Steinbíturinn er heimakær

Vöktun á gönguatferli steinbíts í Hvalfirði

Steinbitur HSM Hvalfirdi Wolffish Copyright Erlendur Geirdal Laxfiskar 2010

Árin 2010 – 2012 var unnið að rannsókn á steinbít í Hvalfirði til að afla upplýsinga um hvernig hann hagaði dvöl sinni í firðinum árið um kring með hliðsjón af svæðum og umhverfisþáttum. Gögnum var safnað með því að merkja steinbít í byrjun sumars með hljóðsendimerkjum og fylgjast síðan með ferðum þeirra út frá skráningum á viðveru fiskanna innan skynjunarsviðs síritandi skráningarstöðva sem voru starfræktar eftir endilöngum Hvalfirði. Markmið verkefnisins var að kortleggja gönguhegðun hjá steinbít innfjarða og kanna tengsl þeirrar hegðunar við árstíma og þætti í umhverfi fiskanna.

Rannsókn Laxfiska á gönguhegðun steinbíta (67-77 cm að lengd) í Hvalfirði skiluðu upplýsingum um gönguatferli steinbíts frá degi til dags þegar þeir dvöldu við ætisöflun á athugunarsvæðunum, yfir tímabil sem spönnuðu allt upp í tæp 3 ár. Viðvera sömu steinbítanna í Hvalfirði árum saman sýnir trygglyndi þeirra gagnvart ætisslóðinni þar og því er í raun hægt að tala um ætisheimahaga fiskanna.  Algengt var að steinbítarnir héldu sig á mjög afmörkuðum svæðum fjarðarins vikum saman sem sýnir enn frekar hversu staðbundnir þeir geta verið. Árstíðabundið brotthvarf steinbítanna úr Hvalfirði endurspeglaði göngur þeirra til hrygningar á svæðum utan Hvalfjarðar, dvöl þeirra á hrygningarsvæðunum og ferðir þeirra í upphafi ætisgöngunnar áður en þeir gengu í Hvalfjörð til árlegrar dvalar. Í desember 2012 var lokið við skýrslu sem tíundar niðurstöður steinbítsrannsóknanna í Hvalfirði en hana má nálgast hér: Gönguhegðun steinbíts í Hvalfirði

Rannsóknirnar á steinbítnum voru framkvæmdar samhliða rannsóknum á gönguhegðun ýsu í Hvalfirði þar sem sömu rannsóknatækni var beitt. Þessar rannsóknir mörkuðu upphafið að notkun rafeindafiskmerkja í rannsóknum á ýsu og steinbít hér við land.

Ýsurannsóknin sýndi að ýsan líkt og steinbíturinn hélt tryggð við ætisslóðina í Hvalfirði en gekk út úr firðinum til hrygningar. Ítarlegar upplýsingar um ferðir ýsunnar í Hvalfirði er að finna í skýrslu sem sjá má hér: Gönguhegðun ýsu í Hvalfirði
Farhegðun steinbíts og ýsu úr Hvalfirði á það sammerkt að fiskar þessara tegunda nýta innanvert grunnsævið til ætisöflunar og eru tiltölulega staðbundnir þar stóran hluta af árinu en ganga þess á milli utar á landgrunnið til hrygningar. Rannsóknir Laxfiska á ýsu og steinbít voru styrktar af Verkefnasjóði sjávarútvegsins.

Skýrslur

 

 

  Laxfiskar ehf  

  Hraðastöðum 1

  271 Mosfellsbæ

 

  Netfang: johannes@laxfiskar.is

  Sími: 664 7080