There are no translations available.

Þingvallaurriði - fréttir af hrygningarslóð 2014

Árið 2014 er nú að líða í aldanna skaut og því er við hæfi að tína til fáeinar fréttir er varða Þingvallaurriðann frá liðnu hausti og upphafi þessa vetrar.

Metþátttaka í Urriðagöngunni 2014
Það voru um 400 manns sem tóku þátt í Urriðagöngunni á Þingvöllum í október síðast liðnum. Jóhannes Sturlaugsson var með gönguna í fyrsta sinn haustið 2003 og síðan árlega, þannig að nú var gangan haldin 12. árið í röð í samstarfi Laxfiska og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Þó talað sé um Urriðagönguna í eintölu þá hafa sum árin verið farnar tvær göngur og eitt árið var einnig viðbótar fræðsluganga tileinkuð urriðanum að sumrinu á bökkum Þingvallavatns. Metfjöldi þátttakenda í Urriðagöngunni á Þingvöllum í haust kom Jóhannesi Sturlaugssyni hjá Laxfiskum skemmtilega á óvart en sló hrygningarurriðana í Öxará hinsvegar ekki út af laginu. Þátttaka í göngunni síðustu ár hefur verið ótrúlega góð eða 150-260 manns en metþátttakan í síðast liðnum október sýnir í senn áhuga fólks á Þingvallaurriðanum og Urriðagöngunni.

urridi_fraedsluganga_2014-johannes_sturlaugsson_laxfiskar_v-brown_trout_walk_oxara_thingvallavatn-mynd-sigurlaug_rosa_dal 

Metþátttaka var í Urriðagöngunni 18. október 2014 er um 400 manns mættu.            

Mynd: Sigurlaug Rósa Dal.

 

urridagangan_2014_johannes_sturlaugsson_solrun_jhannesdttir_urridi_i_hafi_vid_oxara-mynd_gunnar_bender

Það gekk á með busli og sporðaköstum þegar urriðarnir voru sýndir.                          

Mynd: Gunnar Bender.

 

Urriðar á degi íslenskrar náttúru
Dagur íslenskrar náttúru sem er þann 16. september var heiðraður á ýmsan máta meðal annars á bökkum Öxarár með því að hafa þar tvær kynningar þann daginn þar sem Jóhannes Sturlaugsson fræddi gesti um Þingvallaurriðann.

Urriðar slá eigin met - metþátttaka í hrygningargöngu urriða í Öxará 2014
Ef við hverfum frá göngutúrum tvífætlinga við Öxará og hugum að sporðatökum í ánni þetta haust þá má sjá margt forvitnilegt. Rannsóknir Laxfiska sýndu að ríflega 1000 urriðar vitjuðu hrygningarstöðva sinna í Öxará nú í haust og vetrarbyrjun. Fjöldi urriða sem ganga til hrygningar í Öxará hefur margfaldast á þeim 15 árum sem Jóhannes Sturlaugsson hefur fylgst með þeim málum og hefur aldrei verið meiri frá því að þær talningar hófust. Þetta er sannarlega ánægjuleg þróun því í upphafi þessa tímabils var gjarnan talað um urriðann í þátíð, en nú er urriðinn um allt Þingvallavatn og Öxaráin bólgin af hrygningarurriðum á haustin.

Þrautseigja og þolgæði hrygningarurriða
Hrygningin hjá Þingvallaurriðanum reynir sannarlega á þolrifin hjá þeim fiskum þegar þeir vikum saman leggja allt í sölurnar til að skila af sér næsta árgangi Þingvallaurriða. Þessi þrautseigja hænga sem berjast linnulítið og hrygnanna sem við hlið þeirra grafa sleitulítið holur fyrir hrognin af miklum móð er ein og sér aðdáunarverð. Með hverju árinu sem líður kemur hinsvegar betur í ljós hve þolgæði urriðanna er í reynd mikið hvað hrygninguna varðar því í ljós hefur komið að algengt er að þeir hrygni árum saman. Hefðbundin utanáliggjandi númeruð fiskmerki gerðu upp að vissu marki kleift að fylgjast með einstaklingum Þingvallurriða á milli ára meðal annars með endurveiði þeirra á riðunum í Öxará. Gallin við þau merki var hinsvegar sá að þau losnuðu úr fiskinum með tímanum og því var árið 2008 farið yfir í það að nota rafkenni við merkingar á Þingvallaurriðanum ekki síst til að geta vaktað með meiri nákvæmni hrygningarþátttöku urriðanna. Rafkennin fylgja fiskunum ævina á enda sem er gríðalegur kostur þegar verið er að vakta langlífan fisk á borð við Þingvallaurriðann. Einstaklingsaðgreiningin sem rafkennin tryggja gefur þannig færi á að fylgjast með merktum urriðum ævi þeirra á enda, svo sem við rannsóknaveiðar og þegar sjálfvirkir síritar við fiskteljarann í Öxará skynja ferðir þeirra á hrygingarstöðvar árinnar.

Vöktun Laxfiska á hrygningunni í Öxará 2014 sýndi vel þolgæði og langlífi stórurriðanna. Þannig var staðfest að 5 % af þeim um 180 urriðum sem merktir voru hrygnandi í Öxará árið 2008 voru að hrygna í Öxará yfir riðtímann nú 2014 eða 6 árum eftir merkinguna á þessari 7. riðtíð frá og með haustinu 2008.

Ein stærsta hrygna vatnaurriða hérlendis á riðunum í Öxará
Haustið 2014 komu margir lífsreyndir urriðar á riðin í Öxará. Á meðal þeirra var urriðahrygna sem var 94,5 cm löng og því önnur lengsta staðbundna urriðahrygna sem veidd hefur verið hérlendis svo staðfest sé. Gögn eru til yfir þrjár þyngri hrygnur Þingvallaurriða sem hafa veiðst, en tvær þeirra voru styttri en sú langvaxna sem mætti á riðin í Öxará 2014. Þessi stórvaxni skörungur urriðakvenþjóðarinnar hefur í þrígang verið veiddur af Jóhannesi Sturlaugssyni við rannsóknaveiðar í Öxará um hrygningartímann. Fyrst við merkingarveiði árið 2009 þegar hún mætti í fyrsta sinn til hrygningar í Öxará aðeins 7 ára gömul, síðan aftur þar haustið 2012 og í þriðja sinn á riðum Öxarár nú í haust, þá 12 ára. Við merkingu árið 2009 þá fékk þessi mikla hrygna rafkenni og reyndar einnig mælimerki. Þá var hin hraðvaxta unga urriðahrygna 91,1 cm löng og heil 10 kg (9980 g) en hefur reyndar verið nokkru þyngri við komuna í ána það haustið því hún var byrjuð að hrygna og því einhverjum hrognum fátækari en við komuna. Strax árið 2009 var hrygnan góða því komin í sögulega líkamsstærð með hliðsjón af kynsystrum sínum á meðal vatnaurriða. Með hliðsjón af því var magnað að sjá að 5 árum síðar er fiskurinn ekki einungis enn á lífi heldur í hrygnandi fullu fjöri í Öxará og orðinn einn allra stærsti staðbundni urriði Íslands hvað hrygnur áhrærir sem sögur fara af. Gögn mælimerkisins sem urriðafrúin mikla bar fyrstu 3 árin sýndi að hún tók sér eins árs hlé frá hrygningu í kjölfar hrygningarinnar 2009 en mætti síðan aftur á riðin 2011 og árlega eftir það.

vatnaurridi-staersta_hrygna_islands_95cm_hja_johannes_sturlaugsson_v-brown_trout_oxara_thingvallavatn-copyright-laxfiskar.is

Ein stærsta hrygna staðbundinna urriða á Íslandi í lúkum Jóhannesar í Öxará í nóv. 2014. Þessi 95 cm langa hrygna var merkt í ánni 5 árum fyrr (sjá mynd hér að neðan).


vatnaurridi-hrygna_91cm_10kg_i_hondum_johannes_sturlaugsson_2009-v-brown_trout_oxara_thingvallavatn-copyright-laxfiskar.is

Stærsta urriðahrygnan í Öxará 2009 (91 cm og 10 kg) við rannsóknaveiðar Laxfiska í höndum Jóhannesar, sú sama og mætti enn á ný í haust (2014) þá orðin 95 cm löng.

Samkvæmt lengdinni á umræddri hrygnu þá er þetta önnur stærsta hrygna vatnaurriða sem veiðst hefur hérlendis, en þegar kemur að þyngdinni hinum aðal mælikvarða á stærð fiska þá eru til gögn yfir þyngri hrygnur hérlendis á meðal urriða sem dvelja allan sinn aldur í ferskvatni. Í þeim þremur tilfellum var um Þingvallaurriða að ræða og tvær þeirra hrygna voru mældar af Laxfiskum með nákvæmri vog og voru nálægt 11 kg að þyngd. Önnur þeirra hrygna var veidd í norðanverðu Þingvallavatni árið 2007 og vóg 10,72 kg blóðguð og hefur því verið allt að 11,3 kg óblóðguð en lengd hennar var 93 cm.  Hin veiddist í rannsóknaveiðum í Öxará árið 2010 og var 10,70 kg að þyngd og 89 cm löng. Þriðja hrygnan sem um ræðir var að öllum líkindum töluvert þyngri en þessar tvær og veiddist hún í byrjun sumars árið 2014 í sunnanverðu Þingvallavatni. Hinsvegar vantar reyndar eiginleg mæligögn yfir þyngd þeirrar hrygnu þar sem henni var sleppt eftir að hafa verið dregin að landi án þess að tækifæri gæfist til að mæla þyngd hennar áður. Hinsvegar náðust af henni önnur mál og ef tekið er mið af mælingum veiðimannsins á mesta ummáli fisksins (63 cm) annarsvegar og lengd hans hinsvegar (100 cm) og það skoðað í ljósi sambærilegra mæligagna yfir stærstu urriðahrygnur landsins sem aukinheldur voru þyngdarmældar þá verður að ætla að sú hrygna hafi verið 14-15 kg að þyngd.  Hér ber að geta þess að öll líkindi eru á því að hrygnan langa sem mæld var á riðunum í Öxará í haust hafi á hátindi sínum verið 11- 12 kg þegar hún mætti til hrygningar þremur árum fyrr árið 2011 eftir tveggja ára orlof frá síðustu hrygningu, en þá kom hún ekki við sögu rannsóknaveiðanna og var því ekki mæld. Árið 2014 kom umrædd hrygna ekki við sögu rannsóknaveiðanna fyrr en síðla í nóvember. Þyngd hennar þá var 8,26 kg sem skýrist af því að megnið af hrognum hennar var komið á tilætlaðan stað, það er að segja niður í malarbotn Öxarár með tilheyrandi þyngdartapi fisksins. Þyngdartapið skýrist einnig að nokkru leyti af linnulitlum greftri hola fyrir hrognin sem útheimtir mikla orku sem sækja verður í líkamsforðann þar sem allt át liggur niðri um riðtímann. Ætla verður að hrygnan langa hafi verið um eða yfir 10 kg þegar hún gekk á riðin haustið 2014 og er þá litið til þess að hrygnan var að þessu sinni komin í hóp eldri borgara stofnsins en þeir eru jafnan hlutfallslega léttari miðað við líkamslengd en yngri fiskarnir. Til að gefa smá innsýn í hve mikið hrygnurnar geta lagt af á skömmum tíma þá vill svo til að urriðafrúin sem hér hefur verið til umfjöllunar var mæld tvívegis á riðunum í Öxará síðla í október 2009 og því er hægt að gefa raunverulega sýn á þyngdartapið sem á sér stað samhliða hrygningunni. Á þeim tæpu 5 dögum sem liðu á milli mælinganna lagði hún af 1,32 kg. Á þeim þeim tíma lauk hún við hrygninguna því 1. nóvember sýndu mælimerkjagögnin að hrygnan var komin út í Þingvallavatn þar sem hún dvaldi samfellt næstu 2 árin.

 

Rannsóknir á Þingvallaurriða í samvinnu við Ion fishing fyrir landi OR
Í framhaldi af samningi Ion fishing við OR um leigu á stangveiðirétti fyrir landi OR á Nesjavöllum til þriggja ára þá skapast kjörinn grundvöllur til að samtvinna rannsóknir og veiðar á Þingvallaurriðanum á þessu svæði. Vegna þess ákváðu Laxfiskar og Ion fishing leigutaki veiðiréttarins að vinna saman að því markmiði að afla upplýsinga um urriða fyrir landi OR á vatnasviði Þingvallavatns. Í því skyni munu Laxfiskar hefja rannsóknir 2015 sem miðast við að afla upplýsinga um urriðana af þessu svæði sem unnar verða í samstarfi við Ion fishing.

Við hjá Laxfiskum þökkum veiðimönnum og veiðiréttarhöfum við Þingvallavatn samstarfið á árinu sem er að líða og óskum þess að vindar vaxandi farsældar blási í veiðimálum við Þingvallavatn árið 2015 líkt og 2014.

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080