar eru enda á ferðinni heimsins stærstu staðbundnu urriðar í umhverfi sem ekki á sinn líka. Það væri reyndar ekki meira í frásögur færandi nema vegna þess að nýjustu tækni hefur verið beitt til að afla upplýsinga um atferli og umhverfi þessara fiska og því liggja þær einstöku upplýsingar fyrir.  Um leið eru þessar upplýsingar um atferli Þingvallaurriðanna  þær ítarlegustu sem tiltækar eru af þeim toga um urriða á veraldarvísu. Rannsóknarniðurstöðurnar hafa nú þegar leitt af sér umbætur í rannsóknum á urriða bæði í Þingvallavatni sjálfu sem og í öðrum vötnum og framhald rannsóknanna mun skila fleiri viðmiðum fyrir framþróun í þeim efnum. Á heildina litið munu niðurstöður rannsóknanna á atferlisvistfræði Þingvallaurriða þannig auk þess að afla staðgóðrar þekkingu á Þingvallaurriðanum hverju sinni varðandi framþróun hrygningarstofna og aðra þætti sem eðlilegt er að vakta og þannig skapa þekkingargrunn sem hefur hagnýtt gildi sem viðmið fyrir Þingvallaurriða til framtíðar litið. Glöggt dæmi um slíkt notagildi er að hafa í höndunum nákvæmar upplýsingar um stærð hrygningarstofnanna og yfir það það hvernig urriðar af mismunandi stofnum nýta sér mismunandi svæði Þingvallavatns á hverjum árstíma. Slíka grundvallarvitneskju er mjög mikilvægt að eiga vísa til að styðjast við þegar ákvarðanir eru teknar sem varða urriða í Þingvallavatni.

 

Fjölstofnarannsóknir á atferlisvistfræði Þingvallaurriða og samhliða rannsóknir á atferlisvistfræði bleikju af mismunandi svipgerðum

Áhersla rannsóknanna síðustu árin til viðbótar árlegum talningum til ákvörðunar á stærð hrygningarstofna Öxarár og Ölfusvatnsár hefur falist í því að merkja árlega urriða af mismunandi stofnum og lífsstigum með rafeindafiskmerkjum einkum af gerð hljóðsendimerkja og vakta síðan ferðir þeirra fiska árið um kring vítt og breitt í Þingvallavatni með síritandi skráningarstöðvum. Þannig fást tímatengdar upplýsingar, bæði yfir dvalarstaði urriða af mismunandi stofnum og lífsstigum í landfræðilegu tilliti en ennfremur upplýsingar um það þeir fiskar aðhafast hverju sinni (fiskdýpi) sem og yfir það hvaða umhverfissaðstæður þeir upplifa (vatnshiti). Þessar fyrstu samsvæða fjölstofnarannsóknir hérlendis á atferli fiska og tilheyrandi vistfræði hófust árið 2015, en árið 2018 hófu Laxfiskar einnig samskonar vöktun á atferlisvistfræði bleikju í Þingvallavatni þegar murtur, kuðungableikjur og ránbleikjur voru merktar þar með hljóðsendimerkjum. Þær rannsóknir í Þingvallavatni gera kleift að bera saman atferli bleikja af þessum svipgerðum, auk þess að gefa kost á ýmsum samanburði við urriðann þar sem hvað forvitnilegast verður að bera saman hegðun urriðans og helstu bráðar hans, murtunnar. 

 

Fræðsla um Þingvallaurriða og lífshætti þeirra

Miðlun upplýsinga frá rannsóknum Laxfiska á Þingvallaurriðanum hefur verið sinnt á marga vegu. Í þeim efnum ber hæst árleg fræðsluganga Laxfiska sem er í október við Öxará í samstarfi við Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þar gefst áhugafólki á öllum aldri tækifæri á að sjá Þingvallaurriðann í eigin persónu og hlýða í leiðinni á fróðleik um hann og unhverfi hans. Vegur þessarar kynningar á Þingvallaurriðanum hefur farið vaxandi líkt og endurspeglast vel í þeirri gríðarlegu þátttöku sem hefur verið í urriðagöngunni, en um margra ára skeið hafa á bilinu 300 til 600 gestir tekið þátt í göngunni. Urriðagangan var haldin 19. árið í röð haustið 2019.  

Hér að neðan eru nefnd dæmi um það á hvaða vettvangi Laxfiskar hafa kynnt Þingvallaurriðann og niðurstöður rannsókna á honum.  

Urriðagangan – fræðsluganga á vegum Þingvallaþjóðgarðs og Laxfiska árlega í okt. 

Vísindavaka

Erindi hjá stangaveiðifélögum, veiðifélögum öðrum og hjá ýmsum félagasamtökum

Greinar og fréttir í veiðiblöðum, frétta- og dagblöðum

Fréttir og fréttaskýringaþættir í sjónvarpi og útvarpi

Kynningar hjá starfsmönnum fyrirtækja (Landsvirkjun og fleiri) 

Kynningar fyrir nemendur í grunnskólum

Kynning í erlendum heimildamyndum

Kynning í alþjóðavísindasamstarfi

Kynning á vefsvæði Laxfiska

Kynningarefni Þingvallaþjóðgarðs í fræðslumiðstöðinni við Hakið (sýningin sem sett var upp 2002).

 

Niðurstöður - dæmi

Hér á vefsíðunni til hliðar við megintextann eru settar fram niðurstöður á myndrænan hátt frá rannsóknum Laxfiska á Þingvallaurriðanum auk þess sem þar er að finna leiðbeiningar varðandi fiskmerki og skil þeirra, upplýsingar um magn kvikasilfurs í Þingvallaurriða og ljósmyndir og kvikmyndir frá rannsóknunum á Þingvallaurriðanum. Smátt og smátt verður hér á síðunni aukið við birtingu niðurstaðna og fræðsluefnis af öðru tagi sem varðar Þingvallaurriðann.  Í lokin skal bent á skýrslur og greinar sem hægt er að opna með tenglum í fæti síðunnar hér að neðan. Þau skrif byggja á þeim rannsóknum á Þingvallaurriðanum sem hér hafa verið nefndar.

 

Mikilvægur stuðningur við rannsóknir Laxfiska

Hér í lok þessarar samantektar er við hæfi að minnast á það að sá mikli árangur sem náðst hefur í rannsóknum Laxfiska á Þingvallaurriðanum byggist að verulegu leyti á þeim stuðningi sem þær hafa notið.

Grundvallaratriði þar er sú jákvæðni sem ríkir í garð rannsóknanna frá hendi veiðimanna og veiðiréttarhafa á vatnasviði Þingvallavatns sem kemur líka fram í viðhorfum þeirra sem ekki hafa þau tengsl við Þingvallaurriðann en láta sig samt varða þessa viðleitni til að afla upplýsinga og vernda þennan merka fisk.  Þannig hafa allir veiðimenn og aðrir veiðiréttarhafar við Þingvallavatn sem vettlingi geta valdið verið tilbúnir að liðka fyrir rannsóknunum með upplýsingum um urriða sem veiðast bæði merkta og ómerkta auk þess að eftirláta rannsóknunum fiska til merkinga og annarra athuganna þegar eftir því hefur verið leitað. Samstarf Laxfiska við Matís er síðan dæmi um hvernig samvinna við sérfræðinga í sértækum umhverfismálefnum sem varða Þingvallaurriðann hefur bætt enn frekar við þekkingu okkar á málefnum þessa fisks. Þar voru manneldissjónarmið höfð að leiðarljósi í því skyni að afla viðmiðunarupplýsinga um magn kvikasilfurs í Þingvallaurriða svo unnt væri að taka mið af þeim við nýtingu urriðans.

Rannsóknafyrirtækið Laxfiskar ber hita og þungann af rannsóknum sínum á Þingvallaurriðanum en ef þær hefðu ekki notið fjárstyrkja því til viðbótar þá hefði bragur þeirra verið allur annar og minni. Árlegar rannsóknir á urriðum af Öxarárstofni á vegum JS/Laxfiska hafa nú staðið í 17 ár (2003-2019). Árlegur stuðningur Þingvallanefndar (Þjóðgarðsins á Þingvöllum) skipti lengst af mestu við utanaðkomandi fjármögnun, síðast 2014. Ýmsir aðrir aðilar hafa styrkt rannsóknir Laxfiska og líkt og styrkir Þingvallanefndar þá skapaði sú liðveisla ýmis tækifæri í rannsóknunum sem annars hefði ekki verið gerleg í framkvæmd og verða þessir stuðningsaðilar rannsóknanna hér nefndir til sögunnar. Landsvirkjun hefur á ýmsum tímabilum stutt rannsóknir Laxfiska á Þingvallaurriðanum. Þannig veitti Landsvirkjun styrki árlega í fáein ár í upphafi rannsókna Laxfiska og síðan aftur árin 2016 - 2018 þegar fjármögnun Landsvikjunar gerði kleift að framkvæma rannsóknir á urriðum úr Útfallinu og Efra-Sogi sem hluta af fjölstofnavöktun á atferlisvistfræði Þingvallaurriða. Auk þessa ber að geta þess að styrkur fékkst úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar vegna þriggja ára rannsóknar á urriðanum í Efra-Sogi og í Úlfljótsvatni. Þá er komið að því að nefna annað orkufyrirtæki landsmanna. Orkuveitu Reykjavíkur sem líkt og Landsvirkjun á einnig hagsmuna að gæta við Þingvallavatn og styrkt hefur rannsóknir Laxfiska á Þingvallaurriðanum.  Orkuveita Reykjavíkur veitti Laxfiskum styrk í upphafi rannsóknanna og síðan aftur í gegnum Umhverfis- og orkurannsóknasjóður Orkuveitu Reykjavíkur en sá styrkur fékkst úr þeim sjóði til að mæta kostnaði Laxfiska og Matís við rannsóknir á magni kvikasilfurs og annarra snefilefna í Þingvallaurriða . Orkuveita Reykjavíkur styrkti einnig rannsóknir 2015-2018 á urriðum er nýta sunnanvert Þingvallavatn og sú rannsókn var í senn upphafið og hryggjarstykkið að þeirri fjölstofnavöktun á atferlisvistfræði Þingvallaurriða sem staðið hefur samfellt síðan og ljóst er að haldið verður úti fjölmörg ár til viðbótar. Í því sambandi er rétt að geta þess að landeigendur við Ölfusvatnsárós lögðu framhaldi þeirra rannsókna lið eitt árið. Í þessari upptalningu styrkaraðila rannsókna Laxfiska á Þingvallaurriðanum þá er komið að því að nefna að Fiskræktarsjóður hefur styrkt þær rannsóknir. Þá er komið að því að nefna ríkissjóð til sögunnar, en styrkir hafa fengist úr honum fyrir tilstilli verkefnastyrkja ráðuneyta.  Þar er öðru fremur um að ræða Umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem studdi fjölstofnarannsóknir Laxfiska á Þingvallaurriðanum 2018 og 2019 en einnig lagði  Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið rannsóknunum lið þau ár. Auk þess má nefna að þegar Laxfiskar voru að hefja atferlisrannsóknir á urriða í Þingvallavatni fyrir margt löngu þá lögðu stangaveiðifélögin Ármenn, Stangaveiðifélag Reykjavíkur og Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar þeim rannsóknum lið með því að leggja til styrkfé sem nægði til kaupa á einni skráningarstöð hljóðsendimerki fyrir hönd hvers félags.

Öllum ofangreindum aðilum er þakkaður sá mikilvægi stuðningur sem þeir hafa veitt rannsóknunum með einum eða öðrum hætti.