• Skoða sem PDF skjal

Gervitunglafiskmerki og notkun þeirra

Gervitunglamerki sem notuð eru á fisk eru á ýmsan hátt sambærileg við gervitunglamerki sem notuð hafa verið á hvali og fleiri sjávarspendýr sem dvelja reglubundið í yfirborði sjávar. Gögnin frá gervitunglafiskmerkjunum skila sér hinsvegar á þann hátt að merkin losa sig frá fiskunum á fyrirfram ákveðnum tíma og fljóta upp í yfirborð þar sem þau geta fyrst náð sambandi við gervitungl.  Þetta er gerlegt þar sem fiskarnir draga merkin, þ.e.a.s. taumur tengir festingarlið merkis við festingu í baki fisksins og á tilteknum tíma losar festingarliðurinn sig frá taumnum.

Pop-up_2012_Iceland_Cod_Project-Copyright_Laxfiskar.is-18  

 

Myndin sýnir gervitunglamerki.

Það samanstendur af flothylki merkisins sem inniheldur rafeinda-búnaðinn og loftneti sem stendur upp úr því og nýtist við gagnasendingar í yfirborði eftir að merkið hefur losnað frá fiskinum. Niður af merkinu gengur festingarliðurinn sem rofnar á fyrirfram ákveðnum tíma eða við skilgreindar aðstæður.

 

 

Merkin mæla hegðun fiskanna og þætti í umhverfi þeirra

Flestar gerðir gervitunglamerkjanna eru einnig búnar virkni mælimerkja, þ.e.a.s. að mæla og skrá á fyrirfram ákveðnum tímafresti í minni sitt gögn yfir þá mæliþætti sem við sögu koma, sem eru fiskdýpið (þrýstingurinn), sjávarhiti og gjarnan einnig ljósmagn og/eða jarðsegulsvið. Erlent heiti merkjanna, (pop-up satellite archival tags = PSATs), dregur nafn sitt af helstu eiginleikum þeirra en hér verður talað um þau sem gervitunglamerki enda þótt nafngiftin gervitunglafiskmerki sé einnig kynnt til sögunnar og notað. Gervitunglafiskmerki er heiti sem vissulega nær betur yfir notkunareiginleika þeirra merkja sem grundvalla notkun sína á losunarbúnaði og flothæfni sem skilar þeim upp í yfirborð.  Notkun þess heitis er þó óþörf nema þegar í senn er verið að ræða merki þeirrar gerðar og hefðbundin gervitunglamerki sem ekki þurfa sjálf að hafa fyrir því að koma sér í yfirborð sjávar.

Pop-up_2012_Iceland_Cod_Project-Copyright_Laxfiskar.is-17

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þorskur með gervitunglamerki sem  flýtur yfir fiskinum.

 

 

Nákvæm staðarákvörðun þegar merkið losað af fiskinum

Gervitunglamerki gefa nákvæma staðsetningu á merkinu strax og þau koma upp í yfirborð eftir að hafa losnað frá fiskinum. Þá fæst staðarákvörðun með 250-500 metra nákvæmni en nákvæmnin getur þó verið minni ef gervitunglaskilyrðin eru ekki góð þá stundina.  Ef merkin losna af einhverjum orsökum af fiski áður en þau eiga að losa sig frá fiskinum til að hefja gagnasendingar í gervitungl þá er engu að síður hægt að tryggja að þau hefji útsendingar þegar slíkt hendir svo sem eftir tilgreindan fjölda klukkustunda í yfirborði með því að nýta varanaglastillingar sem í boði eru.  Með því móti fæst staðsetning fiskanna á þeim tímapunkti en orsakir þess að merkin geta losnað fyrir skilgreindan tíma eru ýmsar mögulegar, svo sem að þau rifni af þegar fiskur festir sig í veiðarfæri,  þau losni af þegar fiskur er étinn og að þau vaxi úr fiskinum með tímanum.

 

Bakreiknaðar staðarákvarðanir sýna megindrætti farleiða fiskanna

Í kjölfar þess að gervitunglamerki er komið upp í yfirborð sjávar eftir að hafa losnað af fiski þá flýtur það um og sendir reglulega frá sér sólarhringum saman mæligögnin sem safnast hafa frá ferðalagi fisksins á meðan rafhlöður merkisins endast. Um gervitungl berast þannig mæligögnin yfir fiskdýpi á farleiðinni og sjávarhita og aðra mælda þætti hverju sinni. Upplausn mælinga merkjanna er misjöfn gjarnan 0,5m-1m fyrir dýpi og 0,05-0,1°C fyrir hita. Ef birtumagn og/eða jarðsegulsvið er mælt þá eru þau gögn notuð til að bakreikna út staðarákvörðun fiskanna á gönguleiðinni fram að þeim tíma að merkið flýtur upp í yfirborð. Það er gert í tilheyrandi forritum sem vinna út frá grunnþáttum í sólargangi (sólarupprás – hádegi - sólsetur) og jafnsegulsviðslínum jarðar. Nákvæmni staðarákvörðunar sem byggð er á ljósmagnsgögnum (dægurgögn) er 1° í lengd og 1° í breidd á norðlægum svæðum, sem dugar til að fá fram gagnlegar staðarákvarðanir yfir heildarferðalag langferðalanga en nýtast ekki til að ráða í ferðir tiltölulega staðbundinna fiska utan það að staðfesta að þeir hafi ekki lagst í langferðir. Þau gervitunglamerki sem mæla þætti jarðsegulsviðs samhliða birtumagni gera kleift að auka töluvert nákvæmni slíkra bakreikninga á staðarákvörðun fiskanna yfir ferðalag þeirra.

 

Gagnaöflunin óháð endurveiði fiskanna

Gervitunglafiskmerkja hafa þann höfuðkost að skila upplýsingum um alla fiskana sem þau bera öfugt við önnur fiskmerki sem notuð eru í sjó sem einungis upplýsingum um hluta þeirra fiska sem merktir eru því annað tveggja þurfa þau merki að endurheimtast (svo sem hefbundin einkennismerki og mælimerki) eða komast í færi við síritandi skráningarstöðvar (hljóðsendimerki).  Vissulega geta þó komið upp aðstæður þar sem gervitunglamerki skila ekki gögnum af sér án þess að þau hafi bilað svo sem ef þau skemmast í kjafti afræningja eða millilenda í meltingarvegi þeirra einmitt yfir þann tíma þegar þau eru að senda frá sér gögn.  Vegna þess að gervitunglamerkin skila gögnum óháð endurveiði merktra fiska þá fást upplýsingar um ferðir fiska á svæðum sem þá stundina er ekki verið að veiða á, né verið að vakta með öðrum hætti svo sem með skráningarstöðvum fyrir hljóðsendimerki.  Það að gervitunglamerkin skila gögnum um ferðir fiska, annað atferli þeirra, afdrif þeirra og yfir þætti í umhverfi þeirra óháð veiðum eða skipulagðri gagnasöfnun á föstum stöðvum skapar því einstakan grundvöll til að afla nýrrar þekkingar. Vegna þessa gefa merkin færi á að komast út fyrir “kassann” sem öflun atferlisvistfræðilegra gagna um fiska var afmörkuð af fyrir tilkomu gervitunglamerkjanna.  Nokkuð sem vart er hægt að kalla annað en byltingu í þessum efnum. Þessi nýja leið til gagnaöflunar er mikilvægust til að fylla í eyður þekkingar á  útbreiðslu fiska sem gjarnan  helst í hendur við að þeir eru víðförulir en getur þó legið í öðrum þáttum sem valda því að ekki er vitað hvar fiskarnir eru á hverjum tíma.  Einnig gefa gervitunglamerkin einstakt tækifæri til að fá innsýn í afdrif fiska sem drepast af annarri ástæðu en þeirri að lenda í veiðarfærum. Þannig fást upplýsingar um slík afdrif fiska sem bera gervitunglamerki bæði frá sjálfdauðum fiskum (merki losnar og  fer upp í yfirborð) og hluta þeirra fiska sem étnir eru.  Í þessu sambandi má nefna fiskát hvala svo sem sannaðist í þorskrannsókn Laxfiska 2012 og fiskát hákarla sem merkingar með  gervitunglamerkjum í Kyrrahafinu leiddu í ljós.


Skýrslur

 

 

  Laxfiskar ehf  

  Hraðastöðum 1

  271 Mosfellsbæ

 

  Netfang: johannes@laxfiskar.is

  Sími: 664 7080