There are no translations available.

Þingvallaurriðinn og veiðar á honum 

Sumarið er komið. Þingvallasveit skartar sínu fegursta og Þingvallaurriðinn er kominn á stjá í leit að æti eftir að hafa í rólyndi setið af sér veturinn.  Veiðimenn flykkjast á bakka Þingvallavatns til að njóta veiði á urriða og bleikju.  Þegar fegurð náttúrunnar og töfrar veiðanna virðast ekki eiga sér nein takmörk þá  berast ótíðindi sem spilla gleðinni.

Staðfestar frásagnir af slátrun Þingvallaurriða  í upphafi þessa veiðiárs skilja eftir sig óbragð hjá miklum meirihluta veiðimanna og öðrum unnendum Þingvallaurriðans. Nokkuð sem er ekki í takti við þær umbætur sem nú hafa náðst í veiðimálum sem varða Þingvallaurriðann.

Sitt sýnist þó hverjum en sem betur fer virðist aðeins brotabrot stangveiðimanna kunna að meta slíkar magnveiðar á langsoltnum urriðum. Vissulega er ekki hægt að vænta þess að veiðimenn hafi einhlíta skoðun á veiðum á Þingvallaurriðanum frekar en veiðum almennt. Hinsvegar er hægt að vænta þess að menn taki tillit til sérstöðu Þingvallaurriðans og sýni skilning á þeim umbótum sem komið hefur verið á í veiðimálum sem hann varða, sem ekki síst eru tilkomnar vegna vitundarvakningar í röðum stangveiðimanna. Umbætur í veiðiháttum sem varða veiði á Þingvallaurriða skila sér í sterkari stofnum urriðans.  Tilgangur sem er við hæfi gagnvart þessum merka fiski sem verið hefur að styrkja stöðu sína undangengin ár eftir áratugalangt hnignunarskeið.

 

Breyttir veiðihættir og breyttar veiðireglur

Höfundur þessara orða hefur verið svo lánsamur að vinna árlega að rannsóknum á Þingvallaurriðanum síðustu 15 árin. Samhliða þeirri vinnu hafa verið mikil og góð samskipti við veiðimenn sem nýta Þingvallavatn og við veiðiréttarhafa við vatnið.  Á þessum tíma hefur mönnum sífellt betur orðið ljóst hve mikilvægt er að hlúa að Þingvallaurriðanum og hafa sýnt þann hug í verki. Stangveiðimenn hafa gengið á undan með góðu fordæmi undangengin ár með því að sleppa í sívaxandi mæli þeim urriðum sem þeir veiða. Á liðnu sumri var svo komið að þrátt fyrir að mikill meirihluti veiðimanna ýmist sleppti þeim urriðum sem að þeir veiddu eða gættu mikils hófs við veiðarnar þá var fjöldi "löndunarkrananna" sem lönduðu miklum fjölda urriða einfaldlega orðinn of mikil. Sögur af veiði þeirra vitnuðu einfaldlega um að það skilaði ekkir árangri að biðla til þessa þrönga hóps um að breyta veiðiháttum sínum.  Því var ákveðið að taka það skref að setja reglur um veiðarnar 2014 á þekktustu veiðisvæðunum við Þingvallavatn sem miðuðu að því að vernda urriðann. Veiðiréttarhafar þessara svæða sýndu urriðanum  vinarhug  sinn í verki í ár með því að setja regluverk í gagnið  sem skyldar veiðimenn til að veiða urriðann á flugu og sleppa honum. En það fer eftir veiðisvæðum hvort þessi regla gildir fyrir allt sumarið eða hluta þess. Fyrir landi Orkuveitu Reykjavíkur í sunnanverðu Þingvallavatni þar sem urriðinn er að hluta við ströndina allt sumarið gilda þessar reglur fyrir allt sumarið. Fyrir landi Þjóðgarðsins á Þingvöllum norðanvert í vatninu gilda þær reglur frá því að veiði hefst 20. apríl til og með 31. maí, en á þeim tíma er urriðinn hvað ginkeyptastur fyrir agni veiðimanna á þeirri slóð.

 

Líta þarf  heildstætt til nýrra viðmiða við veiðar á Þingvallaurriðanum

Veiðireglur sem kveða á um að stangveiðimenn sleppi urriðum eru ekki í gildi fyrir öll veiðisvæði Þingvallavatns.  Samræming í þeim efnum er eðlilegt næsta skref í umbótum af þessu tagi enda urriðinn í Þingvallavatni sameiginleg auðlind veiðiréttarhafa við vatnið. Í því sambandi má minna á að urriðinn, í þessu stærsta náttúrulega vatni landsins, hrygnir einungis á fáeinum stöðum og því koma veiðar á öllum svæðum við sögu nýliðunar hans. Öxaráin fóstrar stærstu riðstöðvarnar en aukin hrygning á riðstöðvum við sunnanvert vatnið svo sem í Ölfusvatnsánni og Útfallinu á næstliðnum árum eru fagnaðarefni. Þó ekki sé búið að samræma veiðireglur á öllum veiðisvæðum Þingvallavatns þá verður að gera þá kröfu til veiðimanna sem veiða á svæðum þar sem engar takmarkanir eru á urriðaveiði að þeir taki mið af þeim ráðandi tíðaranda sem ríkir nú í umgengni veiðimanna við urriðana. Annað er í reynd óvirðing við bæði Þingvallaurriðann og þá sem standa vörð um hann með ýmsu móti. Í þessu sambandi verður einnig að geta þess að netaveiðar þar sem notuð eru net með grófum netariðli sem taka nær eingöngu fullvaxta stórurriða eru stundaðar í Þingvallavatni enda þótt langfæstir sem leyfi hafa til netaveiða í vatninu stundi þær. Þessar veiðar eru alger tímaskekkja og augljóst að finna verður leið til þess að leggja þær af sem allra fyrst.  Gera verður greinarmun á slíkum veiðum og almennum netaveiðum sem beinast að bleikjunni sem bæði er sjálfsagt og eðlilegt að séu stundaðar af bændum sem land eiga að því mikla veiðivatni sem Þingvallavatn er.

 

Forsendur og gagnsemi þess að sleppa Þingvallaurriða í stangveiði

Þegar fjallað er um þær sleppingar Þingvallaurriða sem nú hafa rutt sér til rúms þá er eðlilegt að skoða slíka veiðihætti gagnvart laxi til viðmiðunar.  Hin síðari ár hefur ekki þótt til mikils mælst að menn sleppi laxi við veiðar í ám hérlendis sé þess óskað af veiðiréttarhöfum. Breytir þá engu þótt greiddar séu háar upphæðir fyrir veiðileyfin sem ekki er reyndin með Þingvallaurriðann.  Í tilfelli laxins er lagt upp með það að leiðarljósi að "veiða og sleppa" veiðiaðferðin tryggi betur hrygningu laxins og tilsvarandi nýliðun. Auk þess sem slíkt fyrirkomulag skili sér í því að fleiri veiðimenn njóti þess að veiða lax það árið þar sem hluti fiskanna sem sleppt er taki agn þeirra að nýju.  Í tilfelli Þingvallaurriða sem sleppt er af veiðimönnum þá sýna rannsóknir Laxfiska að ekki er einungis líklegt að fiskurinn skili sér á hrygningarstöðvar sínar einu sinni líkt og laxinn. Heldur eru öll líkindi á að hluti þeirra fiska skili sér til hrygningar fleiri ár í kjölfarið. Einnig liggur fyrir að hluti urriðanna sem sleppt er veiðist aftur, ekki bara innan sama sumars heldur allt upp í mörg ár í kjölfarið með tilheyrandi líkamsvexti á milli.  Hér verður einnig að nefna þá augljósu staðreynd að þrátt fyrir bágan efnahag landsins um þessar mundir þá er fæðuskortur sem betur fer ekki viðvarandi og urriðaveiði þaðan af síður lykilatriði í öflun fæðu almennt. Auk þess er kvikasilfursinnihald Þingvallaurriða sem náð hafa um og yfir 6 punda (3 kg) þyngd í flestum tilfellum meira en leyfileg viðmiðunarmörk um matvæli til sölu og dreifingar gera ráð fyrir og slíkur fiskur því ekki heppileg fæða. Í Þingvallavatni er margfalt meira af bleikju en urriða og þar sem bleikjan er úrvalsmatfiskur þá geta veiðimenn sannarlega náð sér í soðið þó svo að urriðanum sé sleppt.

Af framansögðu má ljóst vera hve skynsamlegt og eðlilegt það er að sleppa  Þingvallaurriða. Þeir stangveiðimenn sem stunda veiðar í þeirri einstöku náttúrufegurð sem einkennir Þingvallavatnssvæðið og eru svo lánsamir að setja í sprækan urriða eru vissulega ekki sviknir af slíkri upplifun einni sér. Það eykur nefnilega einungis á upplifunina að vita það að með því að sleppa urriðanum þá eru þeir að leggja þessum konungi íslenskra ferskvatnsfiska lið.

Jóhannes Sturlaugsson

         Urridahaengur-Teljari-Oxara-Brown-Trout.Salmo-Trutta.Copyright-Laxfiskar.is

         Urriðahængur í fiskteljara Laxfiska í Öxará

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080