There are no translations available.

Víðfeðm kynning á Þingvallaurriðanum

thingvallaurridi -laxfiskar- visindavaka 2011-copyright-arnaldur halldorsson

Þetta haustið hafa niðurstöður rannsókna Laxfiska á Þingvallaurriðanum verið kynntar víða með veglegum hætti. 

 

Sú kynning endurspeglar sívaxandi áhuga fólks á þessum konungi íslenskra ferskvatnsfiska og lífsháttum hans. Í lok þessarar fréttar er að finna fróðlegar myndir og myndskeið frá urriðagöngunni á Þingvöllum síðastliðinn laugardag.  

 

Umrædd fræðsla hófst þegar þrír stórurriðar úr Öxará fóru í Háskólabíó í áliðnum september þar sem þeir lögðu sín lóð á vogarskálar Vísindavöku Rannís og vottuðu um leið Háskóla Íslands virðingu sína á 100 ára afmæli skólans. Þar dvöldu urriðarnir í fiskabúri gestum sýningarinnar til ánægju en nóttina eftir tóku þeir að nýju til við hrygningu í Öxaránni. Hér fylgir mynd frá bíóferð urriðafélaganna.            

                                   


urridi-brown trout-ruv-laxfiskar.is

Skömmu síðar var Kastljósi RÚV beint að urriðunum þegar Brynja Þorgeirsdóttir og samstarfsfólk hennar heimsóttu urriðana í Öxará heim og fjölluðu um rannsóknir Laxfiska á þeim.

Þeirri heimsókn var gerð ítarleg skil í þættinum Kastljósi sem sjónvarpað var 11. október 2011.   

               Myndskeið úr Kastljósi RÚV 


Síðasta almenna kynningin þetta haustið á Þingvallaurriðanum fór fram í Þjóðgarðinum á Þingvöllum þegar árleg fræðsluganga um urriðann var haldin í samstarfi Laxfiska og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Veðurhorfur voru ekki vænlegar þennan daginn en úr því rættist heldur betur þannig að gestir göngunnar fengu að fullu notið útiverunnar í fallegu umhverfi Þjóðgarðsins. Þátttakan í fræðslugöngunni var mjög góð því vel á annað hundrað manns mættu á bakka Öxarár. Gangan hófst við fiskteljarann sem staðsettur er undir brúnni við bílastæðið þar sem Valhöll stóð.

urridadans-2011-laxfiskar.is  Gestir fræðslugöngunnar við brúna á Öxará þar sem Vaka-fiskteljarinn er.

Þar hófst kynningin en næsta stopp var undan flúðunum neðan við Drekkingarhyl þar sem margir urriðar voru sýndir samhliða því að fjallað var áfram um lífshætti þessara stórvöxnu íbúa Þingvallavatns. Meðal annars voru urriðar settir í stórt fiskabúr sem komið hafði verið fyrir uppi á árbakkanum þannig að fólk fékk gott tækifæri til að virða fyrir sér risaurriða af báðum kynjum.

Á meðal urriðanna sem sem fólki gafst kostur á að skoða var einhver athyglissjúkasti urriði sem nú er uppi, sem í mánuðinum áður skellti sér á Vísindavöku í Háskólabíó. Sú staðhæfing byggir á þeirri staðreynd að þegar veiddir voru urriðar fyrir urriðagönguna tranaði hann sér fram öðru sinni. Ekki nóg með það því sami fiskur var veiddur og merktur við hrygningu 2008 í Öxaránni, aftur við stangveiðar vorið 2009 í Þingvallavatni í merkingaskyni og enn aftur við hrygningu 2010 og loks nú fjórða árið í röð.

Urriðagöngunni lauk í fræðslumiðstöð Þjóðgarðsins við Hakið þar sem sýndar voru neðanvatnskvikmyndir og enn frekar fjallað um Þingvallaurriðann í máli og myndum. Í framhaldi göngunnar var fjallað um hana 17. október í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu.

Í því skyni að gefa frekari innsýn í urriðagönguna 2011 fylgja hér nokkrar ljósmyndir og myndskeið.

Á vefsíðu Veiðikortsins er að finna fjölmargar góðar ljósmyndir frá göngunni.

Á vefsíðu Sogsmanna er að finna skemmtilegt myndskeið sem sýnir stórurriðana stíga urriðadans í fiskabúri sem Laxfiskar komu fyrir á bökkum Öxarár. Auk þess má finna ljósmyndir frá göngunni á vefsvæði Sogsmanna á sogsmenn.123.is

Reports

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080