There are no translations available.

  

             Eldislaxar gripnir glóðvolgir

                       á hrygningarslóð

                             Jóhannes Sturlaugsson

                      

Í fallegri á, í fallegum dal við fallegan fjörð er lítill íslenskur laxastofn - og gestkomandi norskættaðir eldislaxar sem enginn bauð. Á hrygningarsvæði skammt ofan sjávaróss þar sem Fífistaðadalsá rennur í Arnarfjörð, þá veiddust í liðnum október tveir laxar í rannsóknum Laxfiska, sem samkvæmt greiningareinkennum virtust runnir frá sjókvíaeldi á laxi. Það mat á uppruna laxanna hefur nú verið staðfest með greiningu lífsýna af hálfu Matís.

Eldislaxarnir sem veiddust voru kynþroska hrygnur sem komnar voru að hrygningu. Þær voru 9% af þeim laxi sem var mættur þetta árið til hrygningar í Fífustaðadalsá. Þessi háa hlutdeild eldislaxanna af hrygningarlaxi í ánni er raunverulegt dæmi um í hve mikilli hættu litlir laxastofnar í nálægð við sjókvíaeldissvæði eru fyrir erfðablöndun af hálfu eldislaxa.

Íslenskum laxastofnum stafar öðru fremur hætta af eldi laxa í opnum sjókvíum hér við land vegna erfðablöndunar þeirra norskættuðu eldislaxa sem þar eru aldir og sleppa í miklum mæli vegna vankanta eldisaðferðarinnar. Miðað við þau um 15000 tonn af laxi sem ætla má að séu í sjókvíaeldi í dag, þá lítur þetta ekki vel út fyrir Fífustaðadalsárlaxinn né aðra íslenska laxastofna. Því búið er að ráðgera árlegt eldi á 71 þúsund tonnum af eldislaxi og þar af veita leyfi fyrir eldi á 30 þúsund tonnum. Hófsöm norsk viðmið sem við styðjumst við varðandi þann fjölda laxa sem sleppur úr kvíum að jafnaði fyrir hvert tonn laxa sem alið er í sjókvíum (0,4-0,8 laxar/tonn), sýna að þegar 71 þúsund tonna eldiskvóti verður fullnýttur þá munu 28-56 þúsund frjóir eldislaxar af norskum uppruna vera frítt syndandi árlega hér við land. Í því sambandi er mikilvægt að muna að árlegur heildarfjöldi íslenskra laxa sem tekur þátt í hrygningunni er 40 - 50 þúsund laxar. Enda þótt aðeins hluti eldislaxanna skili sér í árnar og taki þátt í hrygningunni þar, þá lítur þetta illa út. Reyndar er mögulegt að sviðsmyndin sé enn verri enda mögulegt að fleiri laxar sleppi úr kvíum hér við land en við Noreg. Í því sambandi benda á að gögn sýna að allt að ríflega tvöfalt fleiri laxar sleppa úr kvíum við Skotland en við Noreg.

Fundur eldislaxanna í haust kom til vegna vöktunarrannsókna fyrirtækis míns Laxfiska, í samstarfi við áreigendur í ám í Ketildölum við Arnarfjörð. Árið 2015 hófust þær rannsóknir á laxa- og silungsstofnum í þremur ám, sem ætlað var að sýna hvaða áhrif vaxandi umfang sjókvíaeldis á laxi hefur á þá stofna. Þessar ár við Arnarfjörð eru Selárdalsá, Fífustaðadalsá og Bakkadalsá. Á vefsíðu Laxfiska má finna skýrslur er greina frá niðurstöðum rannsóknanna 2015 og 2016. Síðar í vetur verður birt skýrsla er greinir frá rannsóknarniðurstöðum frá 2017 og 2018. En auk annars koma þar við sögu gögn yfir eldislaxa og arfgerðargögn yfir laxastofnana í Fífustaðadalsá og Selárdalsá sem verið er að vinna núna.

Í haust var farið um árnar á hrygningartíð fjórða árið í röð. Með í þá för slóst fréttamaðurinn Kjartan Þorbjörnsson (Golli) frá Iceland Review, sem vildi kynna fyrir lesendum blaðsins rannsóknina og þá stöðu sem íslenskir laxastofnar væru í vegna eldis á laxi í opnum sjókvíum. Það gerði hann með grein sem nú var að birtast í tímaritinu Iceland Review og með frétt á vef Iceland Review.

                         Norskættaðar eldislaxahrygnur frá sjókvíaeldi sem veiddust í Fífustaðadalsá í október 2018

Norskættaðar eldislaxahrygnur frá sjókvíaeldi sem veiddust í Fífustaðadalsá í október 2018.

Reports

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080