Upplýsingar um lífshætti og rannsóknir frá Jóhannesi Sturlaugssyni líffræðingi
Urriðafóstri!
Vilt þú styðja rannsóknir Laxfiska á Þingvallaurriða?
Með því að taka "fisk í fóstur" með slíkri þátttöku er markvisst stuðlað að öflun hagnýtrar þekkingar um Þingvallaurriða. Nú þegar við óskum eftir slíkum frjálsum framlögum í fyrsta sinn þá er það til að standa straum af merkingum með rafeindafiskmerkjum svo hægt sé að sinna af meiri metnaði vöktun á stofnstærð urriðans og hrygningargöngunum hans auk þess að afla nýrra upplýsinga um hegðun hans árið um kring.
Styrktaraðilar, hvort heldur það eru einstaklingar, félög eða fyrirtæki eru uppfræddir sérstaklega um framvindu rannsóknanna þ.m.t. sérstaklega varðandi gögn frá þeim merkingum sem um ræðir. Auk þess að fá fallegt skjal til staðfestingar á þátttökunni.
Nú í byrjun verður til einföldunar boðið upp á tvennskonar styrktarþátttöku. En þeir sem hafa áhuga á að ræða aðra þætti í rannsóknum á Þingvallaurriða sem þeim þætti vert að styrkja eru beðnir um að hafa samband til að ræða slíka möguleika.
1. 15 þúsund króna styrktarframlag.
Kostun á merkingu hrygningarurriða með innvortis rafkenni sem fylgir fiskinum ævina á enda og gagnavinnu því tengt. Merkingin gerir kleift að fylgast með fiskinum á einstaklingsgrunni. Í því felst meðal annars vöktun á göngum fiskanna inn á riðstöðvar Öxarár með síritandi skráningarstöðvum og gögn yfir vöxt hluta fiskanna sem fást frá mælingum á þeim um hrygningartímann.
2. 100 þúsund króna styrktarframlag.
Kostun á merkingu hrygningarurriða með dýrum rafeindafiskmerkjum og gagnavinnu því tengt. Þeir fiskar myndu einnig bera rafkennismerki. Annarsvegar er þar um að ræða mælimerki sem í 2 ár á 1 klst fresti eða örar, mæla dýpið sem fiskurinn fer um, vatnshitann og fleiri mæliþætti. Merkin þarf að endurheimta en merkingar á riðunum í Öxará hafa gefið 50-90% endurheimtuhlutfall á þeim fiskum (merkjum), sem byggist á því að Laxfiskar sjá um að veiða mælimerktu fiskana þegar þeir koma til hrygningar. Hinsvegar er þar um að ræða hljóðsendimerki sem senda í 2 ár einstaklingskóða fisksins sem merkið ber og þannig fást landfræðileg gögn yfir dvalarstaði urriðans með hliðsjón af þeim síritandi skráningarstöðvum sem starfræktar yrðu. Gögn yfir vöxt fiska sem bera myndu þessar gerðir rafeindafiskmerkja fást almennt frá mælingum á þeim þegar þeir koma á riðin til hrygningar en líkt og gengur skila slíkar upplýsingar sér einnig í einhverju mæli frá almennum veiðum í Þingvallavatni.
Hér fyrir neðan eru upplýsingar um bankareikning Laxfiska fyrir þá sem vilja styrkja rannsóknirnar auk upplýsinga um tölvupóstfang og síma Laxfiska svo hægt sé að grennslast nánar fyrir um þennan möguleika á að styrkja rannsóknir Laxfiska á Þingvallaurriðanum.
Bankareikningur: 0101 - 26 - 32340
Banki - HB - Reikningsnúmer
Kenntala Laxfiska (eiganda bankareiknings): 610303-2340
Tölvupóstfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it
Sími 664 7080 og 546 7080