- Þriðjudagur, 28. maí 2013
Þingvallaurriðinn í þætti River Monsters 27. maí á Animal Planet
Þáttur í River Monsters vinsælustu þáttaröð sjónvarpsstöðvarinnar Animal Planet var sumarið 2012 tekinn upp að hluta á Íslandi meðal annars við Þingvallavatn þar sem Laxfiskar voru sóttir heim við rannsóknir á Þingvallaurriðanum konungi íslenskra ferskvatnsfiska.
Vinsælasta þáttaröð Animal Planet
Þáttaröðin “River Monsters” fjallar um fiskferlíki um víða veröld og veiðar líffræðingsins Jeremy Wade á þeim. Megin tilgangur Íslandsferðar Jeremy og samstarfsmanna hans frá Icon Films sem framleiða þættina var að mynda á slóðum Lagarfljótsormsins vegna lokaþáttar 5. þáttaraðarinnar þar sem aðalumfjöllunarefnið er ættingi hans Loch Ness skrímslið skoska.
Jeremy Wade fyrir miðju í þurrbúningi og kvikmyndatökumennirnir frá Icon Film sem unnu með honum að gerð þáttarins ásamt Erlendi Geirdal og Jóhannesi Sturlaugssyni frá Laxfiskum
Gengið á fund konungs
Sögur af Þingvallaurriðanum konungi íslenskra ferskvatnsfiska og rannsóknum Laxfiska á honum bárust Jeremy og félögum til eyrna og þeim fannst því við hæfi á ganga á fund konungs í Íslandsförinni. Þannig æxlaðist það að fólk um víða veröld mun kynnast ísaldarurriðanum í Þingvallavatni og ægifegurð Þingvallavatns og nágrennis. Þar er komið inn á vitneskju frá rannsóknum þeim sem Jóhannes Sturlaugsson og rannsóknafyrirtæki hans Laxfiskar hafa staðið fyrir á Þingvallaurriðanum í yfir áratug.
Jóhannes Sturlaugsson og Jeremy Wade
Gríðarleg kynning á Íslandi
Í ljósi þess hve sjónvarpsefni frá Animal Planet er vinsælt á veraldarvísu og þeirri staðreynd að River Monsters þættir skipa sér í efstu sætin yfir mesta áhorf þátta stöðvarinnar þá er hægt að átta sig á því hve víðtæk og mikil kynning á Íslandi felst í sýningu þáttarins. Til viðmiðunar þá horfðu 1,8 milljónir manna vestan hafs á upphafsþátt 5. þáttaraðarinnar í vor en síðan bætist við áhorf í Evrópu og víðar þegar þættirnir verða teknir til sýninga þar.
Fiskisagan flýgur
Konungur vor í stærsta náttúrulega vatni landsins Þingvallavatni var venju fremur vant við látinn þegar River Monsters fólkið kom til Íslands í lok júlí enda þá að mestu út á djúpmiðum vatnsins að eltast við murtu. Við merkingarveiðar fengust þó vænir hrygningarfiskar sem gáfu sýn á burði þessara fiska þó svo ekki væri fært á þessum árstíma að kalla til allra stærstu dólgana. Þingvallaurriðinn er goðsögn í lifanda lífi og nú deila Íslendingar þeim sögum um fiskinn stóra, ástir hans, hegðun og örlög með öðrum í heimsbyggðinni.