There are no translations available.

Magnaður seiðabúskapur í Elliðaánum 2012 - Skýrsla um niðurstöður fiskirannsóknanna 2012 komin út

Rannsóknir Laxfiska á laxi og silungi í vatnakerfi Elliðaánna 2012 fyrir Stangaveiðifélag Reykjavíkur sýndi gott ástand fiskistofnanna og vöktun á hitafari ánna endurspeglaði gott tíðarfar.

 

Elliðaárnar kraumuðu af sumargömlum seiðum

Seiðabúskapur í vatnakerfi Elliðaánna var einstaklega góður haustið 2012 því af 1940 seiðum veiddust 1513 laxaseiði og 427 urriðaseiði. Fjöldi sumargamalla laxaseiða í ánum haustið 2012 var meiri en nokkru sinni hefur sést við seiðarannsóknir í Elliðaánum. Þéttleiki þeirra var sjöfaldur miðað við meðaltal 27 viðmiðunarára (1981-1982 og 1987-2011) og helmingi meiri en mest hefur orðið á þessum árum. Fjöldi ársgamalla seiða var einnig mjög góður því þéttleiki þeirra var helmingi meiri en meðaltalsfjöldi þeirra umrædd viðmiðunarár og með því mesta sem sést hefur á þeim tíma. Tveggja ára seiði reyndust rétt ríflega yfir meðaltali viðmiðunaráranna.

 

Margur er knár þó hann sé smár

Kynþroska hængar með rennandi svil voru 38 á meðal eins og tveggja ára laxaseiðanna sem rafveidd voru haustið 2012. Minnsti hængurinn var einungis 7,3 cm að lengd og 4,8 g að þyngd en stærsti seiðahængurinn 14, 8 cm (41,5 g). Þegar litið er til þeirra seiða sem veiddust í rafveiðunum sem náð höfðu 7 cm í lengd eða meira þá fæst að kynþroska hængseiðin voru 10% af fjölda þeirra. Hængar sem kynþroskast á seiðastigi berjast ekki um hrygnurnar líkt og þeir sjógengnu og skyldi engan undra. Ef tekið mið af minnsta kynþroska hængnum frá veiðinni 2012 þá er hann 600 sinnum léttari en pattaralegur 3 kg smálaxahængur og 1600 sinnum léttari en 8 kg stórlaxahængur. Þó einungis væri tekið mið af smálaxinum þá væri samlíking við 100 kg karlmann sú að hann þyrfti að etja kappi við 60 tonna risa um hylli kvenna. Af þessum sökum byggja kynþroska hængseiði sinn árangur í ástamálum á því að laumast og eru því gjarnan nefnd laumarar. Því minni sem kynþroska hængseiði eru því líklegra er að þau geti fundið fylgsni nálægt hrygnu án þess að sjógengnu hængarnir verði þeirra varir og sópi þeim í burtu. Síðan þarf bara að bíða eftir því að smá- eða stórlaxahængur komi hrygnunni til og nota þá tækifærið og sprauta sínum sviljum í púkkið. Sé hinsvegar enginn sjógenginn hængur til taks þá hafa rannsóknir sýnt að kynþroska hængar á seiðastigi geta komið hrygnunum til einir síns liðs. 

 

Metveiði í Elliðaánum 2015?

Sá gríðarlegi fjöldi sumargamalla laxaseiða sem var í vatnakerfi Elliðaánna haustið 2012 vekur vonir um mjög sterkan gönguseiðastofn 2014 þegar að megnið af þeim seiðum gengur væntanlega í sjó. Þetta getur orðið raunin ef skilyrði til uppvaxtar seiðanna verða þeim hliðholl fram að sjógöngunni og afrán á þeim í ánum ekki umfram venju. Ef svona færi þá yrði veiðisumarið 2015 líflegt í Elliðaánum og það í meira lagi ef lífsskilyrði laxins í sjó 2014-2015 verða góð. Magn eins og tveggja ára laxaseiða haustið 2012 gefur einnig fyrirheit um að stofn gönguseiðanna 2013 verði umfram meðallag.

 

Gönguseiðin 2012

Vöktun á göngu gönguseiða laxins til sjávar í maí og júní sýndi að útgangan var róleg framan af maí vegna kulda en náði síðan hámarki 23. maí þegar tæp 500 seiði gengu út á einum sólarhring sem samsvaraði ríflega 23% af þeim seiðum sem veidd voru 2012 á leið þeirra til sjávar. Alls voru veidd 2147 gönguseiði í seiðagildruna og þar af voru 2051 seiði merkt með örmerkjum. Megnið af gönguseiðunum gengu út 21.-25. maí eða 57% mældrar göngu en síðan kom minni toppur í útgönguna 28.-31. maí þegar 20% gönguseiðanna veiddust. Gönguseiðin voru flest tveggja ára (63%) en þriggja ára seiði voru 36% af göngunni og fjögurra ára seiði einungis 1%. Yfir vöktunartímabil útgöngunnar 15. maí - 6. júní var mælanlegur fallandi í stærð seiðanna þannig að stærst voru seiðin að jafnaði í upphafi göngunnar og þau minnstu í lok hennar. Gönguseiðastofninn 2011 er stóð að baki smálaxagöngunni 2012 reiknaðist um 15 þúsund seiði og var því undir meðaltali vöktunaráranna 1988-2011 sem er ríflega 19 þúsund gönguseiði. Þessi stofnstærð gönguseiðanna sem var 43% minni en gönguseiðastofninn sem stóð að baki göngunni 2011 endurspeglaðist í veiðinni 2012.

 

Göngur lax og urriða 2012

Göngur lax og silungs í Elliðaárnar voru vaktaðar yfir tímabilið 19. júní -17. september með kvikmyndafiskteljara í Austurkvísl ánna en enginn fiskur gat þó gengið upp fyrir teljaragirðinguna frá því að gönguseiðavöktunin hófst 15. maí. Alls gengu 1294 laxar í árnar 2012 en þar af veiddust 342 laxar neðan teljarans. Urriðar sem gengu upp teljarann 2012 voru 406, að mestu sjóbirtingar. Mikið var af uppvaxandi sjóbirtingi því helmingur af göngunni var undir 30 cm að lengd en urriðarnir sem komnir voru í veiðistærð voru sumir mjög vænir því um 5% þeirra voru 60-80 cm langir. Uppistaða hrygningargöngu laxins var að vanda smálaxar sem voru 1254 að tölu eða um 97% göngunnar. Stærsti laxinn sem fór um teljarann 2012 var 94 cm langur. Endurheimtuhlutfall örmerktra smálaxa var 8,3% sem er rétt undir 8,6% meðalheimtum smálaxa vöktunaráranna 1989-2012. Þessi lifitala laxins yfir sjávargönguna skýrir því minna af frávikinu frá meðalástandi laxgengdarinnar en gönguseiðastofninn. Lax gekk af miklum krafti snemmsumars sem sjá má af því að 50% af laxagöngunni hafði skilað sér 7. júlí. En til samanburðar var helmingur urriðanna sem að mestu voru sjóbirtingar genginn um teljarann 16. ágúst. Sjóbirtingurinn var enn að ganga 17. september þegar teljarinn var tekinn upp en síðustu laxarnir sem fóru um teljarann voru þar fyrstu vikuna í september.

 

Göngurnar með hliðsjón af tíma sólahrings

Laxinn gekk mest upp ána í húminu þegar sól var sest. Af göngunni 2012 gekk 57% laxins upp fiskteljarann á fyrstu 2 klukkustundunum eftir miðnætti, 77% af laxinum hafði gengið upp fyrstu 5 klukkutíma sólarhringsins og 10% gekk að kveldinu síðustu 2 klukkustundir sólarhringsins. Ferðatilhögunin í göngum urriðanna var sambærileg með hliðsjón af tíma sólarhrings.

Laxveiðin 2012

Stangveiðin í Elliðaánum 2012 á laxi var 830 laxar og því fyrir neðan meðallag. Af þeim löxum var 201 sleppt (24 %) og 629 landað, þannig að 49% laxanna sem gengu í ána var landað. Skráður hrygningarstofn var því 665 laxar að viðbættum þeim kynþroska hængseiðum sem árlega taka þátt í hrygningunni.  Meðallaxveiði í Elliðaánum 1974 - 2011 er 1141 lax en á þessum árum var lengst af sleppt seiðum í ána og sum árin voru allt upp í nokkur hundruð laxar í veiðinni runnir frá sleppingum seiða. Í því ljósi er veiðin upp á 830 laxa tiltölulega góð því nú eru engir laxar runnir frá sleppingum seiða. Síðast var laxaseiðum sleppt í Elliðaárnar 2007 og þær hafa því verið sjálfbærar hvað laxinn varðar frá 2008 og laxar úr náttúrulegu klaki standa algerlega að baki veiðinni frá og með 2010. Þegar litið er til laxveiðisumarsins 2012 sem er eitt það lélegasta á landsvísu í manna minnum þá er ljóst að veiðimenn í Elliðaánum geta verið sáttir. Ef tekið er mið af veiðinni sem hver stöng skilað 2012 í Elliðaánum (veiði/stangardag) þá kemur enn betur í ljós að laxveiðin í Elliðaánum var einhver sú besta á landinu 2012.

Skýrsluna má finna hér.

 

lax_kynthroska_haengseidi_atlantic_salmon_precocious_male-copyright_laxfiskar

Lax - Kynþroska hængseiði.

 

ellidaar_vatnakerfi_stodvar_v_rannsokna-laxfiskar

Stöðvar í vatnakerfi Elliðaánna þar sem seiðaveiðar eru framkvæmdar árlega til að meta fjölda seiðanna og ástand.

Reports

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080