Gervitunglagögn yfir fiskigöngur grundvöllur þjónustu við útgerðar- og rannsóknaaðila

Greinin birtist í Fiskifréttum 27. mars 2013

Þróunarverkefni skapar nýtt fiskleitarúrræði

Gervitunglafiskmerki gera kleift að fylgjast með ferðum fiska og safna upplýsingum um atferli þeirra og umhverfi án þess að slíkt útheimti að fiskarnir séu endurveiddir. Rannsóknafyrirtækið Laxfiskar innleiddi 2011 notkun þessara merkja í fiskirannsóknum hér við land og í þeirri vinnu komum við auga á tækifæri sem felst í því að nýta þessa fjarkönnunartækni til að auka hagkvæmni fiskveiða samhliða því að afla nýrrar hagnýtrar þekkingar. Grundvöllur þess er að nýta sem viðmið við fiskveiðar návæm landfræðileg gögn frá ferðum merktra fiska sem aflað er um gervitungl. Slíkar upplýsingar auka sóknarfæri í fiskveiðum bæði innan og utan þekktra veiðisvæða og gera fært að draga úr olíukostnaði við veiðarnar. Úr varð að við settum upp þróunarverkefni til að fylgja þeirri hugmynd eftir sem nú er unnið að því að fjármagna með styrkumsóknum í rannsóknasjóði. Hugmyndin var kynnt fyrir útgerðarfyrirtækjunum Brim, HB Granda og Ögurvík sem ætla að taka þátt í verkefninu með því að leggja til prófanir á aðferðafræðinni. Auk þeirra taka þátt í verkefninu Árni Geir Pálsson viðskiptafræðingur og Guðmundur Geirdal sem gerir út bátinn Gísla KÓ 10 en hann hefur um nokkura ára skeið unnið með Laxfiskum að rannsóknum á sjávarfiskum.

Þróun á vöktunarþjónustu – Fiskislóðin

Þróunarverkefnið ber nafnið Fiskislóðin og er í reynd tvívirkt því þjónustan sem verið að þróa sinnir í senn útgerðar- og rannsóknaaðilum. Lagt er upp með það að þeir sem greiða fyrir þjónustuna fái “tvo fyrir einn” enda myndu bæði útgerðaraðilar og rannsóknaraðilar á borð við Hafrannsóknastofnun geta nýtt öll gögn sem aflað er.

Þannig nýtast öll ný gögn sem aflað verður fyrir tilstilli gervitunglamerkja um hegðun fiskanna og samspil þeirrar hegðunar við svæði og umhverfisaðstæður til þess að uppfæra grunnþekkingu á atferlisvistfræði fiskanna sem hefur gildi fyrir útgerðaraðila líkt og aðra hagsmunaaðila. Fiskveiðarnar myndu síðan með beinni hætti taka mið af rauntímagögnum yfir útbreiðslu fiskanna á hverjum tíma en einnig færa sér í nyt gagnagrunn sem samhliða byggist upp til að kalla fram spá yfir mögulegt útbreiðslusvæði fiska fyrir tiltekinn tímabil og tilsvarandi hegðun með hliðsjón af fiskdýpi. Vöktunarþjónustu Fiskislóðarinnar er ætlað að skapa verðmæti, allt frá aukinni hagkvæmni við veiðar með olíusparnaði til afleiddra þátta sem leiða til verðmætasköpunar tengt markaðsmálum, umhverfismálum og fiskirannsóknum.

Núverandi möguleikar og framtíðin

Hagræðingin af því að fá upplýsingar um fiskigöngur “í beinni” er mest við veiðar á mikilvægum nytjafiskum sem nýta víðfeðm hafsvæði svo sem þorski, ufsa og grálúðu. En einnig er eðlilegt að hefja vöktun nýrra tegunda sem samhliða breytingum í umhverfi sjávar ganga nú í vaxandi mæli inn í íslensku fiskveiðilögsöguna. Auk þess er vöktun á útbreiðslu, atferli og umhverfi fiska með gervitunglamerkjum vænlegur kostur ef Íslendingar vilja sækja ný og hagnýt gögn um fiska sem dvelja á alþjóðlegum hafsvæðum sem okkur varða.

Framþróun gervitunglafiskmerkja mun á allra næstu árum gera kleift að merkja minni fiska. Fróðlegt verður að sjá hvenær hægt verður með þessum hætti að fylgjast með makríl og síld sem mun gjörbreyta möguleikum á nýtingu þessara mikilvægu nytjafiska.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fiskislóðina og möguleikana sem felast í þjónustu af þessu tagi má finna í greininni "Fiskislóðin - Vöktun á ferðum fiska með gervitunglamerkjum".

Verkefnið Fiskislóðin spratt upp af rannsóknum á þorski 2012. Þeim rannsóknum hafa verið gerð skil hér á vefsvæði Laxfiska en einnig voru helstu niðurstöður birtar í grein í Fiskifréttum 27. mars 2013.


Skýrslur

 

 

  Laxfiskar ehf  

  Hraðastöðum 1

  271 Mosfellsbæ

 

  Netfang: johannes@laxfiskar.is

  Sími: 664 7080