Upphaf fiskirannsókna í Jökulsárlóni

Fiskarnir í Jökulsárlóni, gönguhegðun þeirra og umhverfi

Náttúrufegurðin sem einkennir Jökulsárlón og umhverfi þess er einstök og því ekki að undra að svæðið er ein þekktasta náttúruperla Íslands. Lífríki vatnakerfis Jökulsárlóns býr einnig yfir einstökum töfrum ekki síst vegna fjölbreytni og afls þeirra umhverfisþátta sem þar mætast.

Um langan aldur hafði mig langað til að kanna fiskinn í þessu einstaka vatnakerfi sem daglega er meitlað af samspili íss, ferskvatns og sjávar. Á endanum gafst mér síðan kærkomið tækifæri til að gera veruleika úr þeim vangaveltum þegar rannsóknafyrirtæki mitt Laxfiskar fékk styrk frá styrktarsjóði Vina Vatnajökuls til að mæta hluta af kostnaði við að stunda fiskirannsóknir þar. Niðurstöður frá þessari fyrstu fiskirannsókn í Jökulsárlóni árin 2014 og 2015 setti ég fram í ríkulega myndskreyttri skýrslu á liðnu vori og hér er hlekkur á þá ítarlegu samantekt.

Fiskar, hvalir og mælingar á hita ferskvatns og sjávar
Í rannsókninni voru fiskar vatnakerfisins í aðalhlutverki. En rannsóknarvinnan skilaði líka fyrir austanvert vatnakerfið nýjum upplýsingum um hita ferskvatns árið um kring og reyndar sjávar að hluta þegar hans gætti í austurbotni Jökulsárlóns. Rannsóknin sýndi einnig fram á tilvist hnísa í Jökulsárlóni, sem jafnframt var fyrsta staðfesta tilvik um dvöl smáhvala þar.

Gönguatferli silunganna, æti þeirra, stærð vöxtur og aldur
Rannsóknin sýndi að ætisgöngur sjóbirtinga og sjóbleikja fóru fyrst og fram í Jökulsárlóni að sumri og fram á haust þó svo dæmi fengist um göngur í lónið að vori. Í skýrslunni er farið í saumana á gönguhegðun sjóbirtings og að nokkru fyrir sjóbleikju en rafeindafiskmerki og skráningastöðvar voru í lykilhlutverki að afla þeirra ítarlegu upplýsinga. Þar er um að ræða landfræðilega kortlagningu á því hvernig fiskarnir nýta sér tiltekin vöktuð svæði sem sett er fram í mismunandi tímaupplausn (1 klst – 1 vika). Einn sjóbirtingur bar hljóðsendimerki sem gaf upplýsingar um dýpið sem fiskurinn fór um en hann fór snemmhendis niður fyrir 100 m dýptarþolmörk merkisins og sprengdi nema þess. Eftir stendur staðfesting þess að birtingur eigi það til að fara svo djúpt í þessu dýpsta stöðuvatni Íslands, sem dýpkar með hverju árinu sem líður. Mesta botndýpi Jökulsárlóns er nú komið fast að 300 metrum og fiskinum því lítil dýptartakmörk sett þar. Í skýrslunni eru auk þessa birtar upplýsingar um æti silunganna og vöxt. Auk þess sem aldur þeirra er skoðaður með hliðsjón af stærð þeirra, allt frá seiðum til 57 cm langra fiska.

Fisktegundirnar
Sjógöngusilungar þessir af tegundum urriða og bleikju dvöldu í lóninu ásamt flundru sem þar var ráðandi í fjölda. En einnig var í rannsóknaveiðunum staðfest tilvist loðnu, sandsíla og hornsíla í sjávarlóninu.

Uppruni göngusilunganna
Hvaðan skyldi þá koma sá göngusilungurinn sem nýtir sér þetta magnaða sjávarlón til ætisöflunar?  Rannsóknir ofanvert í vatnakerfinu, í stöðuvötnum og ám sem renna í austurbotn Jökulsárlóns, sýna að hluti sjóbirtingsins og sjóbleikjanna var runninn þaðan, en það var ekki einhlítt. Þannig hafa tveir sjóbirtingar endurheimst í veiði utan vatnakerfisins sem sýnir að sjóbirtingar ættaðir úr öðrum vatnakerfum sjá ástæðu til að nýta sér ætisframboð Jökulsárlóns á ætisgöngum sínum í sjó. Annar umræddra sjóbirtinga endurheimtist í liðnum september þar sem hann var mættur til hrygningar í Fjarðará sem rennur í Papafjörð (Papós) en stysta sjóleið þangað er 70 km frá ósi hinnar örstuttu Jökulsár á Breiðmerkursandi, útfalls Jökulsárlóns.

Langferðalangur á mælikvarða sjóbirtinga
Hér læt ég fylgja með graf sem gefur innsýn í það hvernig umræddur fiskur var að nýta Jökulsárlón það ár (júní 2014 – júní 2015) sem vöktun stóð yfir á ferðum fiskanna í Jökulsárlóni. Því til viðbótar set ég með loftmyndakort sem sýnir hvar fiskurinn endurveiddist nú ríflega þremur árum eftir að hann var merktur í júní 2014.
gonguhegdun_sjobirtings_nr5_jokulsarloni-johannes_sturlaugsson_laxfiskar

Gönguhegðun sjóbirtings á ætisgöngu með hliðsjón af viðveru hans í austurbotni Jökulsárlóns. Annarsvegar árið 2014 (vöktun á tveimur stöðvum fyrir hljóðsendimerki) og hinsvegar í upphafi ætisgöngu hans 2015 (en það ár var ytri stöð eingöngu virk í rekstri og síðan tekin upp í síðustu viku júní). Dvöl á viðkomandi stöðvum er fyrir hverja viku gefin upp sem hlutfall af heildartíma þeirrar viku á klukkustundargrunni. Upplýsingar eru tilgreindar um fiskinn, merkingu hans og fjölda skráninga á viðveru hans til samans á stöðvunum.


ferdir sjobirtings - jokulsarlon 2014 fjardara 2017 - johannes s -laxfiskar

 
fjardara i okt 2017- mynd johannes sturlaugsson laxfiskumMyndin sýnir heimaá sjóbirtings nr. 5 sem veiddist þar síðla í september 2017 ofan við þjóðveg en þaðan er myndin tekin niður eftir ánni og í fjarlægð sést Papós sem hún rennur í.

Nauðsyn vöktunar á umhverfi og lífríki Jökulsárlóns
Víst er að örar breytingar á umhverfi og lífríki Jökulsárlóns verða í náinni framtíð áfram eitt af sérkennum þessa vistkerfis. Mikilvægt er að vakta þær stórstígu breytingar á umhverfisþáttum og lífríki sem við upplifum nú á þessu svæði, því um einstakt tækifæri er þar að ræða til að afla upplýsinga um þá ferla sem í hlut eiga.

Hér fylgir ágrip af efni skýrslunnar:
(Jóhannes Sturlaugss. 2017.Fiskirannsóknir í vatnakerfi Jökulsárlóns 2014-15. Laxfiskar.40 bls)

Rannsóknafyrirtækið Laxfiskar hóf rannsókn á fiskum og umhverfi þeirra í vatnakerfi Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi í byrjun sumars 2014 sem stóð fram á sumar 2015. Rannsóknin var fjármögnuð af Laxfiskum og með styrk frá Vinum Vatnajökuls. Rannsóknin er í megindráttum tvískipt hvað gagnasöfnun varðar. Annarsvegar var gögnum safnað 2014 með netaveiði í Jökulsárlóni og með rafveiði á seiðum í ám sem til þess renna. Hinsvegar var gögnum safnað með vöktun 2014-2015 fyrir tilstilli sírita sem gerðu kleift að skrásetja viðdvöl sjóbirtings og sjóbleikju á vöktuðum svæðum í Jökulsárlóni og samhliða voru hitasíritar nýttir til að framkvæma mælingar á hita þeirra svæða og í straumvötnum sem þar renna til Jökulsárlóns. Markmið rannsóknanna er að afla grunnupplýsinga um gönguhegðun sjóbirtinga og sjóbleikju er nýta sér Jökulsárlón og hitafarið á þeirri ætisslóð fiskanna, auk þess að afla grunnupplýsinga um þær fisktegundir sem finnast í vatnakerfi Jökulsárlóns. Upplýsingar frá þessari fyrstu rannsókn á fiski í vatnakerfi Jökulsárlóns gefa innsýn í áhugavert lífríki þessarar náttúruperlu Vatnajökulsþjóðgarðs. Ríflega 400 fiskar voru veiddir í vatnakerfi Jökulsárlóns. Af þeim voru ríflega 100 þeirra merktir (rafeindafiskmerki; slöngumerki; örmerki) til að afla frekari gagna um þá frá endurveiði og frá vöktun fiska sem báru rafeindafiskmerki (hljóðsendimerki og mælimerki). Alls veiddust ríflega 300 fiskar í net í Jökulsárlóni. Megnið af þeim fiski voru flundrur sem veiddust bæði vestan- og austanvert í Jökulsárlóni en í austurhlutanum veiddust einnig göngusilungar í tugavís og loðna auk sandsíla sem fengust sem ”meðafli”, nýétin úr maga sjóbirtings og hornsíli sáust. Í austurbotni Jökulsárlónsins var síðan hluta göngusilungsins sem veiddur var, fylgt eftir með því að vakta með tveimur skráningarstöðvum viðdvöl þeirra hljóðsendimerktu sjóbirtinga og sjóbleikju. Sjóbirtingarnir sem veiddust í Jökulsárlóni voru 21-57 cm langir og fjögurra (4+) til átta ára gamlir (8+). Flestir þeirra voru geldfiskar en tveir þeirra allra stærstu höfðu hrygnt árinu áður. Tveir birtinganna voru í sinni fyrstu sjóferð (21-23 cm langir) en aðrir höfðu gengið áður í sjó allt frá einu skipti og upp í 5 skipti. Reynslumesti sægarpurinn sem jafnframt var þeirra stærstur var því í sinni sjöttu sjóferð þegar hann var merktur. Út frá lestri hreisturssýna sem tekin voru mátti líka sjá hver aldur birtinganna í Jökulsárlóni var við fyrstu sjógöngu þeirra, en þá voru flestir þeirra þriggja ára (3+), en þriðjungur þeirra voru fjögurra ára (4+) þegar þeir gengu í fyrsta sinn í sjó. Sjóbleikjur sem veiddust í Jökulsárlóni voru 15-42 cm að lengd og fjögurra (4+) til sex ára (6+) gamlar en aldur þeirra smæstu var ekki skoðaður þannig að mögulegt er að þriggja ára bleikjur hafi verið á meðal sjóbleikjanna. Flundrur sem veiddust í net í Jökulsárlóni voru frá því að vera 9 cm og upp í 35 cm að lengd og tveggja (2+) til fjögurra (4+) ára gamlar. Loðnur sem háfaðar voru í austurbotni Jökulsárlóns voru 15-16 cm langar. Æti fiskanna í Jökulsárlóni var skoðað hjá úrtaki fiska og ef miðað er við rúmtak ætisins þá var loðnan mikilvægasta æti sjóbirtinga, marflærnar voru hinsvegar mikivægasta æti sjóbleikja og reyndar flundra líka. Af öðru æti sem kom fyrir á matseðli þessara fiska voru sandsíli og vorflugulirfur. Rannsóknin staðfesti að ofar í vatnakerfinu Jökulsárlóns var auk hornsíla að finna urriða og bleikju allt frá 4,5 cm löngum og eins árs gömlum (1+) seiðum til fullvaxta fiska, bæði í ánum sem renna í austurbotn lónsins sem og í tærum stöðuvötnum svæðisins, svonefndum Stemmuvötnum sem hvíla í dýpstu kvosunum þar sem jökullónið Stemmulón réð ríkjum fyrir rúmum aldarfjórðungi. Flundruna var einnig að finna í báðum ánum upp frá Jökulsárlóni, bæði í jökulánni Veðurá og í Stemmuvatnaánni allt frá tæplega 8 cm löngum seiðum og upp 24 cm langa fiska. Á meðal þeirra silunga sem áttu lögheimili sitt í Stemmuvötnum og Stemmuvatnaánni voru fiskar sem staðfest var að nýta sér Jökulsárlón á meðan ætisgöngu sumarsins stendur, bæði sjóbirtingur og sjóbleikja. Endurveiði merktra fiska sýndi einnig að hluti sjóbirtings sem nýtir ætisslóð Jökulsárlóns er ættaður úr ám utan vatnakerfis Jökulsárlóns. Um það vitnaði sjóbirtingur úr Smyrlabjargaá er veiddist þar vorið 2016, en hann var á ætisgöngu í austurbotni Jökulsárlóns í júní 2014 er hann veiddist þar og var merktur með hljóðsendimerki sem sýndi að hann var viðloðandi svæðið fram í september. Skráningar hljóðsendimerkjanna sýndu að sjóbirtingarnir nýttu allir vaktaðan austurhluta Jökulsárlóns í júní, júlí og ágúst og tveir þeirra voru þar enn á sveimi í september. Algengast var að birtingarnir kæmu inn á þennan austasta hluta lónsins í hverri viku þó svo að dvalartíminn væri stundum skammur. Einn merktu sjóbirtinganna hélt sig hinsvegar utan þessa innsta svæðis austurhluta Jökulsárlóns í ríflega 3 vikur samfellt af sumarlangri ætsgöngu hans. Á heildina litið þá sýna gögnin að austasti hluti Jökulsárlóns er mikilvægur hluti ætisslóðarinnar hjá birtingum er nýta Jökulsárlón á ætisgöngum sínum. Sjóbirtingarnir sem báru hljóðsendimerkin luku göngum sínum um austasta hluta Jökulsárlóns síðla í ágúst eða september sem um leið vitnaði um lok sjógöngu þess árs hjá sjóbirtingunum. Einn sjóbirtingur bar hljóðsendimerki sem gaf upplýsingar um dýpið sem fiskurinn fór um en snemmhendis fór fiskurinn niður fyrir 100 m dýptarþolmörk merkisins og sprengdi nema þess, en eftir stendur staðfesting þess að birtingur eigi það til að fara svo djúpt þarna, en botndýpið er þó ríflega tvöfalt meira á þessu svæði og fiskinum því lítil takmörk sett þar. Sjóbleikjan sem merkt var með hljóðsendimerki í júní 2014 virðist hafa verið að ljúka við ætisgöngu sína það árið í Jökulsárlóni ef marka má skammvinna dvöl hennar við skráningarstöðvarnar í júní 2014. Næst dúkkar bleikjan upp við ytri skráningarstöina í austurhluta Jökulsárlóns í mars 2015 þar sem hún dvelur í fáeina daga. Að endingu veiddist bleikjan í áliðnum júní 2015 vestanvert í Stemmulóni, syðsta vatninu í hópi Stemmuvatnanna er sýnir að sjávardvölinni lauk eigi síðar en í júní. Greining á gönguhegðun sjóbirtings á ferð um austurbotn Jökulsárlóns sýndi að hann nýtti vöktuðu svæðin framan af sumri nánast eingöngu að nóttu og að minna leyti að morgninum en óverulega frá hádegi fram að miðnætti fyrr en kemur fram í september. Reyndar sýna gögnin að á næturgöltri sínu inn á vöktuðu svæðin þá voru ferðir birtingsins almennt í tengslum við sjávarföllin ef tekið var mið af flóðhæðartöflugögnum sem yfirfærð voru á athugunarsvæðið. Það viðmið sýndi að sjóbirtingurinn dvaldi mest innst í austurbotni Jökulsárlóns um háflæðið og hélt síðan þaðan að jafnaði á útfallinu.

Hnísur tvær til þrjár í senn sáust ítrekað og voru myndaðar við rannsóknina í austurbotni Jökulsárlón sumarið 2014. Þar var um að ræða fyrsta staðfesta tilvik um dvöl hvala í sjávarlóni hérlendis.

Skýrslur

 

 

  Laxfiskar ehf  

  Hraðastöðum 1

  271 Mosfellsbæ

 

  Netfang: johannes@laxfiskar.is

  Sími: 664 7080