There are no translations available.

  Laxgengd og veiði í Elliðaánum
- staðan 2019 í ljósi áranna 2011-2018
Jóhannes Sturlaugsson

 

Stangveiðimenn velta sem fyrr vöngum yfir veiðinni í ánum okkar sem víðast hefur verið dræm framan af þetta árið.  Sá er þetta ritar er nú að vakta fiskistofna í vatnakerfi Elliðaánna 9. árið í röð fyrir hönd rannsóknafyrirtækis síns Laxfiska og finnst við hæfi að setja fram gögn yfir laxgengd í Elliðaánum þau ár (2011-2019) til samanburðar. Slík stöðluð árleg vöktun á Elliðaánum  hefur verið samfelld í 32 ár, en fyrstu 23 árin sinnti Veiðimálastofnun henni. Ekki þarf að fjölyrða um gagnsemi þess að til séu slík langtímagögn og benda má á að Elliðaárnar eru meðal annars notaðar sem einkennisá til viðmiðunar fyrir laxveiðiár á nærliggjandi svæðum landsins. Þannig er til að mynda stuðst við árleg gögn yfir stærð gönguseiðastofns laxins í vatnakerfi Elliðaánna og staðfesta lifun þeirra laxa yfir sjávardvölina. Slík langtíma vöktunargögn gefa færi á að ráða í stofnstærðarsveiflur sem stangveiðimenn þekkja svo vel frá veiðum sínum á laxi, sveiflur sem ráðast í senn af áhrifaþáttum í ferskvatni og í sjó. 


Í ljósi umræðunnar um veiði þessa árs þá er fróðlegt að líta á það hvernig laxgengdin þetta árið í Elliðaánum lítur út miðað við árin 2011-2018.  Heildarganga laxa í Elliðaárnar er skráð með nákvæmum hætti árlega, annarsvegar út frá kvikmyndafiskteljara sem er örstuttan spöl frá sjávarósi og hinsvegar út frá stangveiði á laxi sem er landað neðan þess kvikmyndafiskteljara.  Hér set ég fram nokkur gröf sem sýna laxgengdina til og með 14. júlí frá 2011-2019. Þar er sýndur fjöldi laxa sem laxagangan samanstendur af þessi ár yfir nefnda byrjun göngunnar. Bæði út frá fjölda laxa sem luku á því tímabili göngu upp fiskteljarann undan rafstöðvarhúsinu í Elliðaárdalnum og út frá fjölda laxa sem var landað neðan fiskteljarans á því timabili.  Þau gögn sýna að heildarganga laxins á þessum fyrstu 25 dögum veiðitímabilsins í Elliðaánum er töluvert breytileg á milli ára. Um leið sýnir þessi samanburður að laxgengdin í Elliðaárnar á þessum 9 árum hefur í tvígang verið slakari en nú er þegar komið var fram í miðjan júlí (2014 og 2015) og veiðin á sama tímapunkti var einnig slakari 2014 en sambærileg 2015 við það sem nú er.  Á meðal myndanna sem sýna samanburð á laxgengd í Elliðaánum á milli ára er mynd sem sýnir hve stórt hlutfall af árlegri göngu laxa í Elliðaárnar hefur verið komið í árnar 14. júlí, í samanburði við það sem gekk í árnar síðar að sumrinu. Nokkuð sem er fróðlegt að skoða þegar menn velta fyrir sér hver heildarlaxgengdin verði þetta árið í Elliðaánum og framhaldið á gangi veiðinnar sem laxgengdin stýrir að miklu leyti.  

 

1_ellidar-upphaf_laxagongunnar 2011-2019_johannes_s_laxfiskar

 

 

2_ellidar-upphaf_laxagongunnar 2011-2019_johannes_s_laxfiskar

 

 

3_ellidar-upphaf_laxagongunnar vs heild_hlutfallslegur_fjoldi_ 2011-2018_johannes_s_laxfiskar

 

 

Vegna þess hve veiðin í Elliðaánum hefur verið góð framan af þegar litið er til annarra laxveiðiáa, þá fannst mér við hæfi að sýna tölfræðina að baki þeirri laxveiði hér í höfuðstaðnum. Því set ég fram graf sem sýnir þær 9 veiðiár sem eru með besta laxveiði að meðaltali á hvern stangardag 2019 fram til 10. júlí. Þau gögn byggja á gögnum frá Landsambandi Veiðifélaga og taka tillit til fjölda þeirra stanga sem standa að baki veiðinni fyrir hverja viku frá upphafi veiðitíma í þeim ám. Gögnin sýndu að Elliðaárnar voru 10. júlí síðastliðinn með þriðju bestu veiðina á landsvísu þegar litið er til veiðinnar með hliðsjón af þeim stangardögum er að baki veiðinni stóðu. Hvað heildarveiðina á laxi varðaði þá var veiðin í Elliðaánum í því efni á sama tíma í 6. sæti yfir landið. Nú fer næsta vikusamantekt Landssambands Veiðifélaga yfir  laxveiðina að birtast, sem Björn Theódórsson setur tryggilega fram að venju. Þá hefur veiðin vissulega aukist í þeim ám sem hér er fjallað um miðað við 10. júlí, þar með talið í Elliðaánum - en síðla dags 16. júlí var búið að veiða 219 laxa í Elliðaánum og á sama tíma höfðu rétt tæplega 700 laxar gengið upp teljarann. 



5_ veidin i 9 aflahaestu anum 10jul2019

 


Myndin sem ég birti hér sýnir árlega laxveiði í Elliðaánum síðustu 20 árin.  Það er ánægjulegt að sjá hvað laxveiðin í Elliðaánum hefur að jafnaði verið góð síðasta áratug. Þetta er ekki síst gleðilegt í ljósi þess að á þeim tíma eru Elliðaárnar sjálfbærar, því laxaseiðum var síðast sleppt 2007 og laxar frá slíkum sleppingum koma því ekki við sögu veiðanna frá og með 2010. 

   

4_ellidar-arleg veidi i ellidaanum sidustu 20 ar -1999-2018

 

Síðasta myndin sem ég birti hér (bætt inn 18/7) sýnir stærð hrygningarstofns Elliðaánna. Kvótasetning laxveiðinnar í Elliðaánum (2 laxar á vakt sem má landa en stunda má veiða og sleppa því til viðbótar) er sérlega mikilvæg forsenda þess að tekist hefur að tryggja góðan hrygningarstofn í Elliðaánum. 


6_arleg ganga lax i ellidaar 2011_2018_vs_hrygningarstofn-johannes sturlaugsson laxfiskar


                                                                          

There are no translations available.

 

Örlög íslenskra laxastofna
eru nú í höndum alþingismanna

Jóhannes Sturlaugsson

 Grein sem birtist í vefútgáfu Fréttablaðsins 31. maí 2019
Greinin var send á alla alþingismenn 31. maí og aftur 12. júní

 

Virðing íslenskra ráðamanna við náttúru landsins á að vera sjálfsögð en ekki valkræf dyggð. Gera verður þá kröfu til ráðamanna að þeir sýni náttúru Íslands að minnsta kosti sömu virðingu og rekstri þeirra fyrirtækja sem stunda sjókvíaeldi hér við land. Fróðlegt er að horfa upp á þá staðreynd að þau fyrirtæki eru meðhöndluð eins og þar fari sprotafyrirtæki sem þræði í rekstri sínum brautir nýsköpunar en ekki að þar fari gamalgróin erlend stórfyrirtæki sem hafa stundað slíkt eldi um langan aldur. Stórfyrirtæki sem í sínu föðurlandi þykir eðlilegt að borga fullt verð fyrir eldisleyfi, úttektir og eftirlit en hérlendis verður að slá í púkk með skattfé almennings svo öruggt sé að eigendurnir missi ekki úr svefn. Stórfyrirtæki sem í eigin föðurlandi stæra sig af því að tileinka sér ábyrgar eldisaðferðir sem eru að ryðja sér til rúms - stórfyrirtæki sem hérlendis eru hæstánægð með að notast við óábyrgt eldi í opnum sjókvíum. Aðferðafræði sem felur í sér erfðablöndun íslenskra laxastofna frá hendi norskættaðra eldislaxa úr sjókvíum og einnig afföll náttúrlegra laxa og göngusilunga fyrir tilstilli laxalúsar sem runnin er úr þeim kvíum. 

Á næstliðnum árum hefur með fulltingi stjórnvalda verið byggt upp eldi á laxi í opnum sjókvíum. Það hefur verið gert án þess að eðlileg krafa hafi verið gerð um að lagaumhverfið tryggði svo sem unnt væri að sá iðnaður gengi ekki á tilvistargrundvöll náttúrulega stofna lax og göngusilungs. Í ljósi þess hefði mátt halda að lagafrumvarp það sem nú er í meðförum Alþingis (Þingskjal 1060 - 647. mál), sem marka skal starfsumhverfi laxeldis í opnum sjókvíum, hefði sjálfkrafa falið í sér að þar yrðu tryggðar svo sem verða mætti varúðarráðstafanir gagnvart náttúrunni sem sá iðnaður vegur svo mjög að - en svo var ekki. Þann 20. maí birti  atvinnuveganefnd Alþingis, sem sér um lokaútfærslu frumvarpsins eftir að umsagnir hafa borist, breytingartillögur meirihluta nefndarinnar við frumvarpið. Þær áherslur sem þar birtust staðfesta hve skammt var gengið til að tryggja tilvistarrétt íslenskra laxastofna. Vegna þessa þá er deginum ljósara að eina færa leiðin til að ganga frá nauðsynlegum breytingum á frumvarpinu er sú að fresta afgreiðslu þess til næsta þings. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að þær mjög svo alvarlegu brotalamir sem er að finna í frumvarpinu verði innlimaðar í lagaumhverfi fiskeldis með tilheyrandi skaða fyrir íslenska laxastofna á landsvísu sem og göngusilungsstofna næst eldissvæðunum. Nokkuð sem myndi með skýrum hætti ganga í berhögg við þá ábyrgu náttúrurvernd sem Íslendingar hafa kennt sig við, og er í reynd skylt að sinna með tilliti til þeirra laga sem þeir hafa undirgengist. Ef ekki er brugðist við með endurbótum á frumvarpinu þá munu berskjaldaðir laxastofnar hverfa snemmhendis af sjónarsviðinu - og líkt og saga sjókvíaeldis á Atlantshafslaxi sýnir, þá munu einnig stór skörð verða höggvin í raðir annarra hérlendra laxastofna fari svo sem horfir.                                               
Síðustu fjögur ár hefur greinarhöfundur vaktað áhrif sjókvíaeldis á lax- og sjóbirtingsstofna í þremur ám í Arnarfirði. Þær rannsóknir mörkuðu jafnframt upphaf þess hérlendis að fylgst væri ár frá ári með ástandi fiskistofna í ám í næsta nágrenni eldis á laxi í opnum sjókvíum. Greinarhöfundur var fyrstur til að benda opinberlega á þá alvarlegu galla sem er að finna í núgildandi áhættumati Hafrannsóknastofnunar á erfðablöndun sem nú liggur fyrir að lögfesta. Auk þess benti ég opinberlega á þá miklu hættu sem felst í því að bregðast í engu við tilvistarvanda lax- og göngusilungsstofna næst sjókvíaeldissvæðunum vegna laxalúsar og fisksjúkdóma.

                                                                                       
Sjókvíaeldi er umhverfisógn                              

Skaðann sem sjókvíaeldið veldur á lífríkinu þarf að lágmarka með því að bæta lagaumgjörðina og því er eina færa leiðin sú að fresta afgreiðslu frumvarpsins til næsta þings. Ef meirihluti ráðamanna nú um stundir bæri fulla virðingu fyrir tilvist íslenskra laxastofna, þá væri nú verið að vinna að áætlunum um hvernig  eldi á  laxi í opnum sjókvíum hér við land yrði aflagt á næstu árum og í staðinn eingöngu byggt upp laxeldi sem byggði á ábyrgum eldisaðferðum. Þess í stað eru áform um aukið eldi á laxi í opnum sjókvíum þrátt fyrir að ráðamenn viti að slíkur vöxtur þess iðnaður eykur á hættuna sem slíkum rekstri fylgir gagnvart  laxastofnum og fleiri þáttum lífríkisins. Því er bæði eðlilegt og nauðsynlegt að gera ríkar kröfur til stjórnvalda um að gengið sé frá tilheyrandi lagaumgjörð og ríkisforsjá þessa málaflokks með þeim hætti að lífríkinu sem gengið er á með þessum iðnaði sé sýnd sómasamleg virðing. Það gera Alþingismenn ekki með því að samþykkja lagafrumvarp þar sem haldið skal áfram að auka eldi á laxi í opnum sjókvíum hér við land án þess að til staðar sé nægilega ábyrg laga- og eftirlitsumgjörð, sem og tilsvarandi viðurlög þegar eldisaðilar fara út af sporinu í eldi sínu. Nú erum við einfaldlega komin á þann stað að stöðva verður frekari uppbyggingu þar til skilvirkt áhættumat liggur fyrir varðandi erfðablöndun en einnig áhættumat fyrir laxalús og sjúkdóma sem nú er ekki til staðar. Ásamt tilheyrandi viðbragðsáætlunum í varnarskyni með hliðsjón af þeim mismunandi sviðsmyndum náttúruvár sem reynsla annarra þjóða kennir okkur að muni koma til.

                                        
Frestun lagafrumvarpsins er eina leiðin             

Berskjaldaðir laxastofnar líkt og smáir stofnar næst sjókvíaeldissvæðunum eru í bráðri hættu ef umrætt lagafrumvarp verður samþykkt. Enda eru þeir stofnar og aðrir smáir eða lítt nytjaðir laxastofnar ekki einu sinni teknir inn í áhættumat erfðablöndunar; líkt og tilvistarréttur þeirra sé enginn. Með frestun á afgreiðslu frumvarpsins gefst færi á því að koma í veg fyrir lögfestingu á stórgölluðu núgildandi áhættumati Hafrannsóknastofnunar, en það sömdu Ragnar Jóhannsson sviðsstjóri fiskeldis- og fiskræktarsviðs Hafrannsóknastofnunar; Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar og meðhöfundar þeirra af fiskeldissviði Hafrannsóknastofnunar. Umrætt áhættumat erfðablöndunar hefur þann tilgang að meta líklega erfðablöndun frá hendi norskættaðra eldislaxa úr sjókvíum og ákvarðar ennfremur þröskuldsgildi hættumarka þeirrar erfðablöndunar. Með því að fresta afgreiðslu frumvarpsins gefst færi á að uppfæra áhættumatið. Þannig verður mögulegt að tryggja að áhættumat erfðablöndunar taki ekki einungis til laxastofna sem nytjaðir eru í tilteknum mæli, sem fellur að smekk höfunda áhættumatsins, heldur nái það til allra íslenskra laxastofna. Einnig gefst færi á því að koma í veg fyrir að áhættumat erfðablöndunar vanmeti áfram áhættuna af erfðablönduninni með því að uppfæra það með marktækari gögnum sem augljóst er að nýta skuli í því sambandi. Þar er um það að ræða annarsvegar að nota íslensk gögn yfir flakk laxa frá náttúrulegu klaki við vinnslu áhættumats erfðablöndunar, en það er margfalt minna (<1%) en það flakk laxa sem erlendu viðmiðin sem þröskuldsgildi hættumarka núgildandi áhættumats segja til um (4%). Hinsvegar er þar um að ræða þá augljósu kröfu að vinnsla áhættumatsins taki tillit til þeirrar staðreyndar að erfðablöndun runnin frá norskættuðum eldislöxum felur í sér meiri áhættu á því að stofngerð tiltekins laxastofns riðlist en ef erfðablöndunin er runninn frá náttúrulegum íslenskum flökkulöxum. Jafnframt gefur frestun á afgreiðslu frumvarpsins tækifæri á að koma í veg fyrir fyrirhugaða skipun samráðsnefndar, sem hefur einungis eitt tilgreint hlutverk; að fjalla um áhættumat erfðablöndunar án þess að nokkur skilyrði séu gerð um að viðkomandi nefndarmenn hafi faglegan bakgrunn sem tryggi að þeir hafi forsendur til að fjalla um slík mál til gagns. Af sama meiði þá veitir frestun á afgreiðslu frumvarpsins, tækifæri til að fella burtu ákvæði þess efnis að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti einhliða neitað uppfærslu áhættumats, hugnist honum uppfærslan ekki. Það að koma í veg fyrir slíka ráðstöfun er sérlega mikilvægt, ekki síst með hliðsjón af því hve óburðugt núgildandi áhættumat erfðablöndunar er - áhættumat sem tekur einungis til útvalinna laxastofna. Frestun á afgreiðslu frumvarpsins gefur færi á því að koma á fót fjölskipaðri nefnd óháðra sérfræðinga sem sinni sívirku faglegu eftirliti með uppfærslu áhættumats erfðablöndunar á meðan eldi í opnum sjókvíum er leyft, í stað þess að ráðherra skipi 3 aðila til að skoða þau mál sem skila eiga áliti sínu eftir 1 ár. Slíkt faglegt eftirlit myndi einnig í ljósi aðdragandans fela í sér að slík fagnefnd myndi á grunni úttekta fylgjast með því hvernig Hafrannsóknastofnun vinnur áhættumatið. Frestun á afgreiðslu lagafrumvarps þessa myndi einnig gefa færi á að tryggja sívirkt eftirlit með áhrifum laxalúsar og sjúkdómum hjá náttúrulegum stofnum laxfiska sem rekja má til sjókvíaeldis. Miðað við þau miklu og neikvæðu áhrif sem þessir áhrifaþættir hafa á náttúrulega stofna laxfiska einkum næst sjókvíaeldissvæðunum, þá er með ólíkindum að laxlúsarvandinn sé í frumvarpinu afgreiddur með vísun í reglugerð sem ráðherra skuli einhvern tíma setja er byggja skuli sem fyrr á eftirliti rekstraraðila með eigin eldislaxi - en eftirlit með áhrifunum á náttúrulega stofna laxfiska sé áfram ekkert.
Hér verða talin upp 3 grundvallaratriði (1-3) sem umrætt lagafrumvarp tekur ekki ábyrgt tillit til, enda þótt þau gangi gegn heilbrigði og tilvist íslenskra laxastofna sem og göngusilungsstofna á sjóvkvíaeldissvæðunum. Framsetning lagafrumvarpsins frá hendi ráðuneyti Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og síðan atvinnuveganefndar Alþingis vitnar um þá staðreynd. Enda þótt greinarhöfundur hafi sent ítarlega rökstuddar ábendingar um alvarleika þessara brotalama frumvarpsins til ráðuneytisins þegar drög þess lágu fyrir og síðan enn frekari gögn ítrekað til atvinnuveganefndar Alþingis. Breytingartillögur atvinnuveganefndar Alþingis staðfesta að í stað þess að ganga í það að tryggja að lagafrumvarpið innihaldi skilvirk úrræði til varnar þeim náttúrulegum stofnum laxfiska sem við sögu koma, þá er vísað til þess að þau nauðsynlegu úrlausnarefna verði afgreidd síðar af aðilum sem ráðherra skipar. Án þess þó að settir séu fyrirvarar um nauðsyn þess að umfang eldis á laxi í opnum sjókvíum verði ekki aukið á meðan þau mál eru óafgreidd.       


1 - Gildandi áhættumat er fölsk vörn           

Núgildandi áhættumat erfðablöndunar sem frumvarpið skal lögfesta er fölsk vörn því það gagnast ekki minnstu og berskjölduðustu laxastofnunum og vanmetur stórlega áhættuna af erfðablöndun á landsvísu. Eldislaxar sleppa úr sjókvíum í réttu hlutfalli við það magn sem alið er hverju sinni og hluti þeirra laxa gengur í  ár og taka þátt í hrygningunni með íslenskum löxum. Áhættumat erfðablöndunar er ætlað að kortleggja þá áhættu gagnvart íslenskum laxastofnum svo hægt sé að ákvarða eldismagn með hliðsjón af því að erfðablöndunin fari ekki upp fyrir tiltekin hættumörk. Árið 2017 birti Hafrannsóknastofnun slíkt áhættumat sem enn gildir. Það áhættumat skal nú lögfesta óbreytt í öllum aðalatriðum enda þótt það feli í sér stórkostlegt vanmat á áhættunni sem íslenskum laxastofnum stafar af erfðblöndun við norskættaða eldislaxa, líkt og undirritaður og fleiri hafa ítrekað bent formlega á. Ótrúlegt er að horfa upp á þá staðreynd að gildandi áhættumat erfðablöndunar sem undanskilur meira en helming af laxastofnum landsins, þ.m.t. berskjaldaða laxastofna sem eru runnir úr ám næst sjókvíaeldissvæðunum, skuli enn vera til umfjöllunar eins og það meti í reynd á jafnræðisgrunni áhættuna af erfðablöndun eldislaxa úr sjókvíum fyrir alla villta laxastofna landsins. Spurningunni um það hvað fékk líffræðimenntaða sérfræðinga til að mismuna með þessum hætti laxastofnum landsins hefur enn ekki verið svarað. Verra er að ekki stendur til að hvika frá þeirri mismunun áhættumatsins líkt og endurspeglaðist í umsögn Hafrannsóknastofnunar frá 10. apríl síðastliðnum til Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Í þeirri umsögn var fjallað um atriði sem grundvölluð voru á áhættumati erfðablöndunar með hliðsjón af tilteknum ám - og framsetningin þar sýndi meðal annars að hinn smái laxastofn sem Fífustaðadalsá í Arnarfirði fóstrar þótti þess ekki verður að vera tekinn til umfjöllunar. Það að umsögnin var án nokkurra fyrirvara var sérlega eftirtektarverð, enda gallar áhættumats öllum kunnir og því eðlilegt að geta þeirra ef vilji var til þess af hálfu Hafrannsóknastofnunar. Með hliðsjón af þessu er ljóst að af hálfu Hafrannsóknastofnunar þá er ekki litið til þess að taka alla laxastofna landsins inn í áhættumatið. Þar á meðal þá smæstu og berskjölduðustu sem eru næst sjókvíaeldissvæðunum, líkt og Fífustaðadalsá er dæmi um. Ekki frekar en að vilji er til þess hjá Hafrannsóknastofnun að uppfæra áhættumatið m.t.t. annarra upplýsinga sem varða grunnvirkni þess mats með hliðsjón af brýnni nauðsyn þess að nota íslensk gögn yfir flakk laxa frá náttúrulegu klaki og að taka tillits til norsks uppruna eldislaxanna í áhættumatinu. Til samans þá veldur þetta því að áhætta erfðablöndunar er stórlega vanmetin á landsvísu.  

                                                           
2 - Banvæn laxalús berst úr eldi                                     

Laxalús sem runnin er frá sjókvíaeldi hefur gríðarlega neikvæð áhrif á heilbrigði og lífslíkur laxa og göngusilunga úr ám næst sjókvíaeldissvæðunum. Umrætt lagafrumvarp tekur ekkert tillit til þeirrar staðreyndar að lífslíkur laxa og göngusilunga af stofnum úr ám í nágrenni sjókvíaeldissvæða eru stórlega skertar vegna laxalúsar sem runnin er frá eldislaxi úr sjókvíunum. Um það vitnar fyrirhuguð innleiðing lagaumgjarðar sjókvíaeldis á laxi þar sem engin krafa er um að fyrir hendi sé sívirkt áhættumat á áhrifum laxalúsar á laxa- og göngusilungsstofna í nágrenni sjókvíaeldissvæðanna hér við land og tilheyrandi viðbragðsáætlanir í varnaskyni með hliðsjón af aðstæðum sem ógna munu náttúrulegum stofnum þeirra laxfiska.      

                                                                           
3 - Fisksjúkdómar berast úr eldi                                       

Reynsla annarra þjóða kennir okkur að fisksjúkdómar munu smitast í raðir íslenska laxastofna fyrir tilstilli sjókvíaeldis. Núverandi lagafrumvarp innleiðir lagalega umgjörð sjókvíaeldis á laxi, án þess að þar sé gerð krafa um það að fyrir hendi sé virkt áhættumat á dreifingu fisksjúkdóma fyrir tilstuðlan sjókvíaeldis yfir í náttúrulega stofna laxfiska og tilheyrandi viðbragðsáætlanir  í varnarskyni.                                                                                           
Víti til varnaðar                                                            

Síðustu fjögur ár (2015-2018) hefur greinarhöfundur vaktað áhrif sjókvíaeldis á laxa- og sjóbirtingsstofna í í Fífustaðadalsá, Bakkadalsá og Selárdalsá í Ketildölum í Arnarfirði. Niðurstöður þeirra rannsókna sýna með skýrum hætti hve óréttlátt og óvægið umrætt lagafrumvarp er gagnvart fiskistofnum þeirra áa við Arnarfjörð, og annarra áa sem svipað er ástatt um. Gögn frá rannsóknum mínum sýna að innstreymi eldislaxa í Fífustaðadalsá er þegar fyrir ofan hættumörk með hliðsjón af erfðablöndun. Jafnframt sýna gögnin slæmt ástand sjóbirtinga í umræddum ám í Ketildölum, vegna áþjánar frá hendi laxalúsar og fækkunar í þeirra röðum eftir að umfang laxeldisins jókst (2017-2018), sem endurspeglar óviðunandi laxalúsarfaraldur í Arnarfirði vegna sjókvíaeldisins þar. En sú laxalús heggur einnig skörð í raðir þeirra smáu laxastofna sem þarna eiga hlut að máli. Þau gögn mín sendi ég atvinnuveganefnd Alþingis sem hluta af viðbótarumsögn minni um frumvarpið. Þær staðreyndir sýna á skýran hátt það misrétti sem felst í því ef alþingismenn ákveða að samþykkja frekari vöxt sjókvíaeldis af þessu tagi, án þess að sýna sómasamlega viðleitni til þess að reyna að tryggja hag slíkra laxa- og göngusilungsstofna.                                                                  
Skaðabótaskylda ríkisins                                         

Eldi í opnum sjókvíum er leyft af hálfu stjórnvalda, enda þótt ljóst sé að því fylgir að veð eru tekin í heilbrigði og tilvistargrundvelli laxastofna og fleiri þátta lífríkis Íslands. Af því leiðir að ábyrgð stjórnvalda er mikil varðandi það að lagaumgjörðin  feli ekki í sér brotalamir sem fría eldisaðilana frá þeirri ábyrgð sem þeir eiga að fullu að bera varðandi tilfallandi tjón sem þeir valda á íslensku lífríki, hvort sem það er tímabundið eða óafturkræft. Á meðal slíkra galla sem algerlega ótækt er að séu lögfestir, er núgildandi stórgallað áhættumat erfðablöndunar sem mismunar laxastofnum landsins. Ef af því verður þá jafngildir það einfaldlega yfirlýsingu þess efnis að fyrst Hafrannsóknastofnun sem er forsjáraðili stjórnvalda í þessum efnum sjái ekki tilefni til að taka ákveðna laxastofna inn í áhættumat erfðablöndunar, þá verði ekki hægt að gera þá kröfu á hendur eldisaðilum að þeir séu ábyrgir komi til þess að þeir laxastofnar verði fyrir tjóni vegna eldis á laxi í sjókvíum. Með sambærilegum rökum má segja að höfundar lagafrumvarpsins, og að endingu þeir þingmenn sem samþykkja myndu það í núverandi mynd, væru að einnig útvista ábyrgð eldisfyrirtækja til ríkisins vegna tjóns sem hlýst á fiskistofnum vegna laxalúsar og sjúkdóma sem runnir eru frá sjókvíaeldi. Þetta er sagt í ljósi þess að stjórnvöldum hefur verið kynnt sú mikilvirka hætta næst sjókvíaeldissvæðum sem stafar af því að starfrækja ekki skilvirkt og sívirkt áhættumat og tilheyrandi skaðaminnkandi viðbragðsáætlanir vegna þeirrar ógnar sem náttúrulegum laxa- og göngusilungsstofnum stafar af laxalús og sjúkdómum sem runnir eru frá sjókvíaeldi hér við land.                                                                                                                  
Hagsmunaárekstrar Hafrannsóknastofnunar

Alltumlykjandi starfsemi Hafrannsóknastofnunar fyrirgerir hlutleysi hennar og spillir því úrlausn álitamála er varða sjókvíaeldi. Lagafrumvarpið sem nú er í meðförum Alþingis gerir ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun sé áfram altumlykjandi hvað varðar sjókvíaeldi og áhrif þess á náttúrulega fiskistofna, allt frá mati á leyfilegu eldismagni, til rannsókna, umsagna og eftirlits. Það eitt og sér að sami aðilinn sjái fyrir hönd stjórnvalda um alla þessa þætti er varða bæði eldislax sjókvíanna og náttúrulega laxstofna sem það eldi hefur áhrif á, felur í sér ólíðandi hagsmunaárekstra. Sú aðferðafræði felur ekki einungis í sér að hlutleysi Hafrannsóknastofnunar er fyrir borð borið, heldur býður einnig upp á að álitamál fáist ekki leyst vegna brigða sem hægt er að bera á hlutleysi stofnunarinnar. Nokkuð sem mun líklega leiða til þess að ríkið skapi sér af þeim sökum skaðabótaskyldu algerlega að óþörfu.Hér er við hæfi að líta á hluta þeirra hlutverka Hafrannsóknastofnunar sem um ræðir. 

 - Hafrannsóknastofnun  ákvarðar í hvaða mæli má ala lax í sjókvíaeldi.                                                             - Hafrannsóknastofnun gegnir lykilhlutverki í rannsóknum er varða sjókvíaeldi á laxi.                                       - Hafrannsóknastofnun gefur „hlutlausar“ umsagnir þar sem eigin verk koma   við sögu.                                   - Hafrannsóknastofnun sinnir eftirliti á erfðablöndun á „hlutlausan“ hátt - m.a. á norskættuðum eldislaxi sem sleppa mun úr fyrirhuguðu sjókvíaeldi þeirra.                                        

Sá framgangsmáti að Hafrannsóknastofnun gefi umsagnir og sinni eftirliti sem varða þeirra eigin störf er með miklum ólíkindum. Því þar eru sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar fengnir til að gefa óvilhallt mat um eigin störf eða samstarfsmanna sinna, mat sem aldrei getur orðið annað en hlutdrægt. Því Hafrannsóknastofnun hefur sjálf útbúið aðferðafræðina sem afmarkar starfsemi fiskeldis í sjókvíum sem við sögu kemur með einum eða öðrum hætti í ágreiningsmálum sem þarfnast umsagna um möguleg áhrif eldisins á náttúrulega laxastofna og aðra þætti lífríkisins. Auk þess sem þær rannsóknir eða sá skortur á rannsóknum sem við sögu kemur er einnig á þeirra snærum.                                                                                    
Hlutleysi er forsenda farsældar                             

Tryggja þarf hlutleysi í starfsumhverfi sjókvíaeldis á laxi. Hérlendis hefur fólk vanist ýmsu vegna smæðar samfélagsins varðandi það að opinberir aðilar gegni mismunandi hlutverkum í senn þar sem hagsmunir fara ekki saman. Sá vettvangur sem hér um ræðir felur í sér gríðarlega hagsmuni, sem eru í húfi og þá öðru fremur fyrir íslenska laxastofna og göngusilungsstofna. Jafnframt leiðir núverandi tilhögun til þess að sláandi hagsmunaárekstra er að finna á milli mismunandi hlutverka sem Hafrannsóknastofnun gegnir og nefnd hafa verið. Ástandið mun versna til muna ef svo fer sem horfir að frumvarpið bæti frekari meinvörpum í starfsumhverfi sjókvíaeldis í stað þess að greiða úr þeim ólestri sem þar er ríkjandi með tilheyrandi áhættu fyrir íslenska laxa- og göngusilungsstofna. Þegar stórvægilegir mismunandi hagsmunir takast á þá gegna fjárhagslegir hagsmunir oft veigamiklu hlutverki varðandi það hver útkoman verður. Í tilfelli Hafrannsóknastofnunar sem heildar, þá er ljóst til dæmis að fiskeldis- og fiskræktarsvið stofnunarinnar hefur aðra hagsmuni að verja fjárhagslega og faglega en ferskvatnslífríkissvið Hafrannsóknastofnunar.  Varðandi fjárhagslega hagsmuni þá má geta þess að nú þegar eru styrkir sem Hafrannsóknastofnun þiggur umtalsverðir vegna matsgerða á burðarþoli fjarða vegna sjókvíaeldis og vegna rannsókna er tengjast með beinum hætti sjókvíaeldi á laxi og áhrifum þess á náttúrulega fiskistofna -  þeir styrkir eru ört vaxandi hluti af fjármögnun Hafrannsóknastofnunar. Þannig hefur Hafrannsóknastofnun (Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun sem sameinaðist Hafrannsóknastofnun 2016) þegið um 300 milljónir króna af þeim 400 milljónum króna sem Umhverfissjóður sjókvíaeldis hefur veitt á fjögurra ára starfstíma sínum (2015-2018), auk styrkja sem þegnir hafa verið frá Fiskræktarsjóði og mögulega fleiri aðilum til samskonar rannsókna. Mikið og vaxandi vægi fiskeldisins í störfum Hafrannsóknastofnunar sýnir eitt og sér að miðað við núverandi aðstæður þá er eðlilegt að hlutleysi Hafrannsóknastofnunar sé dregið í efa enda skarast hagsmunir, þar sem rekstrarstrarfjármunir stofnunarinnar og mismunandi faglegir hagsmunir koma við sögu.  

Hlustum á raddir skynseminnar                  

Náttúruvernd í eigin landi endurspeglar umhverfisvitund þjóðarinnar. Undanfarið hefur mikið verið rætt um vilja Íslendinga til að láta gott af sér leiða í loftslagsmálum og öðrum slíkum framfaramálum sem bætt geta umhverfi og lífsskilyrði hér á jörð. Umhverfismálin sem tengjast sjókvíaeldi hafa afskaplega mikið vægi bæði þegar litið er til áhrifannna innanlands og á alþjóðavísu. Ástæðan er einfaldlega sú að starfsemin setur lífríki landsins í hættu og slíkri ráðstöfun fylgir mikil ábyrgð sem þarf að sinna vegna þeirrar náttúru sem okkur ber skylda til að vernda. Ef við sinnum ekki þeim skyldum líkt og umrætt frumvarp ber með sér, þá gjalda í senn íslensk náttúra og orðspor okkar á vettvangi umhverfismála.  
Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna frá IPBES nefndinni sem byggð er á gríðarmikilli samantekt vísindagagna, sýnir áður óþekkt ófremdarástand hvað varðar hnignun lífríkisins á veraldarvísu. Skýrslan fól í sér ákall til þjóða heims um úrbætur. Segja má að sú skýrsla sé mikilvægasti minnismiðinn um langa hríð sem Íslendingum hefur borist varðandi mikilvægi þess að við sinnum náttúruverndarskyldum okkar, og því ljóst að íslenskum stjórnvöldum ber rík skylda til að taka ráðandi hlutverk sitt í náttúruvernd hérlendis grafalvarlega. Efst þar á blaði er að sporna við þeim alvarlega heimatilbúna vanda sem stjórnvöld gangsettu með sjókvíaeldi á laxi. Hér er einnig við hæfi að geta ákalls David Attenborough fyrr á þessu ári til varnar náttúrulegum laxi á veraldarvísu; ákalls sem vitnaði um stóran þátt sjókvíaeldis í hnignun laxastofna. Röksemdir vísindamanna Sameinuðu þjóðanna og David Attenborough í þessum efnum dregur enginn í efa. Þær röksemdir sýna að það eina rétta sem alþingismenn Íslendinga geta gert í málum hins stórgallaða frumvarps, er að fresta afgreiðslu þess  til næsta þings. 

Í greininni er vitnað til ítarlegra upplýsinga sem greinarhöfundur Jóhannes Sturlaugsson hefur sett fram og birt í eftirtöldum erindum til stjórnvalda.

Umsögn Jóhannesar Sturlaugssonar um frumvarp varðandi ýmsar breytingar á lögum er varða fiskeldi. 29 
mars 2019.
Sjá vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-4946.pdf                                               

Viðbótarumsögn Jóhannesar Sturlaugssonar um frumvarp varðandi ýmsar breytingar á lögum er varða fiskeldi. 6. maí 2019.
Sjá vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5418.pdf  

Umsögn Jóhannesar Sturlaugssonar um drög að frumvarpi varðandi ýmsar breytingar á lögum er varða fiskeldi. 13. Janúar 2019.
Sjá samráðsgátt stjórnarráðsins: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1256&uid=b3fb62b5-6a17-e911-944c-005056850474

 

Hér er tengill á greinina eins og hún var sett upp í Fréttablaðinu með glæsilegum myndum eftir Golla: https://www.frettabladid.is/skodun/orlog-islenskra-laxastofna-eru-nu-i-hondum-althingismanna/

...
Norskættaður eldislax úr sjókvíum, skaðvaldur í íslenskri náttúru

There are no translations available.

  

Laxastofnum fórnað fyrir sjókvíaeldi á laxi?
Jóhannes Sturlaugsson

 Grein sem birtist prentuð í Stundinni 21. des. 2018 og í vefútgáfu á stundin.is  8. janúar 2019


Ein af stóru spurningunum í Íslandsklukku Halldórs Laxness varðaði manndráp. Nefnilega það „hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?“ Nokkuð sem kemur upp í hugann nú þegar skoðuð er stærsta spurningin þessi árin sem varðar íslenska náttúru í ferskvatni, sem einnig grundvallast á mannanna verkum. Nefnilega það, hvenær drepur maður laxastofn og hvenær drepur maður ekki laxastofn?.                        

Kæru Íslendingar. Tíminn vinnur gegn íslenskum laxastofnum og það gera íslensk stjórnvöld líka. Líf og heilsa íslenskra laxastofna ræðst nú af sjókvíaeldi á fjarskyldum erlendum laxastofni og byggðapólitík. Aldrei fyrr í sögu okkar lýðveldis hefur verið veitt leyfi fyrir því að erlendur dýrastofn valsi um landið og blandist náttúrulegum dýrastofnum þess. Þetta eru hinsvegar örlög íslensku laxastofnana sem hér hafa þróast í árþúsundir. Náttúruverndarsjónarmiðin hafa orðið undir, og tilvist og heilbrigði íslenskra laxastofna hafa verið sett skör neðar en tímabundin atvinnu- og byggðasjónarmið. Ákvarðanir þær og áform þurfum við að endurskoða, því örlög íslenskra laxastofna eru í okkar höndum.

...
Norskættaður eldislax úr sjókvíum, skaðvaldur í íslenskri náttúru

Í haust fann ég eldislaxa á hrygningarslóð í Fífustaðadalsá við Arnarfjörð, sem lífsýnagreiningar staðfestu að voru af þeim norskættaða stofni sem notaður er í sjókvíaeldi hér við land. Sá veruleiki er þar birtist var raunveruleg áminning þess efnis að eldi á frjóum norskættuðum eldislaxi í opnum sjókvíum hér við land er ógn við íslenska laxastofna; helstu fjárhagslegu auðlindina í  lífríki ferskvatns hérlendis. Eldi sem skaðar einnig göngusilungsstofna í næsta nágrenni þess sjókvíaeldis, sem og ýmislegt í lífríki sjávar í þeim fjörðum sem hýsa slíkt eldi. Stórfelld aukning hefur orðið á skömmum tíma í sjókvíaeldi á laxi hér við land og fyrir liggja áætlanir um að umfangið margfaldist á næstu árum. Nú þegar er neikvæðra áhrifa af umfangsmiklu laxeldi í sjókvíum farið að gæta. Eldi á laxi í opnum sjókvíum felur að venju í sér að lax sleppur úr kvíunum í miklu magni og veldur erfðablöndun hjá náttúrulegum laxastofnum auk vandamála sem stafa af laxalús, mengun og sjúkdómahættu. Hrygning norskættaðra eldislaxa í íslenskum ám er eitthvað sem engan hefði getað órað fyrir að menn gætu fallist á sem fórnarkostnað laxeldis. En nú þegar upplýsingin lýsir sem aldrei fyrr og sjálfbær umgengni við náttúruna þykir sjálfsögð, þá er þetta dómur íslenskra laxastofna. Ef svo fer sem horfir þá styttist í að sagan sé öll í tilfellum smæstu laxastofnanna sem næstir eru sjókvíaeldissvæðunum. Hver saga hinna verður veit nú enginn. Hryggðarsaga nágrannalandanna frá eldi á laxi í opnum sjókvíum er dæmisaga sem svíður undan. En við virðumst ekki geta lært af þeirri reynslu og bætum gráu ofan á svart með því að notast við fjarskyldan eldisstofn af erlendum uppruna. Norðmenn gengu þó ekki svo langt, en engu að síður hefur sjókvíaeldi þar við land valdið óbætanlegum skaða á fjölmörgum náttúrulegum laxastofnum þeirra. Þessi vá af völdum sjókvíaeldisins og áætlanir um gríðarlega aukningu á næstu árum, kallar á að gripið verði til varna fyrir íslenska laxastofna.

...
Náttúruváin og óveðursskýin sem hrannast upp

Íslenskum laxastofnum og fleiri þáttum í íslensku lífríki hefur verið sköpuð heimatilbúin hætta. Í reynd slík að nú þegar væri Veðurstofan búin að gefa út gula viðvörun ef þetta mál væri á þeirra könnu. Þessi áskapaða hætta er vörðuð stjórnvaldsaðgerðum; allt frá leyfisveitingum og eftirliti, til afturköllunar leyfa ef skilyrði eru ekki uppfyllt. Vegna þess að umrædd náttúruvá er heimalöguð, þá hvílir rík skylda á hinu opinbera að uppfylla skyldur sínar. Síðasta ár hefur verið varðað mörgum mjög neikvæðum atburðum af vettvangi sjókvíaeldis á laxi sem eldisaðilar og aðrir þurfa að draga lærdóm af. Þeir atburðir sýna að opinberir aðilar sem koma við sögu þurfa að rækja skyldur sínar af meiri festu en verið hefur. Einungis þannig er hægt að tryggja viðunandi ábyrgð í þeim sjókvíaeldisrekstri sem leyfi hefur þegar verið gefið fyrir, og um leið tryggja tilvist þeirra laxastofna sem eru berskjaldaðir.

Eldi á  norskættuðum eldislaxi í opnum sjókvíum við Ísland hefur þrátt fyrir gríðarlegar aukaverkanir þess verið leyft með vísun í atvinnusköpun og mögulegan efnahagslegan ábata sem slíkum rekstri getur fylgt á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þeir sem eiga veiðirétt hérlendra áa, bændur og aðrir landeigendur, ítreka hinsvegar þá hættu sem umrætt laxeldi setur íslenska laxastofna í - og þar með þann mikla efnahagslega ávinning sem stangveiðar í ám og afleidd þjónusta skilar landsbyggðinni, sem og þjóðarbúinu. Augljósasta dæmi um sláandi skaða sem fylgir sjókvíaeldi á laxi í opnum sjókvíum í miklum mæli felst í þeirri erfðablöndun sem náttúrulegir íslenskir laxastofnar verða fyrir vegna eldislaxa sem sleppa úr sjókvíunum og taka þátt í hrygningu með náttúrulegum löxum í ánum. Hinsvegar má ekki gleyma öðrum skaða sem fylgir laxeldi af þessum toga. Dæmi um það eru skertar lífslíkur laxa úr ám sem falla í firði þar sem sjókvíaeldi á laxi er stundað vegna sníkjudýrsins laxalúsar sem eldið magnar upp í fjölda. Síðan er það stóra sprengjan í farangri sjókvíaeldisins, nefnilega sjúkdómahættan sem slíkt eldi í stórum stíl felur í sér. Líkja má þeirri sjúkdómahættu sjókvíaeldis við að gangsett séu tundurdufl. Við getum leyft okkur að vona þau springi ekki eða einungis þau smærri. En vitum jafnframt að þegar stóru höggin ríða af fyrir tilstilli sjúkdóma sem berast inn á svæði vegna eldisins, þá geta heilu laxastofnarnir legið í valnum líkt og dæmi frá öðrum löndum sýna.

...
Áhættan við áhættumatið

Árið 2017 gerði Hafrannsóknastofnun áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.  Á grunni þess áhættumats eru settar skorður við umfangi sjókvíaeldis á laxi hérlendis. Áhættumatið gerir ráð fyrir því að umfang sjókvíaeldis miðist við að erfðablöndun fari ekki yfir tiltekin mörk - og með hliðsjón af því eru teknar ákvarðanir um hve mikið magn af eldislaxi megi ala í opnum sjókvíum hér við land. Það framtak stjórnvalda í þeirri stöðu sem upp var komin var af hinu góða, en það sama verður ekki sagt um þá ákvörðun stjórnvalda; það að leyfa eldi á frjóum norskum laxi í opnum sjókvíum.  Áhættumat á erfðablöndun eldislaxa og náttúrulegra laxa verður að vera hafið yfir allan vafa, en sú er ekki reyndin með það áhættumat sem nú er unnið eftir. Áhættumatinu var vissulega ætlað að tryggja ábyrgara sjókvíaeldi á laxi, samanborið við það ef þess nyti ekki við. Sá tilgangur með áhættumatinu getur hinsvegar snúist upp í andhverfu sína ef forsendur matsins byggja á viðmiðum sem vanmeta áhrif eldisins. Slíkt vanmat er til staðar í áhættumati Hafrannsóknastofnunnar. 
...

Nauðsynlegar umbætur 

Þrennt þarf að lagfæra svo forsendur áhættumats Hafrannsóknastofnunar standist og það geti þjónað ætluðum tilgangi sínum; sem er að gefa ábyrgt mat á þeirri áhættu sem felst í erfðablöndun eldislaxa úr sjókvíeldi við alla laxastofna landsins. Í fyrsta lagi þarf áhættumatið að taka tillit til allra laxastofna landsins, þar með talið smæstu laxastofnanna - sem áhættumatið gerir ekki í dag. Stofna sem aukinheldur eru að hluta í næsta nágrenni sjókvíaeldisins þar sem erfðablöndun frá hendi eldislaxanna er mest. Í öðru lagi er í áhættumatinu miðað við að íslenskum laxastofnum sé hætta búin af erfðablöndun þegar hlutur eldislaxa í hrygningu þeirra hafi náð 4%. Þetta viðmið byggir á erlendum gögnum yfir hver séu neðri mörk á flakki hjá náttúrulegum laxastofnum, en rétt væri að nota íslensk gögn sem sýna að slíkt hlutfall flakks hjá íslenskum laxastofnum er mun lægra. Notkun á erlenda viðmiðinu gerir það að verkum að tilvist náttúrulegra íslenskra laxastofna er í reynd töluvert meiri hætta búin af erfðablöndun en áhættumatið gerir ráð fyrir. Í þriðja lagi er í áhættumatinu ekki tekið tillit til þess að eldislaxinn sem um ræðir er ekki af innlendum uppruna, heldur norskættaður lax. Að jafna hrygningarþátttöku laxa af erlendum uppruna saman við hrygningarþátttöku laxa sem runnir eru frá stofnum af sama landsvæði eða aðliggjandi landsvæðum er ekki réttlætanlegt því slíkt vanmetur þá áhættu sem felst í þeirri erfðablöndun sem fylgir hrygningarþátttöku norskættaðra eldislaxa í íslenskum ám. 

Vegna ofannefndra ágalla er ljóst að strax þarf að lagfæra áhættumatið á erfðablöndun eldislaxa við náttúrlega laxa, svo það þjóni hlutverki sínu. Uppfæra þarf í áhættumatinu þröskuldsgildi erfðablöndunar með hliðsjón af íslenskum gögnum um flakk náttúrulegra laxa. Taka þarf tillit til smæstu laxastofna landsins í áhættumatinu. Ennfremur þarf að meta þá umframáhættu sem fólgin er í því  að nýta fjarskylda norskættaða eldislaxa í íslensku sjókvíaeldi og taka tillit til þeirra upplýsinga í áhættumatinu.

Upplýsingar um flakk hjá laxi af náttúrulegum laxastofnum hérlendis eru marktæk gögn sem strax er hægt að nýta beint sem viðmið inn í áhættumat á erfðablöndun eldislaxa við íslenska laxa, í stað þeirra erlendu viðmiða sem nýtt eru í dag.  Auðvelt er að taka inn í matið smáa laxastofna þar sem skráð veiði er fyrir hendi. En í tilfellum fáliðaðra laxastofna þar sem ekki eru tiltæk skráð gögn yfir árlega veiði til að fá innsýn í stærð þeirra, má koma þeim stofnum inn í áhættumatið með því að nýta fyrirliggjandi gögn sem aflað hefur verið með svæðisbundnum rannsóknum. Tiltæk eru gögn rannsóknafyrirtækisins Laxfiska yfir stærð hrygningarstofna laxa tiltekinna áa við Arnarfjörð sem nýta má beint.  Í tilfelli annarra smárra laxastofna sem þekktir eru frá rannsóknum á seiðabúskap áa eða á grunni upplýsinga um óskráðar veiðinytjar - þá má byrja á því að leggja mat á stærð þeirra stofna, sem síðan væri skipt út með öflun nákvæmari gagna. 

Á meðan sjókvíaeldi á frjóum norskættuðum eldislaxi í opnum sjókvíum er leyft þá þarf slíkur rekstur að fylgja mjög ströngu eftirliti. Ef það á að ganga skammlaust þá þarf að ráðast strax í nauðsynlegar úrbætur á viðmiðum, verkferlum og eftirfylgni, svo tryggja megi tilvist íslenskra laxastofna á meðan slíkur rekstur er leyfður. Samhliða þarf að hefja vinnu við áætlanagerð sem hefur það að markmiði að leggja af eldi á frjóum eldislaxi í opnum sjókvíum svo fljótt sem verða má. Íslenskir laxeldismenn sem í dag halla sér að ósjálfbærum mengandi rekstri opinna sjókvía ættu að líta til vistvænni eldisaðferða á laxi. Dæmi um það væri eldi á ófrjóum laxi eða eldi á frjóum laxi í tryggilega aflokuðum eldisrýmum sem bjóða ekki upp á að laxinn sleppi í sífellu líkt og reyndin er í tilfelli opinna sjókvía. 

 ...

Tilvistarréttur laxastofna   

Víkjum þá aftur að spurningu Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni um það hvað sé aftaka og hvað ekki. Í áhættumati Hafrannsóknastofnunar er tilgreint hvaða laxveiðiár séu í mestri hættu vegna laxeldis í opnum sjókvíum hér við land. Ár sem fóstra minnstu laxastofnana eru ekki til umræðu í því áhættumati. Ef yfirfæra ætti þetta varúðarsjónarmiðalíkan Hafrannsóknastofnunar yfir á vangaveltur Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni; þá er ljóst að svarið við vangaveltum Jóns væri á þá lund að ef maður sálgaði verulega smávöxnum manni þá væri það ekki eiginlegt dráp. Kannski var kóngsins böðull Sigurður Snorrason einmitt þeirrar gerðar. Og þótt enginn sakni Sigurðar þá er víst að þeir laxastofnar sem hverfa af sjónarsviði íslenskrar náttúru vegna undanlátssemi stjórnvalda á kostnað náttúrunnar, verður sárt saknað sem og óspillts ástands þeirra laxastofna sem skaðast munu. 

...
Íslenskir laxastofnar verði áfram hluti af náttúru Íslands

Nýting okkar á náttúruauðlindum Íslands er hluti af því lífi sem felst í að byggja þetta land. Um leið er það sjálfsögð skylda okkar að skila þeirri náttúru frá kynslóð til kynslóðar með því að umgangast hana með þeim hætti að hún beri ekki skaða af. Tilvera og heilbrigði íslenskra laxastofna er ekki einkamál stjórnvalda eða Íslendinga yfir höfuð. Íslendingar þurfa að rísa undir þeirri ábyrgð sem felst í því að vera hluti íslenskrar náttúru. Laxar Íslands höfðu dvalið hérlendis í árþúsundir er landnám hófst; þeir eru hinir upprunalegu íbúar Íslands - og þá á að umgangast sem slíka.  Nánari umfjöllun mína um þetta málefni er að finna á vefsvæði Laxfiska í greinagerðinni „Hugvekja um örlög íslenskra laxastofna í ljósi eldis á laxi í opnum sjókvíum við Ísland“..

Ítarlegri umfjöllun um málefnið má lesa í greininni  Hugvekja um örlög íslenskra laxastofna í ljósi eldis á laxi í opnum sjókvíum við Ísland

                         eldislaxar_lusasar_bakuggaskemmd_talknbardsskemmd_fifustadadalsa_2018-mynd_johannes_sturlaugsson

Norskættaðar eldislaxahrygnur frá sjókvíaeldi sem veiddust í Fífustaðadalsá í október 2018.

There are no translations available.

  

             Eldislaxar gripnir glóðvolgir

                       á hrygningarslóð

                             Jóhannes Sturlaugsson

                      

Í fallegri á, í fallegum dal við fallegan fjörð er lítill íslenskur laxastofn - og gestkomandi norskættaðir eldislaxar sem enginn bauð. Á hrygningarsvæði skammt ofan sjávaróss þar sem Fífistaðadalsá rennur í Arnarfjörð, þá veiddust í liðnum október tveir laxar í rannsóknum Laxfiska, sem samkvæmt greiningareinkennum virtust runnir frá sjókvíaeldi á laxi. Það mat á uppruna laxanna hefur nú verið staðfest með greiningu lífsýna af hálfu Matís.

Eldislaxarnir sem veiddust voru kynþroska hrygnur sem komnar voru að hrygningu. Þær voru 9% af þeim laxi sem var mættur þetta árið til hrygningar í Fífustaðadalsá. Þessi háa hlutdeild eldislaxanna af hrygningarlaxi í ánni er raunverulegt dæmi um í hve mikilli hættu litlir laxastofnar í nálægð við sjókvíaeldissvæði eru fyrir erfðablöndun af hálfu eldislaxa.

Íslenskum laxastofnum stafar öðru fremur hætta af eldi laxa í opnum sjókvíum hér við land vegna erfðablöndunar þeirra norskættuðu eldislaxa sem þar eru aldir og sleppa í miklum mæli vegna vankanta eldisaðferðarinnar. Miðað við þau um 15000 tonn af laxi sem ætla má að séu í sjókvíaeldi í dag, þá lítur þetta ekki vel út fyrir Fífustaðadalsárlaxinn né aðra íslenska laxastofna. Því búið er að ráðgera árlegt eldi á 71 þúsund tonnum af eldislaxi og þar af veita leyfi fyrir eldi á 30 þúsund tonnum. Hófsöm norsk viðmið sem við styðjumst við varðandi þann fjölda laxa sem sleppur úr kvíum að jafnaði fyrir hvert tonn laxa sem alið er í sjókvíum (0,4-0,8 laxar/tonn), sýna að þegar 71 þúsund tonna eldiskvóti verður fullnýttur þá munu 28-56 þúsund frjóir eldislaxar af norskum uppruna vera frítt syndandi árlega hér við land. Í því sambandi er mikilvægt að muna að árlegur heildarfjöldi íslenskra laxa sem tekur þátt í hrygningunni er 40 - 50 þúsund laxar. Enda þótt aðeins hluti eldislaxanna skili sér í árnar og taki þátt í hrygningunni þar, þá lítur þetta illa út. Reyndar er mögulegt að sviðsmyndin sé enn verri enda mögulegt að fleiri laxar sleppi úr kvíum hér við land en við Noreg. Í því sambandi benda á að gögn sýna að allt að ríflega tvöfalt fleiri laxar sleppa úr kvíum við Skotland en við Noreg.

Fundur eldislaxanna í haust kom til vegna vöktunarrannsókna fyrirtækis míns Laxfiska, í samstarfi við áreigendur í ám í Ketildölum við Arnarfjörð. Árið 2015 hófust þær rannsóknir á laxa- og silungsstofnum í þremur ám, sem ætlað var að sýna hvaða áhrif vaxandi umfang sjókvíaeldis á laxi hefur á þá stofna. Þessar ár við Arnarfjörð eru Selárdalsá, Fífustaðadalsá og Bakkadalsá. Á vefsíðu Laxfiska má finna skýrslur er greina frá niðurstöðum rannsóknanna 2015 og 2016. Síðar í vetur verður birt skýrsla er greinir frá rannsóknarniðurstöðum frá 2017 og 2018. En auk annars koma þar við sögu gögn yfir eldislaxa og arfgerðargögn yfir laxastofnana í Fífustaðadalsá og Selárdalsá sem verið er að vinna núna.

Í haust var farið um árnar á hrygningartíð fjórða árið í röð. Með í þá för slóst fréttamaðurinn Kjartan Þorbjörnsson (Golli) frá Iceland Review, sem vildi kynna fyrir lesendum blaðsins rannsóknina og þá stöðu sem íslenskir laxastofnar væru í vegna eldis á laxi í opnum sjókvíum. Það gerði hann með grein sem nú var að birtast í tímaritinu Iceland Review og með frétt á vef Iceland Review.

                         Norskættaðar eldislaxahrygnur frá sjókvíaeldi sem veiddust í Fífustaðadalsá í október 2018

Norskættaðar eldislaxahrygnur frá sjókvíaeldi sem veiddust í Fífustaðadalsá í október 2018.

There are no translations available.

            Sjóbirtingur í lífsins sjó

                     Jóhannes Sturlaugsson

                     Grein sem birt var í Morgunblaðinu 31. maí 2018


            Birtingar sem dvelja í faðmi íslenskra jökla eru fremstir meðal

            jafningja. Um það vitna stórvaxnir birtingar og stofnar þeirra á

            jöklaslóðum. Þá gildir litlu hvort jökulbráðin sem fóstrar

            sjóbirtinginn hefur síast um jarðlögin áður en hún skilar sér til

            hans í tærum lindum– eða beljar fram ósíuð. Jökulárnar eru

            lífæð sem flytur næringarefni á ætisslóð sjóbirtinganna,

           með sjávarströndum út frá ósum þeirra áa.  

sjobirtingur_sea_trout-salmo_trutta_in_river-copyright_johannes_sturlaugsson_laxfiskar

 

Síritandi sjóbirtingar                                                                                               

 Sjóbirtingar úr faðmi Vatnajökuls eru umfjöllunarefni þessara skrifa. Sjóbirtingurinn er vorboðinn í ferskvatni Íslands, en frá vori og fram á sumar hefur hann árlegar göngur sínar til sjávar. Þá sjávardvöl hef ég rannsakað nánast árlega í ríflega 20 ár. Nú þegar sporðaköst sjóbirtinganna eru í algleymi í aðdraganda sjávardvalar þeirra, þá er við hæfi að kynna til sögunnar ítarlegar upplýsingar um sjávardvöl þessara silfurslegnu urriða. Í árslok 2017 birtist grein mín „The Marine Migration and Swimming Depth of Sea trout in Icelandic waters“ í bókinni Seatrout: Science and Management. Megin umfjöllunarefni greinarinnar er sjávardvöl sjóbirtinga, með hliðsjón af því hvernig sjógangan afmarkast í tíma og einnig í rúmi, hvað varðar dýpi sjávarins sem fiskarnir halda sig á. Greinin byggir á úrvinnslu gagna sem ég safnaði í nánu samstarfi við sjóbirtinga úr Grenlæk og Tungulæk á 11 árum (1996-2011). Þeir birtingar voru merktir með síritandi rafeindafiskmerkjum, í ánum áður en þeir gengu í sjó. Því má segja að sjóbirtingarnir hafi sjálfir séð um aðskrá hegðun sína og umhverfi á meðan sjávardvölinni stóð. Mæliniðurstöðurnar setti ég síðan fram með hliðsjón af kyni þeirra, stærð, aldri og lífssögu, en gögnin í heild opnuðu áður óþekkta sýn á lífshætti þessara fiska í sjó.

Langtímavöktun á atferlisvistfræði                                                                       

 Rannsóknaniðurstöðurnar byggja á hundruðum þúsunda mælinga á fiskdýpi og sjávarhita þau 11 ár sem hér eru til umræðu, þar sem tíðustu mælingarnar voru á 5 sekúndna fresti. Aukinheldur voru til viðbótar þessu framkvæmdar mælingar á seltu sjávar yfir þrjú þessara ára. Mæligögnin komu frá þeim merktu fiskum sem endurveiddust, bæði í stangveiði og í sértækum veiðum mínum á mælimerktum fiskum að hausti og í byrjun vetrar. Alls voru skráðar sjóferðir hjá 41 birtingi, en heildarfjöldi skráðra sjóferða var 47 því í fáeinum tilvikum reyndist unnt að skrá 2 eða 3 sjóferðir hjá sama fiskinum. Með þessum hætti reyndist unnt að fá fram hvert væri samspilið á milli hegðunar fiskanna og umhverfis þeirra. Gögn þessi yfir sjógöngu sjóbirtinganna eru einstök í sinni röð á veraldarvísu og vitna samhliða um eitt fárra tilvika þar sem atferlisvistfræði fiskistofna í sjó hefur verið kortlögð með langtímavöktun (≥10 ár).

Aldur og forsaga fiskanna                                                                                     

Sjóbirtingarnir sem skiluðu gögnum um sjávardvöl sína voru við merkingu fjögurra til tíu ára gamlir. Þessir stálpuðu geldfiskar og stærri hrygningarfiskar voru 32 til 76 cm langir við merkingu, en voru 47 til 81 cm langir við endurheimtu. Lífssaga þeirra sem lesin var úr hreistri þeirra endurspeglaði dæmigerðan lífsferil íslenskra sjóbirtinga sem dvelja samfellt í ferskvatni í tvö til fjögur ár áður en þeir ganga fyrstí sjó. Í kjölfarið ganga þeir síðan árlega í sjó það sem eftir er ævinnar. Þegar birtingarnir hafa lokið tveimur til fjórum sjóferðum þá hrygna þeir í fyrsta sinn og síðan árlega eftir það.

Tímaspönn sjávargöngunnar                                                                                    

Yfir hvaða tímabil teygði sjávardvöl sjóbirtinganna sig öll þessi ár? Dæmigerð sjóganga birtinganna hófst í maí eða júní og lauk síðan á tímabilinu frá síðari hluta júlí og fram í september. Sjávardvölin endurspeglaði öðru fremur þann tíma sumars þegar bjart næturhúmið leysir myrkrið af hólmi, sem hentar vel fiski sem byggir ætisöflun sína á sjón öðru fremur. Sjógangan hjá þessum fjögurra til ellefu ára sjóbirtingum spannaði tímabil sem nam frá 23 dögum og upp í 183 daga. Að meðaltali var sjógangan 59 daga löng.

1.mynd-sjavargangan_og_gangan_i_ana_sjobirtingur_1996_2010-johannes_sturlaugsson

1. mynd. Hlutfallslegur fjöldi sjóbirtinga sem voru að hefja sjógöngu sína eða ljúka henni á grunni rannsóknarvikna, með hliðsjón af þeim 46 sjóferðum sem skráðar voru 1996-2010.

Ellibelgur á öðrum nótum                                                                                             

Ein skráð sjóganga var hinsvegar fjarri því að vera dæmigerð. Þar var um að ræða sjávardvöl elsta og stærsta sjóbirtingsins sem sýndi gönguhegðun sem var ekki í neinu samræmi við venjubundna hegðun íslenskra sjóbirtinga. Sá birtingur skráði sig í sögubækurnar þegar hann eftir 188 daga sjávardvöl í sinni 8. sjógöngu,veiddist sumarið 2011 í troll við makrílveiðar um 35 km suðaustur af Surtsey. Þá var þessi 81 cm langi hængur úr Tungulæk staddur um 160 km vestur af heimaósi sínum, Veiðiósi, þar sem Skaftá og Grenlækur renna til sjávar. Mælimerki þess gamla hafði þá skráð 3 síðustu sjóferðir hans (2009, 2010 og 2011) en áður hafði ég veitt hann til að merkja hann og mæla á riðstöðvum Tungulækjar, fyrst 2007 og aftur 2008. Fyrsta skráða sjávardvöl þessa birtings árið 2009 var dæmigerð (maí-ágúst). Ári síðar hefst ætisganga birtingsins í sjó á hefðbundnum tíma í maí, en sjávardvölin varð lengri en dæmi voru um hjá sjóbirtingi hérlendis (183 dagar).Þriðja skráða sjóferð þessa birtings (þá 12 ára gamall) hófst í lok desember, sem um leið varð fyrsta skráða tilvik þess að íslenskur sjóbirtingur byrji sjógöngu sína að vetrinum, þ.m.t. þegar litið var til fyrri ætisgangna sama birtings. Sú staðreynd,ásamt löngum dvalartíma fisksins í sjó og það hve langt hann var kominn frá heimaósi sínum þegar hann veiddist, bendir til þess að sjóganga aldurhniginna stórvaxinna sjóbirtinga geti almennt verið með öðrum hætti en þeirra sem yngri og minni eru.

Í faðmi sjávar                                                                                                           

Rannsóknir mínar sýndu að sjóbirtingur á sjógöngu fer með ölduskautum sjávar og er strandsækinn. Á 2. mynd má sjá ferla er sýna fiskdýpið sem tiltekinn sjóbirtingur fór um á meðan sjávardvöl hans stóð og hitann á þeirri slóð.

2.mynd-gonguhegdun_sjobirtings_i _sjo_2004-johannes_sturlaugsson_laxfiskar

2. mynd. Gönguhegðun sjóbirtings úr Grenlæk í sjó, út frá tíma, dýpi á fiskinum og hita áþví dýpi, auk samskonar upplýsinga úr ánni rétt fyrir og eftir sjógönguna. Stærð fisksins viðmerkingu og endurheimtu er tilgreind.

Þetta ríka uppsjávareðli sjóbirtinga sést vel á 3. mynd þar sem viðvera þeirra innan ákveðinna dýptarbila er sýnd. Hinsvegar þarf að hafa í huga að oftþegar sjóbirtingurinn er uppi undir yfirborði sjávar þá er hann gjarnan einnig staddur upp undir fjöru, sem þýðir að sjávarbotninn er þá líka skammt undan. Meðaldýpið sem birtingarnir héldu sig yfir sjógönguna spannaði frá 2,0 m og upp í 3,8 m, sem sýnir vel hve efsta lag sjávarins er sjóbirtingunum kært. Skráð hámarksdýpi hjábirtingum á sjógöngu var 70 metrar. Mesti skráði sundhraði sjóbirtinga á millidýptarlaga var 2,2 líkamslengdir á sekúndu.

 3.mynd-sjobirtingur_fiskdypi_1996_2011-johannes_sturlaugsson_laxfiskar

3. mynd. Dýpið sem sjóbirtingarnir héldu sig á yfir sjávardvölina með hliðsjón af vöktunarárum og tilgreindum dýptarbilum.


Í lokin langar mig að geta þess atferlisrannsóknir á stálpuðum geldfiskum og hrygningarfiskum sjóbirtinga í sjó hér við land eru ekki bundnar af þessum rannsóknum undan Suðurlandi né öðrum rannsóknum mínum á því grunnsævi, því að árið 2011 hóf ég rannsóknir á sjóbirtingi úr Botnsá sem skilað hafa gögnum af sama toga yfir 6 ára tímabil. Sú rannsókn skilaði aukinheldur fyrstu gögnum hérlendis yfir landfræðilega dreifingu birtinga á þeim lífsskeiðum yfir sjávargönguna frá ferðum þeirra yfir tæplega 40 km langan sjávarkafla, eftir Hvalfirði endilöngum og rétt út fyrir mynni hans. En sögur þeirra sægarpa Botnsár segi ég síðar.

Suðurströndin er umferðarmiðstöð er byggir á feikn af svörtum sandi.                    Sjóbirtingur, sandsíli, síld, selur og skúmur dvelja þar hver í sínu standi.

Á vefsíðu rannsóknafyrirtækis míns Laxfiska má finna greinina The marine migration and swimming depth of sea trout in Icelandic waters sem vitnað er til og skýrsluna Swimming depth of sea trout sem að hluta var skrifuð um sama efni.

Page 2 of 7

Reports

  Hradastadir 1

  IS-271 Mosfellsbaer

  ICELAND

 

  Email: johannes@laxfiskar.is

  Tel: + 354 - 664 7080