Alþjóðlegi göngufiskadagurinn - laugardaginn 24. maí 2014 

 

Fræðslu- og skemmtidagskrá í Elliðaárdal

Ein af best þekktu og ástsælustu laxveiðiám landsins eru Elliðaárnar í Reykjavík. Þær eru einstakar því afar sjaldgæft er að finna eins heilbrigða og fengsæla á inni í miðri borg sem laxar og aðrir fiskar ganga upp í. Í tilefni alþjóðlega göngufiskadagsins (World Fish Migration Day) verður boðið upp á fræðslu- og skemmtidagskrá til heiðurs Elliðaánum. Að dagskránni standa Reykjavíkurborg, Laxfiskar, Stangaveiðifélag Reykjavíkur og VAKI.   Á milli kl. 15 og 17 verða ýmsir viðburðir í næsta nágrenni við Rafstöðina í Elliðaárdal.

Fyrirtækið Laxfiskar sem sinnir rannsóknum á fiskistofnum Elliðaánna verða með lifandi laxfiska til sýnis og munu kynna lífshætti fiskanna fyrir gestum og segja frá rannsóknum sínum. Stangveiðifélag Reykavíkur sem hafa umsjón með stangveiðum í Elliðaánum, munu kynna sína starfsemi og kenna gestum flugukast. Fyrirtækið VAKI er leiðandi á heimsvísu við þróun og framleiðslu á búnaði sem telur og mælir lifandi fiska. Laxateljarinn í Elliðaánum er frá VAKA og mun fyrirtækið bjóða upp á kynningu á sinni starfsemi og virkni teljarans. Sjá nánar um teljarann á: www.riverwatcher.is.

Reykjavíkurborg mun standa fyrir fræðslugöngu fyrr um daginn eða kl. 14. Um er að ræða samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og fræðsluátaksins Reykjavík-iðandi af lífi. Gengið verður frá Gerðubergssafni í Breiðholti niður að efri hluta Elliðaánna og gestir fræddir um lífríki og vistfræði ánna. 

Haldið er upp á alþjóðlegan dag göngufiska víða um heim með það að markmiði að auka vitund fólks á stöðu og mikilvægi göngufiska og búsvæða þeirra, einkum fallvatnanna. Margar tegundir ferskvatnsfiska stunda árstíðabundnar göngur (far) á milli mismunandi búsvæða og mismunandi lífsskeið koma þar við sögu.  Af slíkum árstíðabundnum göngum eru göngur laxins þekktastar, en hann gengur í sjó til að afla sér ætis og síðan aftur í árnar til að hrygna. Sjóbirtingurinn og sjóbleikjan ganga einnig í sjó í sama tilgangi en sjávardvöl þeirra er hinsvegar almennt bundin við sumarið og fiskarnir dvelja síðan í ferskvatni yfir veturinn.  Állinn stundar einnig far milli sjávar og ferskvatns en ólíkt laxfiskunum hrygnir hann í sjó en dvelur þó lengstan tíma ævinnar í ferskvatni. Urriðar og bleikjur sem dvelja allan sinn aldur í ferskvatni stunda í sumum tilfellum far á milli straum- og stöðuvatna. Mikilvægi þess að gönguleiðir haldist opnar fyrir göngufiski er augljóst og því mikið lagt upp úr því að tálma ekki för þeirra um ár og læki. 

Fræðast má frekar um alþjóðlega göngufiskadaginn á www.worldfishmigrationday.com

 

        

           Gönguseiði 

 

Nánari upplýsingar um viðburðina í Elliðaárdal 24. maí fást hjá eftirfarandi:

Jóhannes Sturlaugsson, Laxfiskar Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. / 664-7080 / www.laxfiskar.is

Magnús Þór Ásgeirsson, Vaki Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. / 595-3026 / www.vaki.is

Ragnheiður Thorsteinsson, Stangaveiðifélag Reykjavíkur Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. / 898-2809 / www.svfr.is

Snorri Sigurðsson, Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. / 823-5339 /www.facebook.com/reykjavikidandi

Skýrslur

 

 

  Laxfiskar ehf  

  Hraðastöðum 1

  271 Mosfellsbæ

 

  Netfang: johannes@laxfiskar.is

  Sími: 664 7080